Afgreiðsla lánsfjárlaga
Mánudaginn 04. mars 1991


     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Ég vil enn leyfa mér að grípa til þessa heftis Alþingistíðinda sem ég var með í höndunum áðan því að menn eru eflaust búnir að gleyma því, og kannski hv. 5. þm. Reykv. sem hér talaði áðan og er formaður fjh. - og viðskn. Ed., að hann bryddaði upp á þeirri nýjung í nefndastarfi sem formaður í ábyrgðarmikilli nefnd að hafa framsögu fyrir nefndaráliti ríkisstjórnarmeirihlutans með fyrirvara. Það er von að mönnum sé hlátur í hug þegar þetta er rifjað upp. Eflaust eru nú flestir búnir að gleyma þessu. Svo eru menn að tala um það að Sjálfstfl. hafi verið með einhverjar kúnstir í þessu máli. Ég held að hinn virðulegi fjmrh. ætti að líta sér örlítið nær í þessu.
    En hvað sem því líður féllst Sjálfstfl. á það í ljósi þess hvernig þetta mál var fram reitt hér í Nd., degi áður en jólakveðjur voru hér upp lesnar skv. þingtíðindum, það var hinn 21., degi áður, 20. des., mælti fjmrh. fyrir þessu frv. til lánsfjárlaga og ég lét þau ummæli falla sem ég vitnaði til áðan. En hvað sem líður þeirri ákvörðun Sjálfstfl. að fallast á að þessu frv. yrði seinkað fram yfir jólahlé, eins og talað var um, þá er komið fram í mars og fjmrh. talar um að nú liggi ekkert á að afgreiða þetta mál fyrr en einhvern tíma með síðustu málum þingsins, sem vonandi verður ekki seinna en í lok næstu viku.