Listamannalaun
Þriðjudaginn 05. mars 1991


     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Það háttar nú svo til að boðað er til nefndarfundar í nefnd sem ég á sæti í hér í hliðarsal þannig að ég hef ekki tök á því að standa hér lengi í ræðustóli en vildi aðeins láta þess getið að þar sem ég á sæti í menntmn. sem fær þetta frv. um listamannalaun til umfjöllunar, þá hef ég tækifæri til að taka þátt í umfjöllun þess þar og koma á framfæri þeim hugmyndum og athugasemdum sem ég hefði viljað gera. Ég vil aðeins leyfa mér að vitna til þeirra brtt. sem lagðar voru fram í Nd. af hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur og Sólveigu Pétursdóttur, en náðu ekki fram að ganga.
    En það er þó ein meginathugasemd sem ég vil gera við frv. á þessu stigi og það er gildistaka laganna. Mér finnst það skjóta svolítið skökku við að þau eigi að taka gildi nú á þessu ári þar sem ekki er gert ráð fyrir að starfað sé eftir þessum lögum á yfirstandandi ári. Þess vegna hefði ég talið eðlilegt og sjálfsagt að gildistakan væri ekki fyrr en um áramótin 1991/1992, þ.e. 1. jan. 1992.
    En eins og ég sagði, þá hef ég ekki tækifæri til að fjalla um einstök atriði frv. á þessu stigi en mun fá tækifæri til þess í nefndinni.