Grunnskóli
Þriðjudaginn 05. mars 1991


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að lengja þessa umræðu en það er tvennt sem ég vil koma á framfæri. Ég tel að þeim auknu fjármunum sem ætlað er að verja til menntunar barna í þessu landi sé vel varið og ég sé ekki að sveitarfélög hafi önnur verkefni brýnni en að sinna menntun æskunnar.
    Ég vil fagna því alveg sérstaklega að í þeim brtt. sem fylgja með því frv. sem hér er til umfjöllunar er lagt til að skólamáltíðir séu teknar upp í íslenskum skólum með þriggja ára aðlögunarfresti. Ég tel það stórt skref sem þar er stigið og ég tel það grundvallaratriði að það skref sé stigið núna með þeirri lengingu sem ætluð er á viðveru barna í skólunum.
    Eins og ég sagði hér áðan, þá ætla ég ekki að lengja þessa umræðu en vildi koma því skýrt að vegna gagnrýni margra aðila á það að með þessu móti séu menn að leggja slíkar byrðar á sveitarfélögin að ósanngjarnt geti talist. Ég lít svo á að þau hafi ekki þarfari verkefni að glíma við en tryggja það að menntunarmál æskunnar í landinu séu viðunandi.