Opinberar framkvæmdir umfram fjárlög
Mánudaginn 04. mars 1991


     Kristinn Pétursson :
    Hæstv. forseti. Ég hrökk nú satt að segja við þegar ég sá hæstv. fjmrh. á skerminum tilkynnandi allar þessar ákvarðanir, að nú stæði til að fara að gera hér einhver ósköp, því að hann var búinn að lýsa því margsinnis yfir í þessum ræðustól að alls konar tímamótaaðgerðir hafi hann verið að gera með að koma með fjáraukalög og nú er hann allt í einu kominn á hraðan flótta frá öllum þessum tímamótaákvörðunum.
    Hæstv. forsrh. sagði hér áðan að ekkert af þessu hefði verið rætt í ríkisstjórninni, en það er spurning hvernig málin eru reifuð upp. Að sjálfsögðu er ágætismál að ræða um að auka framkvæmdir en það ætti þá að vera komið fram fyrr, ekki nú þegar þinginu er að verða lokið. Mér finnst fyllilega koma til greina að auka opinberar framkvæmdir en það verður þá jafnframt að koma hér með fjáraukalög. Er það ekki kjarni málsins? Hæstv. fjmrh. ætti þá að koma hér inn í þingið með fjáraukalög, eins og hann hefur sjálfur verið að reyna að gera, en er nú kominn, eins og ég segi, á hraðan flótta frá þeirri stefnu sem hann var sjálfur að reyna að marka. Mér finnst hann vægast sagt sýna Alþingi og samstarfsráðherrum lítilsvirðingu með því að fara svona í þetta mál. En það er kannski einmitt það sem mátti búast við.