Afgreiðsla lánsfjárlaga
Mánudaginn 04. mars 1991


     Kristinn Pétursson :
    Hæstv. forseti. Mér finnst rétt að minna á það eftir að þessi umræða hefur farið fram að hæstv. fjmrh. var að lýsa yfir að þetta og hitt, sem ég ætla nú ekki að fara að telja upp hér, ætti að setja á lánsfjárlög. Það minnir okkur á það að lánsfjárlög hafa ekki enn verið afgreidd fyrir árið 1991. Ég vil nú leyfa mér að spyrja hæstv. forseta Sþ. og forseta Nd. hvort þeir telji forsvaranlegt að ráðherrar séu á ,,fittinu`` langt fram eftir ári og séu að lána peninga og ráðstafa fjármunum í þetta og hitt sem ekki er búið að afgreiða hér á hv. Alþingi. Hvað segja hæstv. forsetar Sþ. og Nd. um það? Er ekki einmitt upplagt að ræða það í framhaldi af þessu. Það gilda ákveðnar leikreglur hjá ráðherrum gagnvart Alþingi. Alþingi á að samþykkja lánsheimildir. Síðan eru ráðherrar fulltrúar svokallaðs framkvæmdarvalds til að framkvæma það sem Alþingi er búið að leyfa. Hér er um það að ræða að þegar er farið að lána peninga og framkvæma hluti í þjóðfélaginu sem Alþingi er ekki búið að samþykkja. Og hér eru menn að rugla saman að hægt sé að setja einhverjar framkvæmdir á lánsfjárlög. Hvílíkur þvættingur. Fjárlög eru það sem marka það sem gert er. Lánsfjárlög eru síðan afgreidd sem lánsheimildir til þess að fullnægja markmiðum fjárlaga. Lánsfjárlög eru ekki neitt til þess að framkvæma eftir. Hér er því um að ræða mjög mikinn rugling og sýnir ágætlega fram á það hvað menn eru meðvitaðir um það hver skylda þeirra er í þessum málum. Ég óska þess að fá að heyra hjá hæstv. fjmrh. hvenær þetta frv. til lánsfjárlaga komi nú og eins hjá hæstv. forsetum hvort þeir telji þessi vinnubrögð forsvaranleg.