Afgreiðsla lánsfjárlaga
Mánudaginn 04. mars 1991


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Svona rétt til þess að sagan sé öll sögð, úr því að hæstv. fjmrh. er það ekki kunnugt, þá er það venja í nefndum þingsins í sambandi við afgreiðslu lánsfjárlaga að í fyrri deild sé farið yfir málin. Síðan fer frv. til seinni deildar þar sem það er tekið til nýrrar skoðunar í samræmi við afgreiðslu fjvn. og meiri hluta Alþingis á fjárlögum. Síðan kemur það aftur til hinnar fyrri deildar. Þannig var það í þessu tilviki að frv. fór frá Ed. til hinnar neðri af því að ríkisstjórnin var ekki reiðubúin með sínar ákvarðanir. Það var talið eðlilegt að gefa Nd. nokkurn tíma til að fara yfir frv. Svo kom í ljós, eins og við höfum heyrt núna, að ríkisstjórnin hefur enn ekki gert það upp við sig hvernig hún vill standa að afgreiðslu lánsfjárlaga. Það er kominn marsmánuður og ríkisstjórnin rekur ekki á eftir afgreiðslu málsins.
    Í dag kom í ljós að ráðherrar voru meira og minna utan við sig í sambandi við litla 2 milljarða sem eiga að fara í nýjar framkvæmdir og sennilega skynsamlegast hjá hæstv. umhvrh. að blanda sér ekkert inn í þær viðræður. Þau umhverfisvandamál sem eru í ríkisstjórninni út af lánsfjárlögum er ekki á valdi umhvrh. að leysa hvort sem er.
    En þannig er þetta allt í samræmi við venjuna. Ríkisstjórn sem er sjálfri sér sundurþykk og er löngu búin að gefast upp við að stjórna ræður ekki við lánsfjárlög frekar en annað. En það breytir ekki því að hæstv. fjmrh. er jafnbrosmildur og glæsilegur og vant er og bregst ekki bogalistin. Ég verð nú að segja eins og er að ég sakna þess hálfpartinn að vera ekki í framboði í Reykjaneskjördæmi til þess að geta oftar átt orðaskipti við hæstv. ráðherra eins og hann kemur manni alltaf í gott skap með sínum undarlegu uppákomum og djörfu fullyrðingum sem yfirleitt eru úr lausu lofti gripnar.