Afgreiðsla lánsfjárlaga
Mánudaginn 04. mars 1991


     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Það er ekki í fyrsta sinn sem hæstv. fjmrh. heldur því fram hér blákalt að Sjálfstfl. hafi beðið um það að frv. til lánsfjárlaga yrði frestað. Og vegna þess að maður er nú farinn að þekkja svolítið þennan virðulega fjmrh., þá hafði ég snör handtök þegar hann undirbjó sig til þess að tala og náði í þingtíðindin þar sem umræður um þetta mál liggja fyrir frá orði til orðs. Ég hafði orð fyrir Sjálfstfl. við 1. umr. um þetta mál og vegna þess að fjmrh. hefur sagt það hér úr þessum ræðustól, þó að hann hafi ekki gert það í þetta sinn, að það hafi verið að sérstakri ósk minni, ég hafi beðið um að lánsfjárlögin yrðu ekki afgreidd, þá vil ég sérstaklega vitna í þau ummæli sem ég viðhafði hér hinn 20. des. sl. að fjmrh. áhorfandi úr sínu sæti. Ég sagði eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Ég hef miklar efasemdir um það að frv. til lánsfjárlaga eins og það er nú komið frá Ed. sé komið í þann búning að þingið geti verið þekkt fyrir að afgreiða málið eins og nú standa sakir. Það er alveg ljóst að það eru verulega margir lausir endar í þessum málum sem auðvitað tengjast síðan afgreiðslu fjárlaganna.`` Síðar segir: ,,Af þeim sökum einum væri skynsamlegt og eðlilegt að fresta afgreiðslu lánsfjárlaganna þar til þau mál liggja skýrar fyrir eftir áramótin.`` Í lok ræðu minnar, virðulegi forseti, segi ég það að Sjálfstfl. sé reiðubúinn til samstarfs um að fresta þessu máli fram yfir áramót þannig að það megi fá vandaða meðferð að loknu jólahléi.
    Þetta er auðvitað allt annað en það sem fjmrh. hefur haldið hér fram. Það var ekki að sérstakri ósk Sjálfstfl. sem málinu var frestað. Það var auðvitað vegna þess að Sjálfstfl. benti á vankantana í málatilbúnaði ráðherrans að óhjákvæmilegt var að fresta þessu máli. Og það er að koma í ljós að það munu verða gerðar margháttaðar breytingar á þessu frv. í fjh. - og viðskn. Nd. þannig að það þarf að fara aftur til Ed. Því hefur fjmrh. sjálfur lýst yfir. Það sýnir auðvitað að það sem sagt var hér úr þessum ræðustól af hálfu Sjálfstfl. fyrir jólin var satt og rétt. En það er fjmrh. sjálfum að kenna að hafa ekki búið þetta frv. þannig úr garði í upphafi að það gæti fengið þá meðferð hér, sem auðvitað er eðlilegust hverju sinni, að vera afgreitt samhliða fjárlögum. En það er fjarstæða, það er beinlínis rangt, að segja að það sé að einhverju sérstöku frumkvæði Sjálfstfl. eða ósk hans að þessu máli hafi verið frestað.