Kosningar til Alþingis
Þriðjudaginn 05. mars 1991


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. um breyting á lögum um kosningar til Alþingis sem hér er flutt á þskj. 775 eftir afgreiðslu hv. Nd. á því máli.
    Það frv. sem hér liggur fyrir til 1. umr. og er raunar stjfrv. er samið af stjórnarskrárnefnd. Frv. hefur verið til meðferðar í hv. Nd. og hafa þar verið gerðar á því nokkrar breytingar, m.a. samkvæmt ábendingum úr dómsmrn.
    Með bréfi þáv. forsrh. haustið 1987 var stjórnarskrárnefnd falið að vinna að endurskoðun laga um kosningar til Alþingis, svo sem fram kemur í grg. með frv. Þar er og gerð grein fyrir starfi nefndarinnar að þessu frv. og helstu breytingum sem í því felast.
    Meginbreytingar samkvæmt frv. varða gerð kjörskrár, framboðsfrest og utankjörfundaratkvæðagreiðslu, en ýmsar fleiri breytingar felast í frv. og mun ég hér greina frá helstu atriðum þess.
    Lagt er til að kjörskrá skuli miðuð við skráð lögheimili samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár sjö vikum fyrir kjördag. Kjörskrá er nú miðuð við lögheimili eins og það var 1. des. næstan fyrir kjördag. Íbúaskrá þjóðskrár er nú eins og áður leiðrétt árlega miðað við 1. des. Sá háttur hefur hins vegar verið tekinn upp að allar tilkynningar um breytingu á lögheimili sem berast þjóðskránni eru skráðar jafnóðum. Hafa þannig skapast möguleikar á því að miða við aðrar dagsetningar en áður. Samkvæmt frv. verður miðað við lögheimili eins og það er skráð í þjóðskrá 49 dögum fyrir kjördag. Samkvæmt gildandi reglum hefur við endanlega gerð kjörskrár hins vegar verið tekið tillit til tilkynninga sem fram hafa komið eftir 1. des. ef breyting átti sér stað fyrir þann dag. Tæknilega er nú unnt að ganga frá kjörskrá með þessum hætti. Leiðir þetta þá til þess að kjörskrá sem kosið verður eftir verður í meira samræmi við búsetu manna á kjördegi. Kjósandi verður þá í enn ríkara mæli á kjörskrá þar sem hann á heima og minni þörf verður á því fyrir kjósendur sem flutt hafa að greiða atkvæði utan kjörfundar í öðru sveitarfélagi en þeir eiga heima. Jafnframt verður minna um það en áður að sveitarstjórn þurfi að gera breytingu á þeim kjörskrárstofni sem hún fær frá þjóðskrá.
    Tengt þessari breytingu á gerð kjörskrár er að lagt er til að breytt verði reglum um framlagningu kjörskrár. Er lagt til að kjörskrá verði lögð fram 24 dögum fyrir kjördag í stað tveggja mánaða.
    Eins og áður sagði verður staðsetning fólks á kjörskrá, ef ákvæði frv. verða lögfest, í fastari skorðum. Álitaefnum er leitt geta til kæru fækkar og mundu þau einkum varða ríkisfang, andlát, mistök vegna þess að einhvern vantar á kjörskrá eða sé þar ofaukið, eða það að íslenskur ríkisborgari sem dvelur erlendis en telur sig hafa kosningarrétt er af einhverjum ástæðum ekki færður á kjörskrá.
    Lagt er til að reglum um framboðsfrest verði breytt þannig að framboðum þurfi ekki að skila fyrr en tveimur vikum fyrir kjördag í stað fjögurra vikna eins

og er samkvæmt núgildandi lögum. Þessi breyting og nokkrar aðrar tillögur samkvæmt frv. eru af stjórnarskrárnefnd m.a. rökstuddar með því að þannig skapist almennar forsendur til þess án lagabreytinga að stofna til kosninga með skömmum fyrirvara. Ég hef þó orðið var við það nú undanfarna daga að nokkuð skiptar skoðanir eru meðal þingmanna um þetta atriði og vildi mælast til þess við hv. allshn. þessarar deildar að þetta atriði yrði sérstaklega athugað í umfjöllun nefndarinnar sem væntanlega fær þetta frv. til meðferðar.
    Þá er lagt til að ýmsir frestir, þar á meðal framboðsfrestur, sem runnið hafa út á miðnætti renni út á hádegi. Lagt er til að reglum um fjölda meðmælenda með framboði verði breytt. Í stað þess að miða við 50 -- 100 meðmælendur í hverju kjördæmi, nema Reykjavík þar sem talan er 100 -- 200, verði meðmælendafjöldi tengdur þingsætatölu í kjördæmi. Eins og frv. er nú eftir meðferð Nd. er miðað við margfeldi af þingsætatölunni og tölunum 20 að lágmarki og 30 að hámarki. Breytingin felur því í sér nokkra aukningu meðmælenda. Í Reykjavík fer talan í 360 að lágmarki og 540 að hámarki. Í Reykjaneskjördæmi verða tölurnar 220 og 330. Í öðrum kjördæmum fer meðmælendatalan í 100 -- 120 að lágmarki eftir þingsætatölu og 150 -- 180 að hámarki.
    Þá er lagt til að reglu um það hvenær umsókn um framboðslista skuli í síðasta lagi lögð fram í dómsmrn. verði breytt þannig að slík umsókn skuli hafa borist þangað þremur sólarhringum áður en framboðsfrestur rennur út. Með því gefst ráðrúm til að yfirfara og úrskurða slíka umsókn áður en framboðum í kjördæmum þarf að hafa verið skilað.
    Allveruleg breyting er lögð til á tilhögun utankjörfundaratkvæðagreiðslu með nýjum og breyttum kjörgögnum. Er ætlunin að kjörgögnin verði einfaldari að gerð og það leiði til þess að sjálf athöfnin gangi greiðar fyrir sig. Hin eiginlegu kjörgögn eiga að samanstanda af einföldum kjörseðli og kjörseðilsumslagi. Þessu fylgir fylgibréf þar sem kosningin er vottuð og svo sendiumslag. Vegna breyttra reglna um lengd þess tíma sem greiða má atkvæði utan kjörfundar er m.a. brýnt að taka upp ný kjörgögn þar sem nauðsyn ber til að kjörgögn séu jafnan til staðar ef boðað er til kosninga með stuttum fyrirvara. Varðandi framkvæmdina er þess að geta að fellt er niður ákvæði um að undirskrift kjörstjóra skuli vottuð og einnig er fellt niður ákvæði um að umslög skuli innsigluð.
    Tekin er upp heimild til þess að utankjörfundaratkvæðagreiðsla megi fara fram á stofnunum fyrir fatlaða í viðbót við sjúkrahús og dvalarheimili aldraðra sem nú er í lögum. Einnig er lagt til að heimilað verði að slík atkvæðagreiðsla fari fram í fangelsi, en fangar hafa nú kosningarrétt með sama hætti og aðrir. Þá er enn fremur lagt til að heimilað verði að kosning geti farið fram í heimahúsi þegar þannig stendur á að kjósandi mun ekki geta sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar.
    Lagt er til að ákvæði, sem fela í sér bann við því að greiða atkvæði oftar en einu sinni við atkvæðagreiðslu utan kjörfunda, verði afnumin. Með lagabreytingunni 1987 var ákveðið að utankjörfundaratkvæðagreiðsla gæti hafist áður en framboðsfrestur rennur út. Við þær aðstæður getur það komið upp að kjósandi sem þegar hefur greitt atkvæði vilji greiða atkvæði að nýju vegna nýs og óvænts framboðs. Fortakslaus ákvæði er banna þetta eiga því ekki lengur við og þykir því rétt að afnema þau. Eftir því sem best er vitað mun ekki hafa komið til þess að kjósanda hafi verið meinað að greiða atkvæði oftar en einu sinni eða að atkvæði hafi ekki verið metin gild af sömu ástæðu.
    Að því er varðar tilhögun atkvæðagreiðslu almennt, hvort heldur er utan kjörfundar eða á kjörstað, er lagt til að hnykkt verði á ákvæðum er varða það hvernig kjósandi gerir grein fyrir sér áður en hann fær að greiða atkvæði. Segir í tillögunum að kjósandi skuli gera grein fyrir sér með því að framvísa nafnskírteini eða á annan fullnægjandi hátt. Í gildandi ákvæðum segir að kjósandi skuli, ef kjörstjóri eða kjörstjórn óskar þess, sanna hver hann er með því að framvísa o.s.frv. Er breytingin lögð til til að tryggja það að ekki verði kosið í nafni annars manns. Þótt það sé sett sem meginregla að kjósandi framvísi nafnskírteini getur kjósandi sannað hver hann er með öðrum hætti og getur það farið eftir aðstæðum á hverjum stað hve ríkar kröfur eru gerðar.
    Loks er í frv., eins og það liggur nú fyrir, gert ráð fyrir því að kjörfundi ljúki eigi síðar en klukkan tíu að kvöldi.
    Nokkrar minni breytingar felast að auki í frv. Verða þær ekki tíundaðar hér, en getið hefur verið allra helstu breytinga sem í því felast.
    Eins og áður hefur komið fram var frv. þetta með grg. samið af stjórnarskrárnefnd. Í bréfi nefndarinnar til forsrh., sem fylgdi drögum að frv. þessu, kom fram að frumvarpsdrög höfðu verið send þingflokkunum til umfjöllunar. Komu þar fram athugasemdir við nokkur atriði en að öðru leyti voru þingflokkarnir samþykkir breytingunum. Athugasemdum þingflokkanna ásamt ábendingum um nokkur frekari atriði sem ástæða væri til að endurskoða, sem teknar voru saman í dómsmrn., var komið á framfæri við þingflokkana um miðjan janúar, áður en frv. var lagt fram hér á Alþingi.
    Eins og ég hef þegar greint frá hefur frv. tekið nokkrum breytingum við meðferð þess í Nd. Hefur þar m.a. verið tekið tillit til ýmissa ábendinga sem dómsmrn. setti fram við allshn. þeirrar deildar. Þær breytingar varða þó ekki meginefni frv. en eru þó til leiðréttingar og nokkurrar skýringar. Veigamikil breyting er þó það að vegna þess hve skammt er nú til kosninga, þó að kjördagur hafi raunar ekki endanlega verið ákveðinn, verður ekki unnt að taka í notkun ný kjörgögn við utankjörfundaratkvæðagreiðslu við þær kosningar sem fram undan eru. Hefur gildistökuákvæði frv. því verið breytt þannig að þau ákvæði er varða kjörgögn við utankjörfundaratkvæðagreiðslu koma ekki til framkvæmda fyrr en að loknum næstu alþingiskosningum.

    Kosningalög og öll framkvæmd kosninga eru þýðingarmikill þáttur í lýðræðislegu skipulagi þjóðarinnar. Veltur á miklu að vel sé þar að öllu staðið. Tillögur þær sem hér eru lagðar fram þarf því að skoða vel í þinginu sem og þær ábendingar sem að öðru leyti hafa komið fram sem hugsanlegar breytingar.
    Vegna undirbúnings komandi alþingiskosninga, m.a. kjörskrárgerðar, er afar nauðsynlegt að meðferð frv. þessa verði hraðað svo sem kostur er.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um efni þessa frv., leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn. þessarar deildar.