Opinberar framkvæmdir umfram fjárlög
Mánudaginn 04. mars 1991


     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þau svör sem hann gaf hér áðan og raunar þessa umræðu. Það hefur komið í ljós að í ríkisstjórninni hefur ekki verið tekin ákvörðun um neitt af því sem hér lá til grundvallar, hvorki að hverfa frá öllum undirbúningi álvers á þessu ári, né auka fé upp í 2.000 millj. kr. til framkvæmda né um það á hvern hátt slíkar framkvæmdir verða undirbúnar. Allt þetta er í lausu lofti og fréttayfirlýsingar hæstv. fjmrh. eru þess vegna út í bláinn og, eins og hér hefur verið sagt, auðvitað bara kosningavíxill.
    Það hefur hins vegar líka komið í ljós í svörum hæstv. forsrh. að einstakir ráðherrar, auðvitað fagráðherrar, gera tillögur í sínum málaflokki. Það er hlutverk fjmrh. að gera tillögur um fjármagn sem á að fara til framkvæmda. Hér var lagt til fjármagn sem býður fólkinu upp á veislu, 2.000 millj. kr., vegna þess að á þessu ári eru á fjárlögum 400 millj. kr. til hafnarmannvirkja um allt land og 300 -- 400 millj. kr. til flugmálaframkvæmda um land allt. Svo kemur fjmrh. hér þegar líður að kosningum og býður til viðbótar upp á 2.000 millj. kr. til þessara verka.
    Ég held að það sjái allir hvað hér er á ferðinni. Ég get svo sem tekið undir það með hv. 1. þm. Norðurl. v. að maður kippir sér ekki upp við svona. Maður kippir sér í raun ekki upp við neitt sem kemur frá hæstv. fjmrh. né frá hæstv. ríkisstjórn eins og þessar umræður sýna þar sem enginn af þessum fjórum hæstv. ráðherrum sem hafa talað hefur eiginlega talað sama rómi heldur hver ofan í annan.