Opinberar framkvæmdir umfram fjárlög
Mánudaginn 04. mars 1991


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hingað til hefur það verið talin lífsnauðsyn að fá erlenda aðila til að reisa hér á landi mengandi álver og enn virðast menn vera á því að það muni verða reist þó að greinilegt sé að ekki eru allir hér sammála. Hæstv. iðnrh. fullyrðir að svo muni vera, það muni kannski frestast eitthvað örlítið, en það er greinilegt að hæstv. fjmrh. er búinn að afskrifa þetta allt saman miðað við þær tillögur sem hann hefur birt í blöðunum.
    Það er merkilegt að ríkisstjórnin hefur lítið sem ekkert gert í atvinnumálum í sinni tíð en svo virðist eiga að rjúka til núna rétt fyrir kosningar. Það hefði kannski verið nær að huga eitthvað að þessu máli fyrr og tryggja með raunhæfum hætti atvinnu í landinu í stað þess að eyða fé og tíma í álversvitleysuna sem löngu er orðið ljóst að er efnahagslegt glapræði, svo ég tali nú ekki um umhverfismálin sem því eru tengd.
    Hæstv. fjmrh. er greinilega að spila út kosningatrompi því að hann rýkur með tillögur sínar í blöðin áður en ríkisstjórninni gefst ráðrúm til að kynna sér þær, hvað þá að taka afstöðu til þeirra. Mikilvægara er fyrir hann að auglýsa sig fremur en að gera raunhæfar áætlanir í atvinnumálum.