Opinberar framkvæmdir umfram fjárlög
Mánudaginn 04. mars 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Þetta er nú sérkennileg umræða og ef það er kosningasvipur á einhverju, þá er það nú af henni. Ég er satt að segja dálítið hissa á því að jafnþingvanir menn eins og hv. þm. Pálmi Jónsson og Karvel Pálmason skuli ekki gera sér grein fyrir því að það er í verkahring fjmrh. að draga saman í ríkisstjórn tillögur, bæði varðandi fjárlög og fjáraukalög. Það hefur ávallt verið í verkahring fjmrh. og verður áfram. Í samræmi við þá vinnuskyldu fjmrh. og vegna þess að nú líður senn að þinglokum og frv. til lánsfjárlaga hefur ekki enn verið afgreitt hér á hv. Alþingi kom ég með minnisblað inn í ríkisstjórnina sl. föstudag vegna þess
að til stóð í þessari viku að hefjast handa við að ljúka afgreiðslu lánsfjárlaga, þar sem ég tók saman það sem ég taldi nauðsynlegt að ríkisstjórnin fjallaði um svo að hv. fjvn. þessarar deildar og væntanlega Ed. einnig gæti lokið því verki sem hér þarf að ljúka. ( KP: Þetta er sameinað þing.) Hvað er sameinað þing? ( KP: Við erum í sameinuðu þingi.) Já, ekki get ég gert að því þó að utandagskrárumræðan sé í Sþ. ( KP: Ráðherrann sagði: í þessari deild.) Nú, ég bið forláts á því.
    Á þessari skrá voru erindi sem fjmrn. höfðu borist, m.a. frá Flugleiðum, en forsvarsmenn þess fyrirtækis hafa komið á minn fund og tjáð mér það að fyrirtækið væri tilbúið að flýta framkvæmdum við flugskýlisbyggingu á Keflavíkurflugvelli sem hefur lengi verið í umræðu, m.a. við utanrrn. og fjmrn. í mjög langan tíma, til þess að koma í veg fyrir að slík bygging á næstu árum ylli viðbótarþenslu í hagkerfinu ef um aðrar stórframkvæmdir væri að ræða á þeim tíma. Á sama hátt hafa forsvarsmenn Þorlákshafnar komið á fund í fjmrn. og óskað eftir því að fjmrn. beitti sér fyrir því að aflað væri heimildar í lánsfjárlögum til þess að hægt væri að fara í hafnarframkvæmdir í Þorlákshöfn ef tekst að gera samning um byggingu þilplötuverksmiðju í Þorlákshöfn. Jafnframt liggur fyrir að samgrh. hefur í ríkisstjórn, ekki bara einu sinni heldur tvisvar, minnst á það að eðlilegt kynni að vera, sérstaklega í sumar ef ekki verður farið í orkuframkvæmdir, að flýta fyrir með því að taka fyrr framkvæmdir við Egilsstaðaflugvöll og breikka Reykjanesbraut til þess að það þurfi ekki að sinna slíkum verkefnum þegar meginþungi orkuframkvæmdanna eða byggingarframkvæmda vegna nýs álvers verður í gangi.
    Á þessu minnisblaði var einnig minnst á loðnubæina, sem hér var kvartað yfir að ekki hefði verið minnst á, eins og jafnan er gert þegar fjmrh. tekur saman í ríkisstjórn þær hugmyndir og tillögur sem hann telur skynsamlegt að ríkisstjórnin og þingið fjalli um á lokastigi þessarar vinnu. Þar að auki er það þannig að tvennt af þessu sem hér hefur verið nefnt, stækkun Egilsstaðaflugvallar og breikkun Reykjanesbrautar, kunna að nýtast vel ef farið verður í Fljótsdalsvirkjun, og þegar í hana verður farið, og eins vegna framkvæmda við stóriðju á Suðurnesjum. Varðandi flugskýlið á Keflavíkurflugvelli, þá er það ljóst

að þeim sem hafa störf á vallarsvæðinu mun fækka á næstu mánuðum og missirum og þess vegna eðlilegt að hefja íslenska atvinnuuppbyggingu á því svæði.
    Tíminn er búinn, virðulegi forseti. Ég gæti sagt ýmislegt fleira um þetta, en þessi samantekt í ríkisstjórninni var fyllilega í samræmi við þau vinnubrögð sem þar hefur verið fylgt.