Grunnskóli
Þriðjudaginn 05. mars 1991


     Geir H. Haarde :
    Herra forseti. Það er ástæðulaust fyrir mig að hafa langt mál um þetta frv. eins greinilega og hv. þm. Sólveig Pétursdóttir og Ragnhildur Helgadóttir hafa gert grein fyrir afstöðu Sjálfstfl. til þess.
    Það liggur alveg fyrir, virðulegi forseti, og hefur ekki komið betur fram hjá öðrum ræðumanni en einmitt forseta deildarinnar, hv. 3. þm. Norðurl. e., að fyrir fjárhagshlið þessara mála hefur ekki verið séð með viðunandi hætti. Þótt menntmrh. hafi kosið að skeyta skapi sínu sl. föstudag á hv. 2. þm. Norðurl. v. Pálma Jónssyni út af gagnrýni hans á þennan þátt málsins verður hann að gera sér grein fyrir því að stjórnarliðar, eins og hv. þm. Árni Gunnarsson, hafa einmitt gagnrýnt það hvernig frá þessum þætti málsins hefur verið gengið eða réttara sagt ekki gengið. Því hér er ekki bara spurning um stefnumið eða markmið, sem allir geta verið sammála um, eins og að búa börnunum í landinu betri skóla. Það kostar að sjálfsögðu fjármagn og það þarf að tryggja um leið og gefin eru fyrirheit um umbætur í skólamálunum.
    Ég ætlaði, virðulegur forseti, aðeins að víkja að nokkrum atriðum í frv. sem ég hef sérstaklega hnotið um því ég átti þess kost að mæta á einn fund í hv. menntmn. þar sem þetta mál var rætt.
    Ég kem þá fyrst að 9. gr. frv. þar sem kveðið er á um grunnskólaráð svokallað. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að koma á laggirnar slíku ráði. Hins vegar tel ég að hlutur foreldra eða foreldrafélaga sé þar nokkuð fyrir borð borinn og teldi eðlilegt að það væri áskilið í ákvæði um þetta grunnskólaráð að þar væru tveir fulltrúar foreldrafélaga eða samtaka þeirra. Gjarnan mætti þá annar þeirra vera fulltrúi fyrir foreldrafélög í dreifbýli eða foreldrafélög úti á landsbyggðinni.
    Ég vil víkja næst að 17. gr. frv. þar sem fjallað er um skiptingu sveitarfélaga í skólahverfi. Þar segir nú, með leyfi forseta: ,,Fjölmennari sveitarfélögum skal skipt í skólahverfi og annast viðkomandi sveitarstjórn þá skiptingu með samþykki menntmrn.`` Þó að um þetta kunni að vera skiptar skoðanir þá tel ég að hér sé á ferðinni dæmigert málefni sem ætti að vera viðfangsefni viðkomandi sveitarfélags,
þ.e. hvernig sveitarfélagið kýs að skipta sínu yfirráðasvæði í skólahverfi eftir bæjarhlutum eða öðrum viðmiðunum sem sveitarfélagið þekkir best. Hins vegar kunna að vera um þetta atriði eitthvað skiptar skoðanir. Ég hygg þó að sú skoðun sem ég hef hér lýst fari saman við þá stefnu að auka forræði sveitarfélaganna sjálfra við meðferð þessara mála.
    Í 18. gr. frv. er kveðið á um skólanefnd og starfshætti hennar. Ég tók eftir því að í ræðu hv. síðasta ræðumanns var einnig vikið að þessari grein. Þar er kveðið á um það að skólanefnd geti lagt tillögur um umbætur í skólastarfi fyrir skólastjóra í skólahverfinu. Hins vegar er ekkert vikið að því að skólanefnd hafi neitt að segja um innra starf skólans sjálfs sem þó er ýjað að í greinargerð. Ég tel því að þarna þyrfti að kveða mun skýrar á um að það væri beinlínis hlutverk skólanefndarinnar að gera tillögur til skólastjóra,

ef hún sæi ástæðu til þess, um umbætur eða breytingar í innra starfi skólans og skólastarfinu yfirleitt.
    Í 26. gr. frv. segir að leita skuli samþykkis menntmrn. áður en framkvæmdir við skólamannvirki geti hafist. Hér er enn á ferðinni dæmigert ákvæði þar sem sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélags er skertur þrátt fyrir yfirlýst markmið frv. um að auka valddreifingu og ábyrgð sveitarfélaganna. Ég sé ekki að það sé nokkur þörf á því, ef sveitarfélag treystir sér til þess að ráðast í framkvæmdir við skólamannvirki eða hyggur á slíkar framkvæmdir, að leita samþykkis ráðuneytisins. Sama er að segja um næstu málsgrein þessarar greinar þar sem segir að skólanefnd skuli gera tillögur um nafn skóla, en ráðuneyti síðan staðfesta nafngiftina að fenginni umsögn örnefnanefndar. Ýmsir ræðumenn hafa komið að þessu atriði. Þetta er að sjálfsögðu ekki stórt mál en engu að síður dæmigert fyrir það að völdin eru í raun ekki hjá sveitarfélögunum þótt svo sé látið í veðri vaka.
    Í 25. gr. frv. hefur slæðst inn sú prentvilla að orðið ,,heimavistir`` er karlkennt og vænti ég þess að það verði leiðrétt við fyrsta tækifæri. ,,Við gerð heimavistar skal kappkostað að þeir minni sem mest á venjuleg heimili`` o.s.frv.
    Næst vil ég koma að 33. gr. frv. þar sem fjallað er um ráðningar kennara og valdsvið annars vegar skólastjóra og hins vegar skólanefnda. Þar segir að skólastjóri ráði kennara og aðra starfsmenn sem teljast ríkisstarfsmenn í samráði við skólanefndir. Og sömuleiðis neðar í sömu grein að skólanefndirnar ráði þá starfsmenn er teljist starfsmenn sveitarfélaga í samráði við skólastjóra. Ég hygg að þetta sé óljóst orðalag og ekki alveg skýrt hvað ,,í samráði við`` þýðir í hvoru tilfellinu fyrir sig og ekki alveg ljóst hvar valdmörkin eru ef upp kæmi ágreiningur og bendi á þetta sem atriði til skoðunar.
    Að því er varðar 46. gr. frv. þá er þar tekið fram hvenær jólaleyfi og páskaleyfi skuli hefjast. Að öðru leyti skuli leyfisdagar ákveðnir í reglugerð. Vil ég nú segja að mér finnst ástæðulaust að lögbinda nákvæmlega upp á dag hvenær þessi leyfi í grunnskólanum skuli hefjast og þeim ljúka. Það kann vel að vera að aðstæður geti verið breytilegar frá ári til árs og það kann að þurfa að vera ákveðið svigrúm í þessu efni. Þess vegna hlýtur að vera nægilegt að ákveða um þessi atriði í reglugerð.
    Í 48. gr. frv. er vikið að aðalnámsskrá og þeim sviðum þar sem kveða skal á um meginmarkmið og ákvæði um megininntak o.s.frv. við skipulagningu náms og kennslu. Þetta er nú eflaust eitthvert mikilvægasta skjalið í öllum skólamálum í landinu, aðalnámsskráin, og ég sakna þess að það skuli hvergi sérstaklega vikið að því í þessum lögum að það eigi að kenna Íslandssögu. Það er eingöngu talað um mannlegt samfélag, samfélagshætti, umheiminn og umhverfi nær og fjær í fortíð og nútíð, einkum með hliðsjón af Íslandi. Það kann að vera gamaldags en ég hefði talið fullkomlega eðlilegt að taka það sérstaklega fram að Íslandssaga ætti þar að eiga heima, annaðhvort undir þessum lið, sem ég nú las, eða í 1. lið

þar sem talað er um íslenskar bókmenntir og fleira því tengt.
    Ég vil jafnframt víkja hér að öðru málefni í tengslum við 52. og 53. gr. þessa frv. þar sem vikið er að réttindum og skyldum nemenda. Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir kom nokkuð að þessu atriði í sinni ræðu, en það varðar, ef kalla mætti það svo, málefni afburða nemenda. Í 53. gr. eru ítarleg og sjálfsögð ákvæði um hvernig bregðast skuli við þörfum nemenda með sérþarfir. Nemenda sem vegna erfiðleika í námi eða tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika hafa þörf fyrir sérkennslu. Öllum er ljóst að þessi þjónusta er nauðsynleg og sjálfsögð. Hins vegar finnst mér á það skorta að um það sé fjallað í þessu frv. að það þurfi líka að koma sérstaklega til móts við afburða nemendur, nemendur sem hafa meiri þroska en almennt gerist meðal jafnaldra þeirra. Ég bendi á að í könnun, sem Þórólfur Þórlindsson prófessor gerði fyrir þremur árum síðan á högum og viðhorfum grunnskólakennara, kemur fram að mikill meiri hluti kennara virðist telja að ekki sé nægilega vel gert við duglega nemendur eða eins og það er orðað: þeir telja að eins og skólastarfi sé háttað í dag sé afburða nemendum haldið niðri. Ég hefði talið eðlilegt að koma til móts við þennan hóp nemenda, t.d. með því að kveða á um það í þessum lögum að ef nemendur hafi náð afburða árangri í námi og hafi að dómi kennara eða skólastjóra meiri þroska en almennt gerist, þá eigi þeir þess kost eftir því sem við yrði komið að ljúka skyldunámi á skemmri tíma en tíu árum. E.t.v. mætti hugsa sér að koma til móts við þennan hóp með einhverjum öðrum hætti en mér finnst liggja beinast við að gera það með því að kveða á um að þeir eigi þess kost að ljúka skyldunáminu á skemmri tíma heldur en almennt gerist.
    Nú er auðvitað ekki þar með sagt að allir afburða nemendur mundu kæra sig um það eða foreldrar þeirra, enda er eftir ýmsu fleiru að slægjast í grunnskólanum heldur en það sem skólabækurnar einar færa með sér. Það er félagslíf og það er samneyti við jafnaldra og þess vegna ekki víst að öllum nemendum sem hér er vikið að hentaði að stytta skyldunámið með þessum hætti þó að þeir gætu það. En eflaust hentaði það mörgum sem eru í þeim hópi sem ég er hér að tala um og mér finnst eðlilegt að það sé kveðið á um einhver úrræði eða möguleika fyrir þennan hóp barna.
    Í IX. kafla frv. er fjallað um námsmat, sem svo er kallað, því að orðið próf virðist ekki lengur vera það sem menn vilja nota, enda eflaust hægt að meta árangur í námi með öðru en prófum. Hins vegar vildi ég nefna í því sambandi að í þeirri könnun sem ég áður gat um frá árinu 1988, sem prófessor Þórólfur Þórlindsson beitti sér fyrir, kemur fram að mikill meiri hluti kennara telur að nemendur ættu að flytjast milli bekkja í grunnskólum með því að taka próf. Það virðist vera útbreidd skoðun að kennarar væru í seinni tíð orðnir mótfallnir prófum, en samkvæmt þessari niðurstöðu er það röng kenning. En ég skal ekki segja hvort þær greinar, 62. og 63. gr. frv., sem fjalla um

námsmat ættu að endurskoðast í ljósi þess. Ég er ekki alveg viss um það en vildi koma þessum upplýsingum hér á framfæri.
    Ég vil svo hér í lokin, virðulegi forseti, rétt nefna það að í 72. gr. þessa frv. er kveðið á um einkaskóla. Þar segir í næstsíðustu málsgrein að einkaskólar eigi ekki kröfu til styrks af almannafé en í síðustu málsgrein segir að skólagjöld þeirra skuli háð samþykki menntmrn. Mér finnst vera í þessu fólgin mótsögn. Þó að um þessi ákvæði kunni að gilda eitthvað líkt í öðrum lögum, þá teldi ég nú eðlilegast að síðasta málsgrein, um að skólagjöld séu háð samþykki menntmrn., falli brott fari svo að þetta frv. fái hér einhvern áframhaldandi framgang í þinginu.
    Ég skal ekki hafa um þetta mikið fleiri orð, virðulegi forseti. Ég hef komið nokkrum efnisathugasemdum á framfæri af minni hálfu við þetta frv. en stend að sjálfsögðu að þeirri tillögu sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir og Sólveig Pétursdóttir hafa flutt um að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Við sjálfstæðismenn teljum einsýnt að þetta frv. þurfi að undirbúa betur að ýmsu leyti og þá ekki bara vegna kostnaðarhliðar málsins, sem hér hefur verið mjög til umræðu og snertir auðvitað ekki bara ríkið heldur einnig sveitarfélögin í mjög miklum mæli, heldur líka vegna ýmissa annarra efnisatriða sem í þessu máli eru fólgin, þar á meðal þeirra sem ég hef hér verið að nefna.
    Ég er að vísu ekki sérfræðingur í þessum málum en allir sem hafa átt börn í grunnskóla eða hugleitt þessi mál að einhverju marki, og það eru nú flestir þingmenn að sjálfsögðu, geta auðveldlega myndað sér skoðanir á frv. sem þessu. Ég hygg að það hafi komið hér fram af hálfu margra þingmanna veigamiklar athugasemdir við efni frv. þó að ýmis meginstefnumið séu sameiginleg þingmönnum öllum. Það er af þeirri ástæðu sem rétt er að vísa þessu máli aftur til ríkisstjórnarinnar í þeirri von og í trausti þess að um þetta veigamikla grundvallarfrv. --- þetta er grundvallarlöggjöf í skólamálum á Íslandi --- geti náðst mikil og breið samstaða og jafnframt tryggt að fyrir þeim umbótum og framförum sem það felur í sér sé séð fjárhagslega þannig að öllum greiðendum, sem að því máli koma, sé ljós þeirra kostnaðarþáttur og hvernig að greiðslum og fjáröflun almennt skuli staðið.
    Þetta vildi ég sagt hafa við 2. umr., virðulegi forseti.