Grunnskóli
Þriðjudaginn 05. mars 1991


     Guðný Guðbjörnsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þau orð hv. þingkvenna Rannveigar Guðmundsdóttur og Sólveigar Pétursdóttur í þá veru að þær séu sammála þeim markmiðum grunnskólafrv., sem hér er til umræðu, um einsetinn lengdan skóladag og málsverð fyrir börn í hádeginu og jafnframt mótmæla að ég hafi misskilið orð Sólveigar Pétursdóttur og Pálma Jónssonar hér áðan. Ég hef enga ástæðu til að ætla að þær tölur sem hæstv. menntmrh. gefur upp varðandi kostnað sem hlýst af þessu frv. og sá kostnaður sem kemur fram í skýrslu Jóns Torfa Jónassonar séu óáreiðanlegri en þær kostnaðartölur sem fulltrúar Sjálfstfl. nefna. Eða að fullyrðingar Árna Gunnarssonar um þann óyfirstíganlega kostnað sem af þessu hlýst séu haldbærari heldur en rök menntmrh. og Jóns Torfa Jónassonar. Og ég vil benda Árna Gunnarssyni á að í skýrslu Jóns Torfa Jónassonar kemur fram hver kostnaður sveitarfélaganna er varðandi uppbyggingu á nýju skólahúsnæði.
    Vissulega heyrði ég að Sólveig Pétursdóttir tók undir þessi almennu markmið í sinni ræðu. En fyrst hún taldi kostnaðinn svona óyfirstíganlegan tók ég hæfilega mikið mark á því.
    Aðeins í lokin: Hvernig stendur á því að við höfum ekki efni á einsetnum skóla fyrir okkar börn eins og allar nágrannaþjóðir okkar? Fulltrúar Sjálfstfl. hafa nefnilega við ýmsa aðra þætti frv. að athuga sem er aðalástæðan fyrir því að þeir leggjast gegn því eins og smátt og smátt hefur verið að koma í ljós í þeirra ræðum. Eins og ég benti á í fyrri ræðu minni um þetta mál, þá tel ég ekki tryggt að sveitarfélögin byggi skólahúsnæði í samræmi við þá uppbyggingu sem hér er fyrirhuguð þrátt fyrir ákvæði 10. gr. Það er veikleiki frv. sem kemur til vegna verkskiptingarlaganna, nr. 87/1989. Því eru ekki lagðar óhóflegar skyldur á sveitarfélögin. Eða er það ekki skoðun Sjálfstfl. að ríkið eigi að hafa heildarstefnu um samræmdan lengdan skólatíma fyrir öll börn landsins þrátt fyrir núgildandi verkskiptingarlög? Vilja fulltrúar Sjálfstfl. kannski alfarið að skólastarfið í landinu verði mótað af einstökum sveitarfélögum með þeirri mismunun sem af því hlytist? Þetta hefur ekki fengist á hreint í þeirra löngu og efnismiklu ræðum. Sólveig amaðist út í þessa verkskiptingu. Hún biður um meiri valddreifingu og minni miðstýringu svo draga má þá ályktun að það sé draumafyrirkomulag Sjálfstfl.
    Vissulega þarf að efla áhrif foreldra, sbr. t.d. ákvæði 17. gr. í frv. um að skipta stórum sveitarfélögum í skólahverfi. En að hörfa frá þeirri skipan að öll börn fái sama rétt til skólagöngu er hættuleg mismununarstefna. Ef Árni Gunnarsson vill samræmda skólastefnu af hálfu ríkisins er hann þá að segja að það geti ekki gerst nema ríkið kosti meiru til en núgildandi verkskiptingarlög gera ráð fyrir? Ég vildi gjarnan að hann svaraði því.