Listamannalaun
Þriðjudaginn 05. mars 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem fram hafa farið um málið hér. Ég kvaddi mér aðallega hljóðs nú vegna ábendinga frá hv. 18. þm. Reykv. um 9. gr. frv., þar sem segir: ,,Listasjóður veitir einnig sérstök framlög til listamanna, m.a. til þeirra sem notið hafa listamannalauna undanfarin ár og náð hafa 60 ára aldri.`` Hérna er í raun og veru verið að brúa bil úr gamla listamannalaunakerfinu yfir í það nýja þannig að þeir listamenn, sem voru í gamla kerfinu og hafa náð 60 ára aldri þegar þessi lög taka gildi, verða sjálfkrafa áfram inni í nýja listamannalaunakerfinu, en geta að sjálfsögðu, bæði þeir og aðrir, sótt um starfslaun sem er svo annað mál.
    Að öðru leyti vil ég þakka fyrir þær ábendingar sem hér hafa komið fram, bendi aðeins á að í 6. gr. er gert ráð fyrir því að höfundar fræðirita hafi rétt til greiðslu úr Launasjóði rithöfunda þó að það sé auðvitað alltaf álitamál hverjir eiga að koma að stjórninni.
    Ég vænti þess, virðulegi forseti, að nefndin taki þetta föstum tökum og okkur auðnist að afgreiða þetta hið fyrsta.