Breyttir starfshættir Norðurlandaráðs
Mánudaginn 04. mars 1991


     Matthías Á. Mathiesen :
    Frú forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður hér. Það hefur komið fram, sem ég vissi, hver er afstaða Alþingis, alþingismanna til norræns samstarfs og með hvaða hætti Alþingi hefur þar starfað. Það var réttilega bent á það af hv. 2. þm. Reykv. Ragnhildi Helgadóttur með hvaða sérstökum hætti norrænt samstarf hefur verið og þannig viljum við hafa það.
    Ég vil taka undir það sem hv. 3. þm. Austurl. sagði, að við höfum tapað hálfleik. En hvað gera menn í hálfleik þegar þeir hafa tapað fyrri hluta leiks? Þá undirbúa þeir sig undir síðari hálfleikinn, hvort heldur um er að ræða vörn eða sókn og til þess er nú sú umræða sem hér fer fram.
    Hv. 2. þm. Reykn. Ólafur G. Einarsson lýsti því skýrt og skorinort að hann er andvígur þessari breytingu. Þannig er það að mínum dómi um flesta sem eru í sendinefnd okkar í Norðurlandaráði. Auk þess undirstrikaði hann að eftir að ekki Sighvati Björgvinssyni heldur íslenskum alþingismanni var hafnað sem formanni í einni af fimm nefndum ráðsins, þá eigi að koma því svo fyrir í starfsreglum ráðsins að Ísland hafi einn nefndarformann. Það fer svo að sjálfsögðu eftir því hvernig uppskipti verða í samstarfi þingmanna Alþingis í Norðurlandaráði. Af 20 ára reynslu minni sem Norðurlandaráðsþingmaður, hvort heldur er sem fulltrúi Alþingis eða ríkisstjórnar, veit ég hvernig samstarfið þar hefur verið og hversu þýðingarmikið það hefur verið fyrir þingmenn að hafa það starf á sínum höndum að skipa formennsku í einni af þeim þýðingarmiklu nefndum sem Norðurlandaráð hefur.
    Ég vek svo athygli á því að í samstarfi norrænna þjóða erum við ein þjóð á móti hinum. Þetta gildir víðar en í norrænu samstarfi. Ég bendi þá á t.d. þar sem við störfum á vettvangi Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þar er þeirri starfsemi þannig háttað að fulltrúum í stjórnum þessara stofnana er skipt á milli Norðurlandanna þannig að Ísland á þar sinn fulltrúa fimmta hvert ár. Þá er að sjálfsögðu sótt til þeirrar fyrirmyndar sem Norðurlandaráð og samstarf Alþingis og Íslendinga hefur þar verið. Svo þakka ég hæstv. ráðherra fyrir hans svör og öðrum þingmönnum fyrir þátttöku og undirtektir í þessum umræðum.