Hæstiréttur Íslands
Þriðjudaginn 05. mars 1991


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum um Hæstarétt Íslands sem hér er flutt á þskj. 764.
    Dómarar Hæstaréttar hafa samið þetta frv. og haft um það samráð við réttarfarsnefnd og dómsmrn. Markmið frv. eru aðallega eftirfarandi:
    1. Að flýta meðferð nokkurra mála fyrir Hæstarétti með því að auka möguleika á málskoti til Hæstaréttar með kæru. Hér er aðallega um að ræða aðfarargerðir og uppboðsmál en samkvæmt upplýsingum fógeta og uppboðshaldara vill það brenna við að gerðarþolar og uppboðsþolar grípi til þess ráðs að nota málskot eingöngu til frestunar án þess að raunverulegt deilumál sé þar bak við. Oft eru þessi mál felld niður fyrir Hæstarétti án þess að til raunverulegrar meðferðar komi. Með því að heimila kæru sjálfra aðfarargerðanna og uppboðsgerðanna í stað áfrýjunar styttist meðferðartími í Hæstarétti verulega. Má því ætla að síður verði gripið til þess ráðs.
    2. Að flýta því að ákvörðun sé tekin um áfrýjun eftir uppkvaðningu héraðsdóms. Þriggja mánaða áfrýjunarfresti núgildandi laga er að vísu ekki breytt en leitast er við að gera hann virkan. Það er gert með því að fella niður heimild dómsmrh. til að veita áfrýjunarleyfi næstu sex mánuði til viðbótar þriggja mánaða frestinum og það án þess að umsagnar Hæstaréttar sé leitað. Það heyrir til undantekninga að neitað hafi verið um þessi leyfi. Heimild til veitingar annarra áfrýjunarleyfa er flutt úr dómsmrn. til Hæstaréttar. Þessi leyfi má því aðeins veita samkvæmt núgildandi lögum að Hæstiréttur mæli með því. Breytingin horfir því til einföldunar.
    3. Að stytta málflutning fyrir Hæstarétti og gera hann markvissari. Þetta er gert með því að veita réttinum rýmri heimildir til að hlutast til um málflutning fyrir réttinum. Dómarar og lögmenn hafa lengi verið þeirrar skoðunar að stytta þyrfti málflutning og gera hann markvissari. Til þess að svo megi verða þarf ríkara agavald réttarins og aukna þjálfun þeirra lögmanna sem leggja fyrir sig málflutning í Hæstarétti í þessa átt.
    4. Að hækka lágmark áfrýjunarfjárhæðar sem næst til núverandi verðlags, þ.e. úr 7000 kr. 1982 í 90 þús. kr. Líkast til mætti að ósekju hækka lágmarkið meira en ég vil ekki leggja það til þar sem hér eru aðeins tvö dómstig og mikið réttindamál að geta fengið endurskoðun dóms. Benda má þó á að lögin gera ráð fyrir því að Hæstiréttur geti gefið undanþágu frá lágmarkinu. Rétturinn hefur oft mælt með slíkri undanþágu frá núverandi lágmarki, að undanþágur frá núverandi lágmarki séu verulegir réttarhagsmunir tengdir endurskoðun dóms.
    Málafjöldi hefur mjög aukist fyrir Hæstarétti síðustu missirin svo sem fram kemur af yfirliti sem fylgir frv. Í samantekt þessa yfirlits vantar tölur frá árinu 1990 en þær liggja nú fyrir. Á árinu 1990 var 230 málum lokið með dómi, 45 málum var lokið á annan hátt og þann 31. des. 1990 biðu 200 mál málflutnings eða dóms. Í raun er svo enn komið þrátt fyrir fjölgun dómara, síðast 1982, að rétturinn á bágt með eða ræður alls ekki við þennan málafjölda. Bið eftir dómum er of löng. Þetta frv. bætir vonandi eitthvað stöðuna, en leysir vandann ekki til fulls.
    Eftir setningu laga nr. 92/1989, um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, var nauðsynlegt að endurskoða lög um meðferð mála fyrir héraðsdómstólum. Þegar hefur Alþingi samþykkt ný aðfararlög og lög um kyrrsetningu og lögbann og fyrir þinginu liggja nú frv. til nýrra laga um meðferð opinberra mála, frv. til nýrra skiptalaga og frv. til nýrra laga um gjaldþrot og nauðasamninga. Þá eru eftir frv. til nýrra uppboðslaga og einhverjar breytingar á lögum um meðferð einkamála í héraði. Nauðsynlegt er að lagafrumvörp í þessa veru verði lögð fyrir Alþingi á næsta vetri.
    Þess má vænta að aðfararlögin og þau frv. sem ég nefndi hér áðan, ef að lögum verða, hafi áhrif á málafjölda í Hæstarétti og verklag þar. Þess er a.m.k. vænst að kæru - og áfrýjunarheimildir sem tillaga er gerð um í frv. um meðferð opinberra mála verði til mikillar einföldunar á meðferð hluta þeirra opinberu mála sem skotið verður til Hæstaréttar.
    Eftir að ofangreindar breytingar á réttarfarslögum hafa verið gerðar er þess að vænta að á ný þurfi að breyta lögum um Hæstarétt Íslands. Það breytir þó ekki því að þær breytingar sem hér er gerð tillaga um eru brýnar og sumar löngu tímabærar.
    Ég hef nú rakið meginefni þeirra breytinga sem með þessu frv. eru lagðar til á lögum um Hæstarétt Íslands. Um skýringar á einstökum greinum vil ég vísa til ítarlegra athugasemda sem frv. fylgja.
    Að lokum legg ég til, hæstv. forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn. að lokinni þessari umræðu.