Afgreiðsla lánsfjárlaga
Mánudaginn 04. mars 1991


     Kristinn Pétursson :
    Hæstv. forseti. Ég sé nú ástæðu til þess að minna á það að hvorki hæstv. forseti Sþ. né forseti Nd. hafa svarað þeim spurningum sem ég spurði við upphaf þessarar þingskapaumræðu: Hvort þeim fyndist það eðlilegt að afgreiðsla lánsfjárlaga drægist svona. Vegna þess að afgreiðsla lánsfjárlaga á ekki að vera neitt vandamál. Hún á að stemma við fjárlög. Lánsfjárlög eiga að stemma við fjárlög. Þannig eiga þessir hlutir að vera. Þannig er gert ráð fyrir því í lögum um gerð ríkisreiknings og fjárlaga og lánsfjáráætlana. Og samkvæmt lögum um bókhald hæstv. ráðherra og fjárlagagerð, þá átti hann að afgreiða þetta fyrir jól. Það er hann sem er ábyrgur fyrir þessu máli. Hann getur ekkert verið að koma hér og segja að forusta Sjálfstfl. hafi verið að biðja um það að einhverju máli yrði frestað. Það er náttúrlega bara út í hött að vera að halda slíku fram. Hann er ábyrgur fyrir þessum málaflokki.
    Mér dettur bara helst í hug að menn séu að reyna að hafa þetta svona opið til þess að kaupa sér atkvæði með því að blöffa fjárlögin, með því að hækka lánsfjárlögin og framkvæma það og ætla síðan að láta gjaldfæra það einhvern tíma seinna, láta það svo koma á fjárlögum þegar einhver önnur ríkisstjórn er búin að taka við. Þannig á líklega að hafa hlutina. Það á að kaupa sér atkvæði á lánsfjárlögum. Þess vegna þarf að draga þau þangað til rétt áður en þinginu verður slitið og afgreiða þau síðan í ægilegum flýti þannig að enginn tími verði til að fara ofan í saumana á þeim. Verða sér úti um nokkur atkvæði, t.d. með tvöföldun Reykjanesbrautar eða einhverju sem hæstv. ráðherra dettur í hug, sem er ágætismál en á að ræðast á réttum vettvangi.
    Ég ítreka það að forseti Nd. eða forseti Sþ. segi hér álit sitt á því. Af hverju dragast svona hlutir? Forsetarnir eru ábyrgir fyrir störfum Alþingis og fjmrh. er ábyrgur fyrir sínum störfum. Ég óska eftir því að þetta fólk svari því. Finnst því þetta eðlilegt? Er eðlilegt að draga hlutina svona og draga þá, þvælast í útlöndum og vera hér og þar. Vera alltaf á eilífum blaðamannafundum og gefa út fréttatilkynningar og segja einhvern hálfsannleika. Manni ofbýður að horfa upp á svona vinnubrögð.