Starfsmenntun í atvinnulífinu
Þriðjudaginn 05. mars 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Aðeins út af þeim ábendingum sem fram komu hjá hv. þm. Kristínu Einarsdóttur. Það er út af fyrir sig ljóst að það er mín skoðun og margra annarra að það hefði að mörgu leyti verið æskilegt að vera með eitt samfellt endurmenntunar - og fullorðinsfræðslukerfi, bæði utan vinnumarkaðar og innan. Hins vegar liggur það fyrir og hefur legið mjög lengi fyrir að þeir sem kallaðir eru aðilar vinnumarkaðarins hafa iðulega samið um ákveðin starfstengd námskeið, starfsmenntunarnámskeið. Og þeir hafa gert það í tengslum við eða að nokkru leyti undir forræði félmrn. og stundum sjútvrn. Þess vegna varð niðurstaða okkar félmrh. sú, með sérstöku samkomulagi sem var undirritað 24. febr. 1989 ef ég man rétt, að freista þess að láta semja drög að lagaramma fyrir þessi svið hvort í sínu lagi þó svo það sé ljóst í báðum frv. að þau nálgast á ýmsum sviðum og gert er ráð fyrir því í þeim báðum að þessi starfssvið tengist. Ég hefði auðvitað frekar kosið að komast alla leið í þessu skrefi. Það tókst ekki. Niðurstaðan er sem sagt þessi og ég tel að þetta sé mjög viðunandi samkomulagsgrundvöllur. Þess vegna get ég með mjög góðri samvisku staðið að frv. báðum eins og ég geri, annars vegar sem flm. og hins vegar sem stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar.
    Varðandi Félagsmálaskóla alþýðu er auðvitað það sama að segja að mínu mati. Ég tel að þar hafi kannski ekki verið alveg rétt á hlutunum haldið en hef ákveðið að búa við þann veruleika a.m.k. nokkurn tíma þangað til að ég finn að flötur verður á því að breyta þar til.
    Ég er reyndar þeirrar skoðunar að skólar eigi sem mest og helst allir að vera hjá menntmrn., það sé eðlilegast. Ég er þar með ekki að segja að ég ætli að leggja til atlögu við hæstv. félmrh. né heldur við hæstv. landbrh. sem er með virðulega skóla í sínu ,,resí`` án þess að ég hafi gert sérstakt áhlaup á hans virki í þeim efnum þó að það sé satt að segja dálítið freistandi og verður kannski bara gert í næstu lotu þegar menn komast að þessum málum.
    Þetta vildi ég segja. Ég er sammála þeim almennu sjónarmiðum sem hv. þm. Kristín Einarsdóttir setti fram. Ég segi, ég er fullkomlega sáttur við þann áfanga sem þessi frv. bæði móta sem hafa verið á dagskrá þessa fundar hér í dag.