Afgreiðsla lánsfjárlaga
Mánudaginn 04. mars 1991


     Guðmundur Ágústsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel rétt að standa upp sem formaður fjh. - og viðskn. Ed. út af þeirri umræðu sem hér hefur farið fram um lánsfjárlög. Því er haldið fram að Ed. hafi afgreitt þetta frv. á mjög svo illan hátt. Ég get bent á það að málið var á þeim tíma tekið út úr fjh. - og viðskn. í fullu samkomulagi við fulltrúa Sjálfstfl. í nefndinni og þá lá ekki fyrir það sem nú virðist liggja fyrir, að nýjar fjárlagabeiðnir hafi komið fram. Það hefur gerst eftir áramót.
    Ég vildi einnig koma því á framfæri í sambandi við þá umræðu sem hér hefur farið fram um lánsfjárlög og ábyrgð ríkisstjórnar á þeim og fjárlögum yfirleitt, að það er ein af grundvallarreglum í þingræðisbundnum stjórnum að Alþingi fer með fjárveitingavaldið og það er Alþingis að sjá til þess að fjárlög og lánsfjárlög séu afgreidd og veiti ríkisstjórnum annaðhvort heimildir eða hafni heimildum sem þær biðja um. Þetta held ég að sé það grundvallaratriði sem við þingmenn þurfum að hafa í huga, en ekki að það sé spurning um það hvað fjmrh. og ríkisstjórn vilji hvert og eitt skiptið. Það er Alþingi sem fer með þetta vald og enginn annar.