Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Frú forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um staðfræðikort og gróðurkort af Íslandi og landfræðilegt upplýsingakerfi.
    Bakgrunnur þessa máls er sá að samkvæmt lögum um verkefni umhvrn. sem voru samþykkt sl. vor í kjölfarið á stofnun nýs umhverfisráðuneytis innan Stjórnarráðs Íslands var gert ráð fyrir því að ráðuneytið fari m.a. með mál er varða gróðurvernd, gerð landnýtingaráætlana, landmælingar og skipulagsmál.
    Ég hef um langan aldur haft nokkur afskipti af málefnum landmælinga og skipulagsmála. M.a. var ég um skeið formaður stjórnar skipulagsstofu höfuðborgarsvæðisins. Á þeim árum voru þessi mál mjög til umræðu vegna þeirrar viðleitni sem þá var uppi um að samræma kortagrundvöll fyrir höfuðborgarsvæðið. Þá kom einmitt í ljós að um var að ræða mjög margar mismunandi aðferðir við að gera kort af Íslandi. Gert var átak í þeim efnum að reyna að samræma slíka vinnu. Því hugaði ég, fljótlega eftir að verkefni ráðuneytisins voru skilgreind, að því að undirbúa tillögu í þessu efni. Það var í september sl. að ég skipaði nefnd til þess að undirbúa áætlun um að ljúka gerð staðfræðikorta og gróðurkorta fyrir landið og semja þá tillögu sem hér hefur verið lögð fram.
    Nefndinni var sérstaklega ætlað að fjalla um eftirfarandi atriði:
    1. Kanna möguleika á því að ljúka gerð gróðurkorta fyrir allt landið á fáum árum þannig að þau verði í tölvutæku, stafrænu formi og falli að samræmdu kerfi Landmælinga Íslands.
    2. Hvernig megi ljúka gerð staðlaðra grunnkorta, staðfræðikorta, á tölvutæku, stafrænu formi fyrir landið allt. Skal þá miðað við að grunnkortin nýtist sem landfræðilegur grunnur fyrir samræmda kortagerð á vegum ríkisins.
    3. Gera tillögu um heildarstefnu varðandi skipulag kortagerðar á vegum stofnana ríkisins miðað við slíkan staðlaðan kortagrunn í mælikvarða 1:25000.
    Nefndin fjallaði um alla þessa þrjá þætti sem voru nefndir í skipunarbréfi hennar og um nauðsyn þess að koma á landfræðilegu upplýsingakerfi, nokkurs konar gagnabanka eða stafrænum tölvugrunni upplýsinga, í tengslum við kortagerðina. Fór nefndin mjög ítarlega yfir stöðu kortamála á Íslandi og aflaði vitneskju um fyrri tilraunir til að greiða úr þessum málum. En eins og ég get komið hér að síðar, þá hafa mjög margir aðilar komið nálægt kortagerð á Íslandi og hefur því miður verið mikill skortur á samstarfi milli þeirra aðila sem hafa fjallað um þessi mál árum og jafnvel áratugum saman. Nefndin lagði mikla vinnu í það að ræða við þá aðila sem hafa fengist við kortagerð og landmælingar á Íslandi og hafði samband við flestar opinberar stofnanir sem hafa komið nálægt slíku, ræddi við fulltrúa verkfræðistofunnar Hnit og sömuleiðis fyrirtækisins Ísgraf og fulltrúa frá upplýsinga - og merkjafræðistofu Háskóla Íslands sem komu á fund nefndarinnar og veittu margvíslegar upplýsingar.
    Til þess að ná þeim markmiðum sem voru sett

fram í skipunarbréfi nefndarinnar, að koma þessum málum í betri farveg, hefur nefndin lagt til eftirfarandi aðgerðir:
    1. Að unnið verði tilraunaverkefni í því skyni að ljúka forvinnu að gerð staðlaðra grunnkorta í 1:25000 fyrir allt landið og koma á nauðsynlegri samvinnu þeirra stofnana sem hafa fjallað um þessi mál. Skal þessu verkefni lokið fyrir árslok 1992.
    Verkefnið felst í því að gerð verði nokkur stafræn staðfræðikort og gróður- og jarðakort með þeirri tækni sem notuð verður við kortagerð og gagnasöfnun á næstu árum. Um leið verði hafinn undirbúningur að landfræðilegum upplýsingagrunni. Hefur fyrst og fremst verið talað um að nota svæðin Ölfus og Flóa í þessu skyni, svo og Fljótsdalshérað, en þessi tvö svæði liggja nokkuð vel við að það verði farið í svona tilraunaverkefni.
    Þörf á staðfræðikorti af landinu í svo stórum mælikvarða sem 1:25000 er mjög knýjandi. Þeir fjölmörgu aðilar sem vinna við og nota kort af Íslandi eru á einu máli um nauðsyn þess að samræma kortagerðina og byggja hana upp á stafrænum, tölvutækum grundvelli. Þetta kom m.a. ljóst fram í svörum allra þeirra sem nefndin hafði samband við. Við höfum fram til þessa orðið að treysta algerlega á framtak erlendra aðila við gerð staðfræðikorta af landinu. Má þar nefna þá vinnu sem danska herforingjaráðið leysti af hendi í upphafi aldarinnar sem stóð allar götur fram yfir seinni heimsstyrjöld. Og upp úr því þá vinnu sem Bandaríkjaher hefur lagt hér fram en á vegum Bandaríkjahers hefur verið unnið töluvert að gerð staðfræðikorta í mælikvarða 1:25000. Þessi gömlu kort, sérstaklega herforingjaráðskortin, eru mjög ófullkomin og þau fullnægja alls ekki þeim nákvæmniskröfum sem nú eru gerðar til grunngagna fyrir áætlanagerð og skipulagsvinnu. Því er löngu orðið tímabært að þessi vinna verði hafin af fullum krafti og henni lokið á tiltölulega skömmum tíma.
    Eins og nú er ástatt er mjög erfitt t.d. að samnýta gögn frá þeim fjölmörgu aðilum sem sinna mælingum og kortagerð. Má nefna sem dæmi að Vegagerð ríkisins, Landsvirkjun, Orkustofnun, Póst - og símamálastofnun, vinna allar að landmælingum og kortagerð, en hafa ekki neinn samræmdan grunn fyrir þessi kort. Þar af leiðandi er mjög erfitt að flytja upplýsingar á milli þessara stofnana þannig að gögn einnar stofnunar komi annarri að notum. Því hefur nýting á fjármagni til þessara verkefna verið mjög slæm. Hér er ekki um neina smáfjármuni að ræða þar sem áætlað er að hinar ýmsu stofnanir ríkisins verji núna 600 -- 800 millj. kr. árlega til mælinga og kortagerðar. Því er til mikils að vinna ef hægt væri að ná fram aukinni hagkvæmni, ekki bara fyrir ríkið heldur einnig fyrir sveitarfélögin í landinu. Stafræn kortagerð á Íslandi er á frumstigi en nokkrar stofnanir og sveitarfélög og reyndar fyrirtæki eru að þreifa fyrir sér á þessu sviði. Það má t.d. nefna Norrænu eldfjallastöðina, Raunvísindastofnun Háskólans, Landsvirkjun, Skipulag ríkisins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins og verkfræðistofuna Hnit. Kort framtíðarinnar verða stafræn

og það er ljóst að í óefni stefnir ef stjórnvöld hefjast ekki fljótlega handa við að samræma kortagerð og miða kortagerðina við stafræn kort.
    Þá má líka benda á að hæðar - og staðsetningarkerfi Landmælinga Íslands stenst ekki lengur þær kröfur um nákvæmni sem viðhafa þarf í áætlunar - og skipulagsgerð fyrir verklegar framkvæmdir eins og þær tíðkast nú á dögum. Því hafa opinberar stofnanir og sveitarfélög yfirleitt neyðst til þess að nota staðbundið hnitkerfi, bæði í hæð og legu, vegna þess að landskerfi Landmælinga Íslands fullnægir ekki staðbundnum þörfum þeirra. Því er nauðsynlegt í leiðinni að endurskoða og bæta hæðar - og staðsetningarkerfið áður en ráðist er í gerð stafrænna staðfræðikorta. Einnig þarf að ljúka gerð kortastaðals sem nú er í vinnu.
    Í tillögunni er lagt til að allt landið verði kortlagt í mælikvarða 1:25000 á næstu tíu árum og kortin verði unnin á stafrænan hátt þannig að þau nýtist sem grunnur fyrir sem flesta notendur. Nú kunna einhverjir að segja að við Íslendingar séum að færast mikið í fang og þetta sé kannski óþarfa lúxus. Það vill þannig til að Ísland er líklega síðasta landið í Vestur - Evrópu sem hefur ekki lokið því að gera fullkomin stafræn grunnkort af landinu öllu í 1:25000. Norður - Írar eru víst um það bil að ljúka þeirri vinnu að gera stafræn grunnkort í 1:25000 af Norður - Írlandi og mun þá Ísland vera eitt eftir allra landa Vestur - Evrópu. Til gamans má geta þess að Frakkar lögðu áherslu á það að ljúka þessari vinnu fyrir 200 ára afmæli byltingarinnar 1989. Eitt af sýningaratriðum við hátíðahöldin sumarið 1989 var að grunnkort af öllu Frakklandi í 1:25000 voru breidd út í stærsta sal sem fyrirfannst í Frakklandi, sem mun víst vera ein aðaljárnbrautarstöð Frakka í París, og þar gat að líta samsett heildarkort af Frakklandi í mælikvarðanum 1:25000 sem vakti mikla athygli við hátíðahöldin.
    Hér er um geysilega umfangsmikið og dýrt verkefni að ræða. Þess vegna er talið ráðlegt að það verði fyrst ráðist í tilraunaverkefni, nokkurs konar forvinnu eins og ég gat reyndar um áðan, til þess að reyna með hvaða hætti megi koma á nauðsynlegri samvinnu þeirra fjölmörgu stofnana sem þurfa að koma að þessu máli og eins hvernig megi vinna þetta áður en verður tekin sú ákvörðun að ráðast í verkefnið af fullum krafti.
    Hér er sömuleiðis lagt til að hluti af þessu verkefni verði að ljúka gerð gróðurkorta af Íslandi í sama mælikvarða, þ.e. 1:25000. Gerð gróðurkorta af Íslandi hófst þegar árið 1955 en meginmarkmiðið með þeirri vinnu var að gefa út gróðurkort og afla tölulegrar vitneskju um útbreiðslu, eðli, ástand og framleiðslugetu gróðurlenda m.a. til að ákvarða beitarþol landsins og skipuleggja gróðurvernd og aðra landnýtingu. Áður hafði ekki verið gerð heildarúttekt á gróðurfari og landgæðum á Íslandi en fyrir hendi var þó mikil grunnþekking, m.a. á sviði grasafræði, sem er nauðsynleg forsenda þess að unnt var að hefja þetta verk.
    Þegar gróðurkortagerðin hófst fyrir 35 árum ríkti mikil bjartsýni hjá þeim sem að verkinu stóðu um að

unnt yrði að ljúka því á 3 -- 4 áratugum, enda ekki nema von vegna þess að óvíða er gróður jafnilla farinn og óvíða er gróðureyðingin jafnör og á Íslandi. Af þeim sökum hefði mátt ætla að úttekt á þessari hnignandi auðlind yrði veitt brautargengi svo unnt yrði að taka nýtingu landsins föstum tökum og færa til betra horfs. Á síðasta áratug hefur hins vegar hallað á ógæfuhliðina varðandi gerð gróðurkorta og málið er nánast komið í strand.
    Þá má ekki gleyma því að skortur á nákvæmum grunnupplýsingum hefur sömuleiðis háð gróðurkortagerðinni mjög verulega. Um það hefur nú náðst samkomulag milli þeirra aðila sem hafa fengist við gróðurkortagerð hér á Íslandi að það sé skynsamlegast að reyna að drífa grunnkortagerðina af stað og láta síðan gróðurkortin fylgja strax í kjölfarið þannig að fyrst verði byggð upp þessi svokölluðu staðfræðikort í mælikvarða 1:25000 og síðan verði gróðurkortin byggð á þeim upplýsingum og gefin út í sama mælikvarða.
    Hingað til hafa verið gefin út gróðurkort af um það bil 40% landsins en vegna, eins og ég hef þegar skýrt frá, skorts á góðum kortagrunni hefur ekki verið talið fært að gefa út öllu fleiri kort. Útivinnu er lokið á stórum svæðum til viðbótar. Það er talið vafasamt hvort skynsamlegt sé að halda áfram með gróðurkortagerðina að óbreyttu þar sem skortur er á nauðsynlegum grunnupplýsingum og því talið ráðlegt að leggja meiri áherslu á grunnkortagerðina áður en haldið verði áfram frekari gróðurkortagerð.
    Áður en hafist verður handa um gerð stafrænna gróðurkorta með verkáætlun sem næði til allra þeirra svæða landsins sem nú er ólokið þarf töluverða undirbúningsvinnu. Lagt er til að sú vinna fari fram samhliða því tilraunaverkefni sem er ráðgert fyrir gerð grunnkortanna til þess að láta reyna á nauðsynlega samvinnu og samnýtingu þeirra stofnana sem koma að þessu verki og verði þessu hvoru tveggja lokið fyrir árslok 1992 ef fjárveitingar fást.
    Að lokum er svo í tillögunni talað um landfræðilegt upplýsingakerfi, svokallaðan stafrænan tölvugrunn eða upplýsingabanka með landfræðilegum upplýsingum. Öflun og úrvinnsla slíkra staðbundinna upplýsinga er þegar snar þáttur í þjóðfélaginu og fjölmargar stofnanir safna landfræðilegum gögnum og geyma þau þótt ekki séu þau aðgengileg á samræmdu formi. Verði gagnasöfn hinna ýmsu stofnana sem vinna með staðbundin gögn tengd betur saman verða gögnin aðgengilegri og nýtast fleirum en áður og betur. Uppbygging landfræðilegs upplýsingakerfis krefst stafrænna staðfræðikorta af landinu, eignarkorta og samræmdra gagnasafna. Uppbygging landfræðilegra upplýsingakerfa er mjög skammt á veg komin hérlendis og lítil samræming á þessu sviði enn sem komið er. Þó hafa nokkrir aðilar hafið uppbyggingu slíkra kerfa á ýmsum sérsviðum og nokkrir þeirra komið sér upp þar til gerðum hugbúnaði. Þar á meðal eru Norræna eldfjallastöðin, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Skipulag ríkisins, Reykjavíkurborg, Póst - og símamálastofnun og Rafmagnsveitur ríkisins. Auk þeirra

eiga margir aðilar umfangsmikil söfn landfræðilegra upplýsinga. Má þar nefna Hagstofu Íslands, Búnaðarfélag Íslands, Fasteignamat ríkisins, Landsvirkjun, Orkustofnun, Raunvísindastofnun Háskólans, Vegagerð ríkisins, Landmælingar Íslands, Byggðastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Veðurstofu Íslands og ýmsar aðrar rannsóknastofnanir.
    Virðulegi forseti. Ég get stytt mál mitt hér og vildi aðeins að lokum fjalla í örstuttu máli um kostnað vegna þessa verkefnis. Áætlaður heildarkostnaður við að ljúka gerð staðfræðikorta í 1:25000 af landinu öllu er talinn nema um 1400 millj. kr. samkvæmt mati fjmrn. Kostnaður við að gefa þessi kort út er áætlaður um 275 millj. kr. en þar hefur ekki verið tekið tillit til tekna af sölu þeirra á móti. Það er erfiðara að meta kostnað vegna uppbyggingar landfræðilegs upplýsingakerfis en gert er ráð fyrir að þær stofnanir sem hlut eiga að máli beri þann kostnað án þess að sérstakt framlag komi úr ríkissjóði. Hér er í raun um hagræðingarverkefni að ræða. Ef lokið yrði að gera staðfræðikort, grunnkort í mælikvarða 1:25000 af landinu öllu, er áætlaður heildarkostnaður við að ljúka gerð gróðurkorta af landinu á stafrænu formi sem byggi á þeim grunni um 170 millj. kr.
    Virðulegur forseti. Ég hef hér í stuttu máli gert grein fyrir þeirri tillögu sem hér hefur verið lögð fram og vona að hún fái góðar undirtektir þingheims því að ég tel að hér sé hreyft mjög mikilvægu máli. Hér er um mikið þjóðþrifamál að ræða. Ég vil að lokinni þessari umræðu leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn. Sþ.