Starfskjör presta þjóðkirkjunnar
Þriðjudaginn 05. mars 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. sem felur það í sér að starfskjör presta yrðu ákveðin af Kjaradómi.
    Á vegum Prestafélags Íslands hefur farið fram umræða um það hvort prestar vildu áfram búa við þá skipan sem þeir hafa búið við hingað til, en Prestafélagið hefur verið hluti af Bandalagi háskólamenntaðra manna sem starfa hjá ríkinu. Niðurstaðan varð sú í atkvæðagreiðslu sem fram fór á vegum Prestafélagsins að 95% félagsmanna vilja frekar flytja sig yfir á þá skipan að Kjaradómur ákveði þeirra laun.
    Rök þeirra eru m.a. á þann veg að starf presta sé með þeim hætti að það sé erfitt fyrir presta að beita verkfallsrétti og samningsrétti með hefðbundnum hætti, það sé erfitt fyrir þá að neita að sinna prestsverkum, jarðarförum eða öðru slíku og starf prestsins sé með þeim hætti hvað snertir sálgæslu, samskipti við sóknarbörn, félagslega aðstoð og annað, að óeðlilegt sé að þeir búi við þá skipan sem verið hefur til þessa. Eftir að hafa hugleitt þetta mál nokkuð tók ég þá afstöðu að fallast á þessi rök Prestafélagsins og flytja hér frv. í samræmi við þeirra óskir, þar sem sú breyting er gerð á að Kjaradómur ákveði starfskjör presta líkt og hann ákveður starfskjör ýmissa annarra opinberra starfsmanna eins og fram kemur í 1. gr. frv.
    Í sjálfu sér sé ég ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð en mælist til þess að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. fjh. - og viðskn. sem getur þá kallað til sín þá fulltrúa sem hún telur eðlilegt að ræða við til að hlýða milliliðalaust á þær röksemdir sem þeir flytja.