Forfalla- og afleysingaþjónusta í sveitum
Þriðjudaginn 05. mars 1991


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um forfalla - og afleysingaþjónustu í sveitum. Þetta er 422. mál Ed. á þskj. 759. Tilgangur með starfsemi eða rekstri forfallaþjónustu í sveitum er eins og kunnugt er að veita starfandi bændum og mökum þeirra, svo og eins og verða á með frv. þessu öllu starfandi fólki í landbúnaði, starfsmönnum bænda, aðstoð við nauðsynleg bús - og heimilisstörf þegar veikindi, slys og önnur forföll ber að höndum. Rétt er að taka skýrt fram að hér er ekki um orlofs - eða sumarleyfaafleysingaþjónustu að ræða heldur eingöngu þau tilvik þar sem slíkar óviðráðanlegar frátafir verða.
    Forfalla - og afleysingaþjónusta í sveitum starfar samkvæmt lögum frá 1979 og hefur sú starfsemi sem þar á í hlut þegar sannað gildi sitt. Enginn vafi er á því að starfsemi afleysinga - og forfallaþjónustunnar hefur haft mikla þýðingu fyrir íbúa sveitanna þau ár sem hún hefur starfað og aukið verulega á félagslegt öryggi og bætt aðstæður sveitafólks.
    Ekki síst er nauðsynlegt að hafa í huga gildi forfallaþjónustunnar við núverandi aðstæður í sveitum landsins og landbúnaði þegar fólki fer fækkandi og erfiðara verður af ýmsum sökum að treysta á aðstoð nágranna, skyldmenna eða annars starfsfólks á búum þar sem í æ ríkari mæli er eingöngu um að ræða viðkomandi fjölskyldu sem að búrekstrinum stendur.
    Það hefur fengist ágæt reynsla af þessu starfi þessi 10 ár og að sjálfsögðu er frv. þetta sniðið að þeirri reynslu og ekki síst þá af þeirri framkvæmd á forfalla - og afleysingaþjónustunni sem komist hefur á í reynd nú hin síðustu ár. Við endurskoðun þessara laga var valin sú leið að semja alveg nýtt frv. á grundvelli þessa.
    Drög að þessu frv. voru kynnt á aðalfundi Stéttarsambands bænda árið 1989 og samþykkti fundurinn þá ályktun þar sem segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Aðalfundur Stéttarsambands bænda telur nauðsynlegt að breytingar verði gerðar á lögum og reglum um forfalla - og afleysingaþjónustu í sveitum.
    Því mælir fundurinn með því að frv. [eða drög þau sem þá voru sýnd] verði lögfest hið fyrsta.``
    Fundurinn setti það skilyrði fyrir stuðningi við gjaldtöku skv. 2. gr. frv. að framleiðendagjald til Stofnlánadeildar lækkaði að sama skapi. Sú breyting hefur nú náð fram að ganga með lögum um búnaðarmálasjóðsgjald. Með lögum nr. 41 frá 15. maí 1990 var einmitt þeirri skipan mála komið á sem hér um ræðir, að aflað var með lögunum staðfestingar á þessum tekjustofni til handa forfalla - og afleysingaþjónustunni þannig að hluti búnaðarmálasjóðsgjalds gengur nú til að greiða þennan kostnað og myndar tekjustofn forfalla - og afleysingaþjónustunnar, en framleiðendagjald til Stofnlánadeildarinnar lækkaði sem því nam.
    Eins og ég hygg að hv. alþm. þekki hefur forfalla - og afleysingaþjónustan nú síðustu árin eingöngu verið fjármögnuð með þessum hætti og hér er í reynd lögfest og staðfest sú breyting og liggur þegar fyrir

samkomulag um þá skipan mála.
    Um frv. að öðru leyti er ekki margt að segja. Það er sniðið að þessari reynslu frá sl. 10 árum. Það tekur mið af þessari staðreynd um fjármögnun forfalla - og afleysingaþjónustunnar. Það felur í sér það nýmæli að allir starfsmenn í landbúnaði eiga núna rétt á forfalla - og afleysingaþjónustu, þ.e. allir starfsmenn bænda, bústjórar og aðrir fastráðnir starfsmenn, ef ráðning þeirra hefur staðið sex mánuði eða lengri tíma. Þetta er mikilvæg réttarbót fyrir ákveðinn hluta starfandi fólks í greininni. Sérstaklega á þetta við um þær greinar þar sem talsvert er um aðkeypt vinnuafl, svo sem í garðyrkju, alifuglarækt og svínarækt. Nú hafa allir fastráðnir starfsmenn í þessum greinum möguleika til að nýta sér þessa þjónustu en svo hefur ekki verið áður.
    Tilhögun stjórnar er þannig breytt að samkvæmt núgildandi lögum fer Búnaðarfélag Íslands með yfirstjórn forfalla - og afleysingaþjónustunnar í umboði landbrh. Reyndar hefur nú um skeið verið við lýði bráðabirgðaákvæði í þessum efnum og stjórn starfandi samkvæmt því. En hér er gerð tillaga um að stjórn forfallaþjónustunnar verði þannig skipuð þremur mönnum að einn sé tilnefndur af Búnaðarfélagi Íslands, einn af Stéttarsambandi bænda og einn tilnefndur af búnaðarsamböndunum sameiginlega.
    Samkvæmt frv. er svo haldið í það meginskipulag að ákveðin yfirstjórn forfalla - og afleysingaþjónustunnar fari fram á vegum stjórnarinnar, en að öðru leyti sé framkvæmdin í verkahring búnaðarsambandanna sem sjái um þetta hver á sínu svæði.
    Þá er og það nýmæli að stjórn forfallaþjónustunnar er heimilt að taka upp samvinnu um skipulag og ráðningu á starfsmönnum í samráði við almenna afleysingaþjónustu sem rekin kynni að verða á vegum samtaka bænda eða hópa bænda. Hér er vísað til þess ákvæðis að bændum er reiknað orlof samkvæmt verðlagsgrundvelli og innifalið í því verði sem þeir fá greitt fyrir sínar afurðir. Það er því gert ráð fyrir því að bændur þurfi sjálfir að greiða fyrir afleysingar vegna orlofs sem þeir taka sér. Og þó ekki hafi enn komist á skipulegt afleysingakerfi vegna slíkrar þjónustu, þá eru þess þekkt dæmi að hópar bænda hafi tekið sig saman og komið sér upp sameiginlega afleysingamönnum eða -manni sem hafi til skiptis leyst af hjá ákveðnum hópi bænda. Hér er sem sagt opnað fyrir þann möguleika að um samstarf um slíkt fyrirkomulag gæti orðið að ræða á einstökum búnaðarsambandssvæðum hvað varðar rekstur forfalla - og afleysingaþjónustunnar sjálfrar.
    Herra forseti. Ég held að ég fjölyrði ekki meira um þetta frv. Hér er verið að leggja til að lögfesta og staðfesta í reynd þá framkvæmd sem þegar er á orðin um þessi mál. Þetta er mál sem í raun og veru lýtur eingöngu að innri málefnum bændastéttarinnar sjálfrar og er fjármagnað af gjaldtöku af þeirra framleiðslu og yrði á þeirra ábyrgð og framkvæmt af þeim, þannig að hér er verið að marka lagaramma um þessi félagslegu réttindamál bændastéttarinnar.
    Ég vil því leyfa mér að segja að lokum að þrátt fyrir það að óneitanlega sé langt liðið á þing þegar

þetta mál loksins kemst hér fram, þá væri það ákaflega vel séð, vel þegið veit ég af þeim sem samkvæmt þessari löggjöf koma til með að reka starfsemi, ef lögfesting þessa litla máls sem þó er ekki svo lítið ef grannt er skoðað, næði fram að ganga á þessu þingi.
    Ég vil svo að lokinni þessari umræðu, herra forseti, leyfa mér að leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.