Opinberar framkvæmdir umfram fjárlög
Mánudaginn 04. mars 1991


     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef óskað eftir þessari umræðu utan dagskrár í tilefni af því að fyrir helgi kom hæstv. fjmrh. í fjölmiðla og kynnti þar tillögur sínar, sem hann hafði áður lagt fyrir í ríkisstjórn, um að flýta opinberum framkvæmdum á þessu ári umfram fjárlög og lánsfjárlagafrv. sem fyrir liggur um allt að 2.000 millj. kr. Hæstv. ráðherra greindi einnig frá tilteknum verkefnum sem hann var að gera tillögur um að ráðist yrði í á þessu ári. Ýmislegt er athyglisvert við þessa tillögugerð.
    Í fyrsta lagi komu tillögurnar fram á meðan hæstv. forsrh. er erlendis og ýmsir aðrir ráðherrar vegna starfa sinna á Norðurlandaráðsþingi.
    Í öðru lagi benda þessar tillögur til þess að hæstv. fjmrh., eða ríkisstjórnin, telji að samningar um álver muni ekki nást á þessu ári og því verði horfið frá undirbúningsframkvæmdum þess vegna.
    Í þriðja lagi er það óvenjulegt að fjmrh. birti tillögur um einstakar framkvæmdir sem heyra undir tiltekna fagráðherra nema um sé að ræða mál sem tekin hefur verið ákvörðun um í ríkisstjórn.
    Í tilefni af þessum fregnum hef ég óskað eftir að spyrja hæstv. forsrh. hér utan dagskrár um stöðu þessara mála:
    1. Hefur ríkisstjórnin afskrifað framkvæmdir til undirbúnings álvers á þessu ári?
    2. Hefur ríkisstjórnin þess í stað tekið ákvörðun um að verja allt að tveimur milljörðum til opinberra framkvæmda umfram fjárlög og lánsfjárlagafrv.?
    3. Er hlutverkum ráðherra í ríkisstjórninni hagað þannig að það sé á verksviði fjmrh. að gera tillögur um vegamál, svo sem tvöföldun Reykjanesbrautar, framkvæmdir í flugmálum, t.d. á Egilsstaðaflugvelli og við flugskýli á Keflavíkurflugvelli, um hafnarmannvirki, t.d. vegna þilplötuverksmiðju í Þorlákshöfn?
    4. Ef þetta mál er hins vegar á vegum ríkisstjórnarinnar í heild eða einstakra fagráðherra, hvernig hyggst þá ríkisstjórnin undirbúa tillögur um skiptingu á þessu aukna framkvæmdafé?