Opinberar framkvæmdir umfram fjárlög
Mánudaginn 04. mars 1991


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Fyrsta spurning hv. málshefjanda til forsrh. var sú hvort ríkisstjórnin hefði afskrifað framkvæmdir til undirbúnings álveri á þessu ári. Svarið er, eins og kom fram hjá hæstv. forsrh., nei. Það hefur hún ekki gert, því fer fjarri. Það er unnið að því að ljúka samningum um nýtt álver. Að því er stefnt að ljúka þeim í maí og fjármögnun framkvæmdanna af hálfu viðsemjenda okkar verði lokið í haust.
    Verkefnið nú er fyrst og fremst að mínu viti að koma í veg fyrir frekari tafir á þessu máli en orðið hafa. Tafirnar hafa hlotist af ýmsum sökum og nú síðast vegna ófriðarástands í veröldinni. Sem betur fer hefur nú stríðsaðgerðum verið hætt fyrir botni Persaflóa og því standa vonir til þess að úr muni senn rætast. En einmitt til þess að greiða fyrir framgangi málsins mun ég leggja fyrir þingið tillögur á næstu dögum til þess að staðfesta vilja þingsins til þess að samningarnir verði gerðir og til þess að afla nauðsynlegra heimilda til lántöku vegna undirbúningsverka sem brýnt er að í verði ráðist til þess að unnt verði að koma af stað þessari nauðsynlegu framkvæmd sem allra fyrst og án frekari tafa.
    Þetta er það sem mestu máli skiptir varðandi undirstöðu þeirra spurninga sem hér er hreyft. Þess vegna vildi ég, virðulegi forseti, koma því skýrt á framfæri við þingið að forsendan fyrir málinu er enn ekki rétt fundin í þessu máli. Því kem ég að því að það hefur ekki, eins og kom fram hjá forsrh., verið tekin nein ákvörðun um það í ríkisstjórninni að grípa til þeirra framkvæmdaráða sem nefnd hafa verið í fréttum. Hitt er rétt að sumt af því eru mál sem margsinnis hefur verið hreyft, t.d. bygging flugskýlis á Keflavíkurflugvelli fyrir Flugleiðir sem hafa ítrekað gengið eftir því við fjmrh. hvort þess væri kostur að fá niðurfellingu aðflutningsgjalda og skatta vegna slíkra framkvæmda. Það sama gildir að sjálfsögðu um vegalagnir frá Reykjanesbraut niður á hið fyrirhugaða verksmiðjustæði sem væri líka hin þarfasta framkvæmd. En kjarni málsins er sá að við þurfum nú fyrst og fremst að leggja grundvöll að atvinnu og tekjum fyrir þjóðarbúið, ekki að stofna til frekari útgjalda án þess að slíkur grundvöllur sé fundinn.