Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um ráðstafanir vegna aflabrests í loðnuveiðum. Hv. þm. er kunnugt um það mikla áfall sem loðnuflotinn og loðnuiðnaðurinn hefur orðið fyrir og er þetta frv. flutt til þess að bæta þar nokkuð úr.
    1. gr. frv. fjallar um það að heimilt sé að ráðstafa þeim aflaheimildum sem Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins hefur til ráðstöfunar nú fyrstu átta mánuði ársins í þessu skyni. 2. gr. frv. fjallar um það að heimilt sé að auka sérstaklega veiðiheimildir af rækju um 5000 lestir til þess að koma til móts við loðnuflotann. Er þetta gert til þess að komast hjá því að beita 9. gr. laga um stjórn fiskveiða þar sem heimilt er og settar skyldur á sjútvrh. að skerða hinn hluta flotans ef upp kemur áfall sem þetta.
    Herra forseti. Það má fara mörgum orðum um þetta mál sem snertir ekki aðeins loðnuflotann, heldur loðnuverksmiðjurnar og mörg byggðarlög. Það hafa verið lagðar fram sérstakar tillögur til þess að mæta vanda loðnuverksmiðjanna sem verða til umfjöllunar við afgreiðslu lánsfjárlaga. Jafnframt hafa margvíslegar aðrar ráðstafanir verið til umfjöllunar, m.a. af hálfu Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
    Ég tel ekki ástæðu til á þessu stigi að hafa um þetta mál fleiri orð og legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.