Starfsmenntun í atvinnulífinu
Þriðjudaginn 05. mars 1991


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Herra forseti. Sl. vor mælti ég fyrir frv. því sem hér er endurflutt um starfsmenntun í atvinnulífinu. Ég þarf varla að minna á mikilvægi þessa máls sem ætti öllum að vera ljóst. Undanfarna áratugi hafa orðið miklar breytingar í atvinnulífinu í heiminum og margt bendir til þess að þær verði hraðari og byltingarkenndari en áður. Þessar breytingar hafa það í för með sér að öll störf og vinnuaðferðir munu breytast og miklar tilfærslur verða á vinnuaflinu á milli atvinnuvega, starfsgreina, verkefna og vinnustaða. Sjálfvirkni og vélvæðing munu hafa það í för með sér að mörg störf munu annaðhvort taka miklum breytingum eða úreldast og ný störf taka við sem gera sífellt auknar kröfur til starfsfólks um endurmenntun. Ef ekki er brugðist við með réttum hætti í tíma er mikil hætta á því að það muni hafa í för með sér versnandi lífskjör og atvinnuleysi hér á landi.
    Þær gífurlegu breytingar sem tæknivæðingin hefur á allt atvinnulíf á komandi árum gerir kröfu til þess að tilfærslur geti átt sér stað á mannaflanum milli verkefna og atvinnugreina með eðlilegum hætti, en forsenda þess er að starfsfólki sé gert kleift að njóta endurmenntunar og starfsþjálfunar í miklu ríkara mæli en nú er.
    Í allri atvinnuuppbyggingu og leiðum til að bæta lífskjör fólks er eitt brýnasta verkefnið að opna starfsfólki möguleika til að laga sig með eðlilegum hætti að áhrifum þeirra miklu breytinga sem tæknivæðingin mun hafa í för með sér. Endurmenntun starfsfólks er því ein veigamesta forsenda þess að hægt sé að tryggja atvinnuöryggi launafólks og nýta sér tæknibreytingar til aukinnar framleiðni, hagvaxtar og bættra lífskjara hér á landi. Við verðum að fara að átta okkur á því að við getum ekki stöðvað þróunina. Á þessu sviði er hún hraðari en við gerðum okkur kannski grein fyrir.
    Það er ljóst að afleiðingar af tæknibreytingunum og aukinni samkeppni eru komnar fram í íslensku atvinnulífi. Þess vegna skiptir höfuðmáli að gripið sé til viðeigandi aðgerða á öllum sviðum. Það frv. sem ég mæli hér fyrir er liður í stefnumótun stjórnvalda við að auðvelda launafólki og atvinnurekendum að laga sig að breytilegum aðstæðum sem verða í atvinnulífi og á vinnumarkaði.
    Frv. um starfsmenntun í atvinnulífinu er afrakstur vinnu sem átt hefur sér stað í félmrn. allt frá 1983. Það ár var skipaður starfshópur á vegum ráðuneytisins til að gera úttekt á áhrifum þeirrar umbyltingar á vinnumarkaðinum sem ný tækni hefur í för með sér. Hann skipuðu fulltrúar aðila vinnumarkaðarins. Í áliti starfshópsins kemur m.a. fram að aðlögun vinnumarkaðarins að nýrri tækni kemur misjafnlega niður á starfsgreinum og einstökum störfum. Þess vegna þurfi að tryggja starfsmönnum endurmenntun og þjálfun sem geri þeim kleift að laga sig að tæknibreytingum.
    Í kjölfar fjölmennrar ráðstefnu um starfsmenntun í atvinnulífinu sem félmrn. stóð fyrir í nóvember 1987 skipaði ég vinnuhóp sem fékk það verkefni að setja

fram tillögur og valkosti um starfsmenntun í atvinnulífinu. Í skipunarbréfi hópsins er tekið fram að hann eigi að meta nauðsyn þess að sett verði löggjöf, e.t.v. rammalöggjöf, um starfsmenntun í atvinnulífinu. Vinnuhópnum var sérstaklega falið að hafa samráð við hlutaðeigandi ráðuneyti og aðila vinnumarkaðarins og leita þar hugmynda og tillagna. Hópurinn hélt samtals 32 fundi. Þar af hélt hann 10 fundi með fulltrúum samtals 35 aðila sem fjalla að einhverju leyti um starfsmenntun í atvinnulífinu. Í þessum hópi voru fulltrúar ráðuneyta og samtaka aðila vinnumarkaðarins. Vinnuhópurinn skilaði ítarlegri álitsgerð í febrúar 1989. Meginniðurstaða vinnuhópsins varð sú að það beri að setja löggjöf um þetta málefni. Í álitsgerðinni voru síðan talin upp þau atriði sem fjalla þurfi um í löggjöf. Í framhaldi af álitsgerð vinnuhópsins var ákveðið af minni hálfu og menntmrh. að fela embættismönnum að taka upp viðræður um tengsl starfsmenntunar í atvinnulífinu við almenna fullorðinsfræðslu. Eftir nokkra viðræðufundi var komist að þeirri sameiginlegu niðurstöðu 24. febr. 1989 að rétt væri að sett yrði sérstök löggjöf um starfsmenntun í atvinnulífinu sem heyrði til verksviðs félmrn. og önnur um fullorðinsfræðslu sem heyrði til verksviðs menntmrn. En álitsgerð um þetta efni kemur fram í fylgiskjali I með frv. Þessi niðurstaða byggði m.a. á því að til starfsmenntunar í atvinnulífinu væri oft stofnað með ákvæðum í kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins sem í sumum tilvikum skuldbinda sig til að standa straum af hluta kostnaðar. Á því var vakin athygli að forsendur slíkra samningsákvæða væru breytingar á vinnumarkaðinum vegna tæknibreytinga eða af öðrum ástæðum. Hér væri því fyrst og fremst um vinnumarkaðsmálefni að ræða þar sem forsenda árangurs væri sem mest áhrif aðila vinnumarkaðarins á alla framkvæmd.
    Álitsgerð vinnuhópsins og niðurstöður úr viðræðum félmrn. og menntmrn. voru kynntar ríkisstjórninni sem samþykkti að skipa skyldi nefnd sem falið yrði það verkefni að semja frv. til laga um starfsmenntun í atvinnulífinu. Sú samþykkt var í samræmi við ákvæði í sáttmála ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar frá 28. sept. 1988. Í kaflanum um vinnumarkað segir að ríkisstjórnin muni hafa frumkvæði um að auka starfsmenntun í atvinnulífinu. Hún er einnig í samræmi við loforð sem ríkisstjórnin gaf aðilum vinnumarkaðarins 30. apríl 1989, í tengslum við gerð kjarasamninga, um að hún muni beita sér fyrir því að áfram verði haldið uppbyggingu starfsmenntunar og stefnt að því að koma á samræmdu starfsmenntunarkerfi á vegum félmrn. Ég vil einnig í þessu sambandi minna á ályktun sem samþykkt var á 36. þingi Alþýðusambands Íslands árið 1988 um að sett skuli rammalöggjöf um starfsmenntun í atvinnulífinu sem allra fyrst í nánu samstarfi við verkalýðshreyfinguna. Þar yrði m.a. kveðið á um yfirumsjón félmrn. með starfsmenntun í landinu í samvinnu við verkalýðshreyfinguna, atvinnurekendur, fræðslustofnanir og ráðuneyti.
    Í ágúst 1989 skipaði ég síðan nefnd til að semja

rammalöggjöf um starfsmenntun í atvinnulífinu en jafnframt var skipaður ráðgjafarhópur til að vinna með nefndinni. Í þessari nefnd áttu sæti m.a. fulltrúar aðila vinnumarkaðarins. Og í ráðgjafarnefndinni áttu sæti m.a. fulltrúar frá iðnrn., Sambandi ísl. bankamanna, starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar, Verkamannasambandi Íslands, sjútvrn., Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, landbrn., Bandalagi háskólamanna, Bandalagi kennarafélaga og Fræðslumiðstöð iðnaðarins. Samtals hélt nefndin 22 fundi, þar af 9 sameiginlega fundi með ráðgjafarnefndinni sem tók virkan þátt í umræðum um efnisþætti í væntanlegu frv. og hefur verið látið fylgja með í störfum nefndarinnar. Um skeið var ágreiningur innan nefndarinnar á milli fulltrúa helstu samtaka aðila vinnumarkaðarins. Þann ágreining tókst að jafna og full samstaða varð því um tillögur að frv. sem nefndin skilaði síðan til ráðherra í apríl 1990 og var það lagt fyrir Alþingi en ekki tókst að afgreiða það og dagaði það uppi.
    Félmrn. sendi frv. sumarið 1990 til umsagnar eftirtalinna stofnana og samtaka: Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamenntaðra starfsmanna ríkisins, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Félags ísl. iðnrekenda, Iðntæknistofnunar Íslands, Landssambands iðnaðarmanna, Landssambands iðnverkafólks, Sambands ísl. bankamanna, Samtaka fiskvinnslustöðva, starfsfræðslunefndar fiskvinnslunnar, Stéttarsambands bænda, Sambands málm - og skipasmiðja, Verkamannasambands Íslands, Vinnumálasambands samvinnufélaganna og Vinnuveitendasambands Íslands. Ráðuneytinu bárust umsagnir frá átta aðilum. Flestir lýstu yfir stuðningi við meginmarkmið frv. og komu með ábendingar sem voru í flestum tilvikum teknar til greina. Athugasemdir við frv. komu m.a. frá tveimur aðilum, starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar og samtökum fiskvinnslustöðva. Þessir aðilar gátu samþykkt frv. að því tilskildu að starfsfræðsla fiskvinnslunnar félli utan gildissviðs laganna og héldi því áfram að heyra undir sjútvrn. Þrátt fyrir endurtekna tilraun til að ná samkomulagi um að lögin tækju til allra starfsgreina hefur niðurstaðan orðið sú að taka fram í 4. gr. frv. að starfsfræðsla í fiskvinnslu heyri til verksviðs sjútvrn. Einnig hefur 17. gr. frv. verið breytt þannig að tekið er fram að lögin skuli endurskoðuð að þremur árum liðnum í stað fjögurra ára.
    Virðulegi forseti. Helstu atriði frv. um starfsmenntun í atvinnulífinu eru eftirfarandi:
    1. Í frv. er ítarlega kveðið á um markmið starfsmenntunar í atvinnulífinu sem er m.a. að stuðla að aukinni framleiðni og greiða fyrir tækninýjungum og framþróun í íslensku atvinnulífi. Einnig að bæta verkkunnáttu og auka hæfni starfsmanna til að mæta nýjum kröfum og breyttum aðstæðum o.fl.
    2. Markmiðum laganna skal m.a. náð með stuðningi við skipulagða starfsfræðslu og með frumkvæði og mótun heildarstefnu varðandi starfsmenntun í atvinnulífinu.
    3. Kveðið er á um skipan starfsmenntunar í stjórnkerfinu og lagt til að starfsmenntun í atvinnulífinu heyri undir félmrn. sem ráðuneyti vinnumála. Þó er

gerð sú undantekning að starfsfræðsla í fiskvinnslu heyri undir sjútvrn.
    4. Tillaga er gerð um skipan starfsmenntaráðs sem úthluti styrkjum til starfsmenntunar og skuli vera stjórnvöldum til ráðuneytis og stefnumótunar um aðgerðir á sviði starfsmenntunar. Í starfsmenntaráði eiga sæti sjö fulltrúar, tveir fulltrúar samtaka launafólks og þrír fulltrúar samtaka atvinnurekenda. Félmrh. skipi einn fulltrúa án tilnefningar.
    5. Tillaga er um að félmrn. safni upplýsingum um starfsmenntun og miðli þeim til hlutaðeigandi aðila. Með því verði stuðlað að betri nýtingu þess fjármagns sem nú er varið til starfsmenntunar á vinnumarkaði og komið í veg fyrir tvíverknað.
    6. Aukið eftirlit með opinberum fjárveitingum til starfsmenntunar. Aðilum sem fá stuðning samkvæmt lögunum verði skylt að veita stjórnvöldum upplýsingar um menntun og/eða þjálfun sem boðið hefur verið upp á.
    7. Framlög hins opinbera til starfsmenntunar í atvinnulífinu verði ákveðin árlega í fjárlögum samkvæmt tillögu félmrh. og renni þannig í ákveðinn sjóð. Það verði því fjárveitingavaldsins að ákveða framlög hins opinbera til starfsmenntunar hverju sinni.
    Ég mun nú víkja nánar í örfáum orðum að nokkrum atriðum. Af frv. má ljóst vera að ekki er stefnt að uppbyggingu sjálfstæðs starfsmenntunarkerfis að erlendri fyrirmynd. Þvert á móti er stefnt að fyrirkomulagi sem tekur mið af íslenskum aðstæðum. Í þessu felst að ekki er gert ráð fyrir frumkvæði félmrn. að starfsmenntun né framkvæmdum af þess hálfu. Hins vegar er hugmyndin sú að byggt verði sem mest á því frumkvæði sem ýmsir aðilar hafa tekið á þessu sviði á undanförnum árum. Afskipti ráðuneytisins felast í skipun starfsmenntaráðs sem úthlutar styrkjum til framangreindra aðila sem verða í raun ábyrgir fyrir framkvæmdinni. Þeir geti valið um það hvort þeir kjósa að standa sjálfir fyrir starfsmenntuninni eða leita til annarra aðila, t.d. skóla eða annarra stofnana sem sérhæfa sig í fræðslustarfsemi.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að starfsmenntaráð verði stjórnvöldum til ráðuneytis um stefnumótun á þessu sviði. Í því felst að starfsmenntaráð verður að fylgjast náið með þróuninni á vinnumarkaðinum og í atvinnulífinu. Á grundvelli þess sem þar er að gerast gerir starfsmenntaráðið tillögur um forgangsverkefni og nauðsynlegt fjármagn til framkvæmda. Það verður síðan á valdi Alþingis að taka afstöðu til fjárveitinga til þessa málaflokks.
    Kosturinn við þetta fyrirkomulag er sá að með því fæst yfirlit yfir það sem er að gerast í starfsmenntunarmálum. Eins og áður hefur komið fram eru margir aðilar að fást við þessa hluti og samstarf og samráð er í lágmarki. Oft hendir það að fleiri aðilar eru að vinna sama verkið, t.d. að semja svipað námsefni með stuðningi opinberra aðila. Með skipun starfsmenntaráðs er stefnt að því að heildaryfirsýn fáist yfir þetta svið þannig að stuðlað verði að betri nýtingu vinnu og fjármuna.
    Í álitsgerð sem skilað var félmrh. í febrúar 1989

var gerð grein fyrir tiltækum upplýsingum um fjárframlög nokkurra nágrannaríkja okkar til starfsmenntunar. Einnig var reynt að meta framlög íslenskra stjórnvalda. Ég hef aflað nýrra upplýsinga um þróun þessara mála vegna þess að greinargerðin er að mestu byggð upp eins og hún var lögð fram á síðasta þingi og tölurnar sem þar eru birtar í flestum tilvikum því orðnar nokkuð gamlar.
    Í fáum orðum sagt hefur þróun starfsmenntunar í vestrænum lýðræðisríkjum verið ótrúlega ör. Í þessum ríkjum hefur á undanförnum árum verið lögð mjög aukin áhersla á hvers kyns endurmenntun vinnuaflsins. Að hluta til er ástæðan ný tækni og örar breytingar í atvinnulífinu. Ég vil benda á nokkur dæmi.
    Í Svíþjóð var á fjárhagsárinu 1989 -- 1990 varið samtals 22.380 millj. sænskra króna til vinnumarkaðsmála. Af þessari upphæð fóru 26,6% í starfsmenntun og þjálfun eða 5.954 millj. sænskra króna. Þetta svarar til um það bil 60 milljarða ísl. kr. Árið 1989 varði norska ríkið 1.460 millj. norskra kr. til menntunar á vinnumarkaði eða rúmlega 14 milljörðum ísl. kr. Þessi tala segir e.t.v. ekki mikið en við þetta má bæta að aðildarríki OECD verja yfirleitt frá 0,5% og upp í 6% af vergri þjóðarframleiðslu til aðgerða á vinnumarkaði sem m.a. hafa að markmiði aukna framleiðni með betri menntun og þjálfun starfsfólks í atvinnulífinu. Flest ríki verja um 2% af vergri þjóðarframleiðslu til þessara hluta og skiptist það til helminga á milli þess sem kallað er virkar og óvirkar aðferðir í vinnumarkaðsmálum. Með óvirkum aðgerðum er átt við hvers konar bætur til atvinnuleysingja. Virkar aðgerðir fela m.a. í sér aðgerðir í starfsmenntunarmálum.
    Danir eiga metið í þessu sambandi. Þeir verja sem svarar tæplega 6% af vergri þjóðarframleiðslu til vinnumarkaðsmála en þess ber að geta að stór hluti þess fór í greiðslur atvinnuleysisbóta. Engu að síður tóku rúmlega 200 þúsund manns þátt í starfsmenntun sem naut að einhverju leyti stuðnings stjórnvalda og vinnumarkaðsmála í Danmörku á árinu 1989.
    En hvernig er þessum málum háttað á Íslandi? Á síðustu missirum hefur verið reynt að kanna hve opinberir og einkaaðilar verja miklum fjármunum til menntunar starfsfólks. Það hefur reynst mjög erfitt að draga þær tölur saman. Þau útgjöld hafa fram til þessa í fæstum tilvikum verið eyrnamerkt. Þau hafa reynst vera hluti af almennum rekstrargjöldum fyrirtækja og stofnana. Þó er ljóst að ýmsar stéttir á vegum ríkisins hafa náð ákvæði í kjarasamningum sínum um framlag ríkisins til starfsmenntasjóða. Þessi framlög eru greiðsla ákveðins hlutfalls af heildarlaunagreiðslum í sérstakan starfsmenntasjóð. Hér má benda á tvö dæmi, starfsmenntasjóð ríkisins og Vísindasjóð.
    Ríkið greiðir nú 0,22% af föstum dagvinnulaunum BHMR og 0,22% af öllum launum starfsmanna BSRB í starfsmenntasjóð. Samtals var þessi upphæð rúmar 37 millj. kr. á árinu 1990.
    Vísindasjóður kom til sögunnar árið 1989. Í hann renna 1,5% af föstum dagvinnulaunum þeirra starfsmanna sem taka laun eftir samningum BHMR. Framlög ríkisins til þessa sjóðs á árinu 1990 voru samtals

rúmar 88 millj. kr. Við þetta má bæta ákvæðum í kjarasamningum fjölmargra stétta sem starfa á vegum ríkisins og lækna, viðskiptafræðinga og presta. T.d. eiga sérfræðingar á ríkisspítölum rétt á 15 daga námsleyfi erlendis á ári hverju. Aðstoðarlæknar eiga rétt á sjö daga námsleyfi og yfirlæknar þriggja vikna leyfi á hverju ári. Það lætur nærri að kostnaður ríkisspítalanna vegna þessa sé um 43 millj. kr. á árinu 1990. Þá er ótalinn kostnaður annarra spítala, t.d. Borgarspítalans, Landakotsspítala og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Háskólakennarar hafa samið um rannsóknarleyfi sjöunda hvert missiri, eitt missiri í senn. Einnig geta verkfræðingar í þjónustu ríkisins sótt um tveggja mánaða námsleyfi á fjögurra ára fresti. Heildarútgjöld ríkisins vegna þessa liggja ekki fyrir heldur eru þau hluti af launa - og rekstrarkostnaði hverrar stofnunar fyrir sig.
    Í lokin má minna á að sjútvrn. hefur á fjárlögum yfirstandandi árs um 50 millj. kr. til gæðaátaks í sjávarútvegi sem, samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins, mun vera að mestu varið til starfsfræðslu í fiskvinnslu. Félmrn. hefur um 15 millj. kr. til stuðnings starfsmenntunar í atvinnulífinu á þessu ári.
    Af þessari upptalningu ætti það að vera nokkuð ljóst hverjir það eru sem sitja eftir. Það er ófaglærða fólkið á hinum almenna vinnumarkaði. Því frv. sem hér er lagt fyrir Alþingi er fyrst og fremst ætlað að koma til móts við þetta fólk.
    Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því í 15. gr. frv. að hægt verði að fá nám, sem styrkt er samkvæmt lögunum, metið til námseininga í hinu almenna skólakerfi. Með þessu er verið að opna fólki, sem hefur litla formlega skólamenntun að baki, leið til þess að afla sér starfsréttinda sem er ætlað að tryggja stöðu þess á vinnumarkaðinum.
    Í fjórða lagi vil ég leggja áherslu á að fram kemur í lokaákvæði frv. að lögin skuli endurskoðuð eigi síðar en að þremur árum liðnum. Það er ljóst að hér er um að ræða svið sem verður sífellt mikilvægara fyrir þjóðfélagið allt, atvinnuvegina jafnt sem einstaklinga. Ég er því ekki í nokkrum vafa um að fjármagn sem til þess verður varið skili sér til baka til þjóðfélagsins með aukinni framleiðni og meiri gæðum og meira atvinnuöryggi launafólks.
    Virðulegi forseti. Ég vil leggja til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.