Grunnskóli
Þriðjudaginn 05. mars 1991


     Guðný Guðbjörnsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þá ábendingu hæstv. menntmrh. í fyrri hluta umræðunnar að grunnskólinn sé mannréttindamál barna. Jafnframt furða ég mig á þeim viðhorfum sem fram komu í fyrri hluta umræðunnar hjá þingmönnum Sjálfstfl., þeim Sólveigu Pétursdóttur og Pálma Jónssyni, og hjá Árna Gunnarssyni varðandi það að þetta frv. hefði of mikinn kostnað í för með sér. Hvernig stendur á því að um leið og komið er að börnum þessa lands er farið að horfa á kostnað með öðrum gleraugum en annars? Á meðan bruðl Sjálfstfl. og Alþfl. eða ríkisstjórnarinnar í kringum ráðhús, skopparakringlu eða álversundirbúning er eins yfirgengilegt og allir vita er slíkur málflutningur ekki trúverðugur. Ég lýsi fullkominni andstöðu minni við forgangsröð af þessu tagi í meðferð á opinberu fé.
    Það liggur fyrir ítarleg skýrsla eftir Jón Torfa Jónasson um kostnað af einsetnum skóla. Sá kostnaður er alls ekki óyfirstíganlegur í svo mikilvægu máli fyrir börn og foreldra þessa lands og mun reyndar að mjög miklu leyti falla á ríkið í formi launa til kennara. Miðað við verðlag í ársbyrjun 1989 er talið að 50 -- 80 millj. kr. þurfi að koma í viðbót árlega til skólabygginga frá sveitarfélögum miðað við að einsetning komist á á fimm árum en ekki tíu eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Hér er átt við aukningu á nauðsynlegum skólastofum en vissulega þurfa auk þess að koma til sérstofur. Aukinn rekstrarkostnaður sem fellur á ríkið vegna launa kennara samkvæmt sömu skýrslu er ráðgerður 350 millj. kr. miðað við verðlag 1989 og er þá átt við þegar öll börn hafa fengið 35 kennslustunda skóladag eftir tíu ár.
    Eru fulltrúar Sjálfstfl. ekki þeirrar skoðunar að ríkið eigi með lagaramma að tryggja að öll börn landsins eigi rétt á ákveðnum skólatíma eða vilja þeir að einstök sveitarfélög ráði því hvað skólatíminn er langur með þeirri mismunun sem það gæti haft í för með sér? Ef fulltrúar Sjálfstfl. eru þeirrar skoðunar að ríkið eigi að setja tímaramma og áætlun um lengingu skóladags og einsetinn skóla í hverju felst þá andstaðan? Er það of hröð uppbygging að þeirra mati að gera ráð fyrir að það taki tíu ár eða eru þeir alfarið á móti einsetnum, lengdum skóladegi? Ég spyr því að þetta eru kostnaðarsömustu þættir þessa frv.
    Ég vil að lokum ítreka það, sem fram kom í máli mínu hér í fyrri hluta umræðunnar vegna ákvæða í 50. gr. frv. um grunnskóla, að nauðsynlegt er að Alþingi verði rausnarlegra í fjárveitingum til Námsgagnastofnunar ef hún á að sjá börnum landsins fyrir ókeypis námsgögnum. Annað býður heim mikilli stöðnunarhættu sem ég vona að allir sjái. Nauðsynlegt verður þá að bregðast við því með öðrum hætti, eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni um þetta mál.
    Virðulegi forseti. Þetta frv. markar ákveðin spor fram á við og því styð ég framgöngu þess, þó að of hægt sé farið eins og áður hefur komið fram í máli okkar kvennalistakvenna. Ég harma sérstaklega að lenging skóladags fyrir yngstu skólabörnin eigi aðeins að fara upp í 25 kennslustundir á þremur árum og að

ekki er gert ráð fyrir viðveru fyrir börn í skólum utan kennslutíma, ekki einu sinni í ákvæðum til bráðabirgða. Það er minn skilningur að einstakir skólar geti áfram haft slíka þjónustu og endurbætt hana þó æskilegra hefði verið að mínu mati að nefna slíkt í ákvæðum til bráðabirgða.