Grunnskóli
Þriðjudaginn 05. mars 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hefur farið hér fram um málefni grunnskólans. Ég kýs að líta þannig á að í umræðunum hljóti að hafa komið fram fyrst og fremst velvilji í garð grunnskólans og þróunar hans. Ef menn leggja á það áherslu að við eigum góðan grunnskóla og ég hlýt að láta það koma fram hér sem mína skoðun að ég tel reyndar að grunnskóli hér á landi sé að mörgu leyti mjög vanbúinn miðað við það sem gerist í grannlöndum okkar. Ég tel að sú staðreynd að við erum með skemmri skóladag hjá yngstu börnunum heldur en gerist í grannlöndum okkar og að mörgu leyti minni umræðu og minni átök um innra starf skólans og gæði skólastarfsins eins og það fer fram á hverjum tíma hér á landi sé að sumu leyti til marks um það að við þurfum að standa okkur mikið betur.
    Hvað eru grunnskólalög? Grunnskólalög eru lög um lágmarksréttindi barna til fræðslu á tilteknu aldursskeiði. Það eru grunnskólalög númer eitt. Í öðru lagi eru grunnskólalög lagabálkur sem fjallar um það hvernig á sem best að tryggja þessi lágmarksréttindi barna. Þess vegna segjum við: Öll börn, hvar sem er á landinu, eiga að hafa þessi lágmarksréttindi. Við segjum ekki að börn í Arnarneshreppi eða Fellsstrandarhreppi eigi að hafa lakari réttindi til grunnskólagöngu en börn í Reykjavík þó að tvö fyrrnefndu sveitarfélögin séu fátæk en það síðastnefnda ríkt. Þetta þýðir það, virðulegi forseti, að ákvæði grunnskólalaga koma auðvitað með misjöfnum hætti við sveitarfélögin í landinu. Sum sveitarfélögin eru veik, önnur eru sterk. Og hvert er þá okkar svar við þessum vanda? Við segjum: Börnin eiga alls staðar að hafa sama rétt, hvar sem þau búa á landinu. En við segjum líka: Við grípum til sérstakra ráðstafana til þess að styrkja og standa við bakið á hinum fátækari sveitarfélögum. Hvernig gerum við það? Það gerum við með lögum um tekjustofna sveitarfélaga, með lögum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
Og á síðasta ári, fyrsta ári hinnar nýju verkaskiptingar, veitti Jöfnunarsjóður sveitarfélaga 177 millj. kr. í þessu skyni til þess að byggja grunnskóla, ekki reka, heldur til að byggja grunnskóla upp á 177 millj. kr. og á þessu ári sjálfsagt eitthvað á þriðja hundrað millj. kr.
    Það er alveg rétt sem hér hefur verið sagt, m.a. af hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur og fleirum, að verkaskiptalögin eins og þau voru orka tvímælis frá sjónarmiði þeirrar almennu menntamálastefnu sem gildir og á að gilda í landinu. Það lét ég t.d. koma fram mjög rækilega við meðferð verkaskiptalagafrv. í Ed. á sínum tíma að ég teldi ákvæði þess, t.d. um tónlistarfræðslu og um leikskóla, afar hæpin vegna þess að hin litlu sveitarfélög eiga mjög erfitt með að standa undir þeim kröfum sem gera verður, t.d. til sæmilegra tónlistarskóla, þó að þau hafi gert það myndarlega um langt skeið af því að ríkið lagði þar peninga á móti, en eftir að ríkið hætti því er auðvitað hætt við að þar fari hlutirnir lakar en ella mundi vera.

    Varðandi það meginumræðuefni sem menn hafa talað sig heita um hér í dag, þ.e. það að hér sé verið að leggja nýjar álögur á sveitarfélögin, þá vil ég segja þetta: Í frv. eins og það kom frá ríkisstjórninni eru engar sjálfkrafa nýjar álögur á sveitarfélögin. Ég segi sjálfkrafa. Engar sjálfkrafa álögur á sveitarfélögin. Hvorki hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir né heldur Samband ísl. sveitarfélaga hafa heldur getað bent á það, en menn segja: Ef það á að ná markmiðum þeim sem hér er gert ráð fyrir, þá kostar það fjármagnsútgjöld fyrir sveitarfélögin en það er talað um að það geti gerst á fimm til tíu árum en hverju sveitarfélagi er í raun og veru í sjálfsvald sett hversu hratt það fer í þessu efni. Það er auðvitað hugsanlegt, segjum fyrir sveitarfélag eins og Reykjavík, að ákveða að það sé í lagi að vera hérna með 1200 -- 1300 barna skóla og það er ljóst að það er ódýrara að hafa það þannig að því er varðar fjárfestingarkostnað, heldur en að segja: Ja, við skulum vera hérna með mest 450 eða 650 barna skóla.
    En sveitarfélögin eru einfaldlega í þessu efni sjálfstæð stjórnvöld. Þá geta menn sagt sem svo: Ef ríkið fer fram úr sveitarfélögunum við framkvæmd laganna? --- Getur ríkið farið fram úr sveitarfélögunum við framkvæmd laganna? Svarið er já, það getur ríkið gert. Hvernig? Með því að auka kennslutímaframboð á viku umfram húsnæðisgetu sveitarfélaganna. Það er ljóst að það gæti valdið sveitarfélögum erfiðleikum, en ég segi þá aftur, virðulegi forseti: Hvar eru þau sveitarfélög sem þá mundi aðallega þrengja að? Því miður eru það aðallega þéttbýlissveitarfélögin vegna þess að úti á landi er það þannig að þar hefur börnum mjög víða fækkað í skólunum. Nýir skólar standa þar í raun og veru lítið notaðir, mjög lítið notaðir sums staðar, og við höfum orðið að leggja niður skóla. Nýlega t.d. einn skóla á Norðurlandi eystra, þar áður einn skóla í Vopnafirði og ég gæti nefnt dæmi um marga skóla á Suðurlandi þar sem sá veruleiki blasir við að nýtt skólahúsnæði nýtist ekki eins og menn gerðu ráð fyrir í upphafi af því að fólkið hefur farið hingað. Mér er því alveg ljóst að vandinn sem kann að stafa af því ef ríkið með ákvörðun á fjárlögum fer fram úr sveitarfélögunum mun fyrst og fremst birtast hér af því að hingað hefur fólkið komið í þetta byggðarlag sem telur núna um 95 þús. manns.
    Þannig að ég endurtek það sem ég sagði áðan og sagði hér um daginn: Eins og frv. kom frá okkur þá voru það fyrirmæli mín til embættismannanna í ráðuneytinu sem unnu þetta, góðra einstaklinga sem þekkja þessi mál mjög vel: Við þræðum nákvæmlega verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga eins og hún var ákveðin með lögunum.
    Hér í meðferð málsins á Alþingi hefur hins vegar orðið sú breyting að menn gera tillögu um að stefnt skuli að skólamáltíðum. Þar er í raun og veru eina ákvæðið þar sem má segja að það sé gengið býsna nærri þeirri verkaskiptingu sem ákveðin var með lögum á milli ríkis og sveitarfélaga vorið 1989.
    En hvað kostar frv. sem slíkt? Í ræðu minni við 1.

umr. þessa máls og 2. umr. líka fór ég yfir það alveg í smáatriðum. Það sem segir þar, með leyfi forseta, er þetta:
    1. Kostnaður vegna 10 ára skólaskyldu, sem er þegar komin inn í fjárlög þessa árs, sem felur í sér að forskóli yrði reiknaður með sama hætti og aðrar bekkjardeildir, er að mati Fjárlaga- og hagsýslustofnunar --- þessi kostnaður bara við 6 ára börnin --- 60 millj. á ári á verðlagi síðasta árs og þessi kostnaður er þegar í fjárlögum og lögum landsins.
    2. Kostnaður vegna fjölgunar bekkjardeilda --- ég bið menn að taka eftir --- í 1. -- 3. bekk, af því að þar er fækkað aðeins í bekk frá því sem verið hefur, er talinn 70 millj. kr. á ári á verðlagi ársins 1990. Bekkjardeildum fjölgar vegna þess ákvæðis í frv. að hámarksfjöldi nemenda í hverri deild í 1. -- 3. bekk lækkar úr 30 í 22 nemendur og það hefur eingöngu áhrif í stærstu sveitarfélögunum. Það eru engin dæmi til um það í minni sveitarfélögunum að þar séu 30 barna bekkjardeildir. Sem betur fer. Það má skjóta því hér inn í að í fjárlögum ársins 1991 er ákvæði sem skapar möguleika til þess að við munum við upphaf skólaárs 1991 -- 1992 setja þetta hámark niður strax úr 30 niður í 28. Þannig að það er þegar búið að taka inn í fjárlög ríkisins hluta af þessum kostnaði sem hér er um að ræða sem var 70 millj. kr. á verðlagi síðasta árs og þá erum við komin upp í 130 millj. kr. á verðlagi síðasta árs.
    3. Stöður námsráðgjafa sem eru í þessu frv. og hv. þm. Sólveig Pétursdóttir spurði um. Hvað kostar það? Í útreikningi Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, sem ég gerði grein fyrir hér 27. nóv. sl., er miðað við einn námsráðgjafa á hverja 650 nemendur. Með því móti er talið að stöðugildi verði samtals 60, það verði samtals 60 námsráðgjafar í öllum grunnskólunum í landinu en starfsmenn þar skipta nú mörgum þúsundum eins og menn vita. Það er talað um 60 námsráðgjafa og kostnaður við stöður þeirra á verðlagi síðasta árs er 75 millj. kr. þannig að samtals erum við þá komin hér upp í 205 millj. kr. En ég segi líka: Hluti af þessum kostnaði við námsráðgjafana er í fjárlögum þessa árs. Hluti af þessum stöðum er í fjárlögum þessa árs því að þar er gert ráð fyrir því að ráða námsráðgjafa við grunnskólana í fyrsta sinn. Menn hafa kannski ekki tekið eftir því en öll þau atriði sem hér hafa verið nefnd eru ýmist að öllu leyti eða að hluta þegar komin til framkvæmda.
    Síðan segir í áliti Fjárlaga- og hagsýslustofnunar: ,,Aðrir smærri kostnaðarliðir, svo sem rýmkun kennsluafsláttar, níu mánaða starfstími alls staðar, rekstur sumarskóla, aukin skólaþróun og fleira, eins og kostnaður við skólanefndir, kostnaður við grunnskólaráð o.s.frv. er talinn vera á verðlagi síðasta árs 260 millj. kr. Aðrir liðir 50 -- 55 millj. kr., heildarkostnaður 260 millj. kr.``
    Ég ætla auðvitað ekki að fara hér að elta ólar við útúrsnúninga eins og þá sem hv. 2. þm. Norðurl. v. gerði tilraun til að hafa uppi hér í frammíkalli sem var svona: Síðustu ár, 1980 -- 1989, hefur raunkostnaður grunnskólanna aukist á ári um 4,3% að meðaltali.

Samkvæmt þessu frv., ef það verður allt framkvæmt á þessu tíu ára bili, eru menn að tala um raunaukningu upp á 1,8% á ári og þingmaðurinn kallaði fram í og spurði: Eruð þið að lækka kostnaðinn?
    Það sem ég var að segja og sagði fullum fetum var það að aukningin gengur hægar fyrir sig samkvæmt þessu frv., helmingi hægar en hún hefur gert á árabilinu 1980 -- 1989 og það er m.a. af þeim ástæðum sem t.d. hv. þm. Kvennalistans hafa gagnrýnt þetta frv. vegna þess að það sé of metnaðarlítið eins og það er.
    Það er niðurstaða Fjárlaga- og hagsýslustofnunar að frv. eins og það var áður en 10. bekkurinn var samþykktur fæli í sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð upp á 1 -- 1,8% á ári í fimm ár eða samtals 6 -- 7% yfir allt tímabilið. Hvað er það mikil upphæð, 6 -- 7% yfir allt tímabilið? Menn spyrja og spyrja en hafa þó fjárlögin væntanlega á borðinu fyrir framan sig, 7% af 4,5 milljörðum, eða segjum 5, eru væntanlega 350 millj. kr., sem menn eru að tala um að falli á ríkissjóð á fimm ára tímabili. Og af þeirri tölu eru þegar komnar inn í fjárlögin væntanlega um 150 millj. kr. Þannig að það er þegar búið að framkvæma hluta af því sem mönnum vex svo í augum að bæta við barnaskólana í landinu.
    Síðan kem ég að því, virðulegi forseti, og mér þætti vænt um ef hæstv. forseti deildarinnar væri hér sýnilegur á meðan ég les þetta upp hér á eftir. Síðan kemur að því hver er viðbótin? Er einhver feiknarleg viðbót í þessu? Eru menn að bæta hér einhverju við byrðarnar á sveitarfélögin í uppbyggingu skóla, eins og hv. þm. Sólveig Pétursdóttir velti sér upp úr hér í hverri ræðunni á fætur annarri. Að hér sé verið að bæta einhverju feikilegu við? Hver er staðan í þeim efnum? Samkvæmt greinargerð Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, sem ég las hér upp 27. nóv. sl. og allir þingmenn hefðu getað séð ef þeir hefðu viljað, lesið í þingtíðindum eða hlýtt á, en það vill nú þannig til að þegar 1. umr. fór fram þá vorum við fjögur hér í þessum sal, ég og hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson og hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir og hæstv. forseti deildarinnar, en í þingtíðindum kemur þetta fram í dálki 1351 -- 1352. Hvað kemur fram þar? Þetta: ,,Fjárlaga- og hagsýslustofnun hefur áætlað að stofnkostnaður sveitarfélaga vegna einsetningar og hámarksfjölda nemenda í hverjum skóla geti numið á tíu ára tímabili 2 -- 3 milljörðum króna. Það felur í sér skuldbindingar á hendur sveitarfélögum um að verja 250 -- 300 millj. kr. árlega á næstu tíu árum til byggingar grunnskóla.`` --- Þetta er á verðlagi ársins 1990. Síðan segir orðrétt: ,,Þetta er lægri upphæð [segir Fjárlaga- og hagsýslustofnun] en ríkissjóður lagði fram á hverju ári til byggingar grunnskóla allt til ársins 1989.`` --- Þetta er lægri upphæð. --- ,,Frá ársbyrjun 1990 yfirtóku sveitarfélög`` --- segir síðan Fjárlaga- og hagsýslustofnun orðrétt, ég vil endurtaka þetta, herra forseti. Ég lagði fyrir Fjárlaga- og hagsýslustofnun þessa spurningu: Hver er kostnaðaraukinn fyrir sveitarfélögin? Ég las það svar upp hér 27. nóv. sl. og það birtist í þingtíðindum í dálki 1352. Fjárlaga- og hagsýslustofnun segir orðrétt: ,,Þetta er lægri upphæð en

ríkissjóður lagði fram á hverju ári til byggingar grunnskóla allt til ársins 1989. Frá ársbyrjun 1990 yfirtóku sveitarfélögin alfarið byggingu grunnskóla með lögum um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Það virðist því ljóst að sveitarfélögin þurfa ekki að veita meira fjármagni til byggingar grunnskóla en ráðgert hafði verið samkvæmt áætlunum [þeirra sjálfra] um kostnaðarskiptingu vegna breytinga á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.`` --- Þetta er orðrétt upp úr skjali Fjárlaga- og hagsýslustofnunar. Til að menn fái svo þessa tölu aftur frá sveitarfélögunum þá skulum við rifja það upp hvað sveitarfélögin sjálf sögðu þegar verkaskiptingin var til umræðu á sínum tíma. Þá sögðu þau að þau reiknuðu með þessum upphæðum frá sér til skólauppbyggingar, eða 300 millj. kr. á ári á verðlagi ársins 1989. Það er því alveg augljóst mál að hér er ekki verið að íþyngja sveitarfélögunum í heild, þó svo að það sé rétt sem hér hefur verið sagt, m.a. af hv. þm. Stefáni Valgeirssyni, að sveitarfélögin eru auðvitað misjafnlega á vegi stödd í þessu efni. Sum eru fátæk, önnur rík, eins og gengur, og til þess er Jöfnunarsjóður sveitarfélaga að jafna þar nokkuð út.
    Ég vil þess vegna vísa því á bug að frv. sé sjálfkrafa að leggja viðbótarkvaðir á sveitarfélögin við uppbyggingu grunnskóla frá því sem ella hefði verið. Ég tel mig hafa sýnt fram á það með tilvitnun í greinargerðir Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, bæði nú og við 1. umr. málsins.
    Svo er eitt sem mér finnst að hv. þm. geri sér ekki alveg grein fyrir og það er það að við höfum verið að bæta við grunnskólann, bæði í ár og á síðasta ári, verulegum upphæðum. Á síðasta ári bættust við grunnskólann að raunvirði tölur sem eru á bilinu 2 -- 3% í raun, þ.e. mun meira en 1,8%. Sennilega er aukningin á síðasta ári milli 2 og 3% í raun og það stafar af því að það voru teknir inn nýir liðir eins og árganga- og fagstjórn í skólunum sem kostar milli 70 og 80 millj. kr. og eru tvær nemendastundir á hvern nemanda í grunnskólum landsins sem eru samtals um 42 þúsund.
    Í öðru lagi stafar það af því að við tókum inn Þróunarsjóð grunnskóla sem er þegar til. Hann var núll þegar við tókum við ráðuneytinu 1988. Honum var komið í framkvæmd þá strax og núna þessa dagana er einmitt verið að úthluta úr Þróunarsjóði grunnskóla fyrir árið 1991 til margra tuga skóla, til margra tuga verkefna. Það er sjóður sem er með í ár á milli 9 og 10 millj. kr.
    Enn fremur er það náttúrlega ljóst að við höfum lengt skóladaginn, gerðum það sl. haust, um tvo tíma í yngstu bekkjunum. Sá kostnaður er allur inni í fjárlögum þessa árs og er upp á u.þ.b. 100 millj. kr., þannig að aukningin í ár frá síðasta ári er á bilinu 3 -- 4% vegna lengingar skóladags yngstu barnanna. Og við munum halda áfram og stíga annað skref í þessu efni í haust samkvæmt fjárlögum ársins 1991 með því að lengja skóladag yngstu barnanna enn, með því að fjölga skiptistundum til þess að styrkja verk - og listgreinar alveg sérstaklega og líka með því að lækka hámarkið í bekk úr 30 í 28 þannig að verulegur hluti

af þeim kostnaði sem menn eru að fjargviðrast yfir hér er þegar í fjárlögum.
    Virðulegi forseti. Ég tel að ég hafi svarað þessum kostnaðarathugasemdum nokkuð rækilega. Ég vil segja það samt sem áður, virðulegi forseti, áður en lengra er haldið og ég kem hér að einstökum atriðum --- af því að ég heyri að það er mikill áhugi á grunnskólanum hér og ég ætla þess vegna að tala rækilega um grunnskólann, ég veit að menn vilja það gjarnan, að hafa ítarlegar og vandaðar umræður um grunnskólann. Þannig á þetta að vera, gott þing, góður grunnskóli. --- Auðvitað er það þannig að sveitarfélögin eru mjög misjafnlega á vegi stödd. Við skulum t.d. taka sveitarfélag eins og það sem hv. þm. Árni Gunnarsson nefnir, Selfoss, og það er reyndar sveitarfélag sem ég þekki ákaflega vel. Það er alveg ljóst að þar hefur verið að fjölga mjög á undanförnum árum. Þar hefur það verið þannig að það er mikið af ungu fólki, það er mikil þörf fyrir grunnskóla og skólahúsnæði yfirleitt þannig að þessi sveitarfélög eiga í vanda rétt eins og sveitarfélögin sem eru að taka við hinni miklu byggðaröskun. Spurningin er auðvitað sú: Er þetta dæmi óframkvæmanlegt öðruvísi en að ríkið komi aftur og í auknum mæli inn í uppbyggingu þessara skóla? Ég er ekki að leggja það til, virðulegi forseti, en ég er að nefna það og ég segi: Þó að Reykjavík sé ríkt sveitarfélag, þá er það eftir sem áður staðreynd að það eru verulegir fjármunir sem eru lagðir í grunnskóla í Reykjavík á þessu ári eða 609 millj. kr. Samt sem áður er það ekki nærri, nærri nóg. Reykjavík þyrfti að leggja í grunnskóla gífurlega fjármuni og miðað við þróunina eins og hún hefur verið á undanförnum árum, þá hafa menn varla haft við, því að aðstreymið er svo mikið hér í þetta byggðarlag.
    Kjósendafjöldi á síðustu 12 árum í Reykjavík hefur aukist úr um 40 þúsund manns í um 72 þúsund manns á örstuttum tíma þannig að hér er í raun og veru um að ræða sprengingu sem hefur verið mjög erfitt fyrir sveitarfélagið Reykjavík að ráða við. Hvað svo sem menn segja um forgangsröð borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík að öðru leyti, þá er þetta alveg augljóst mál.
    Margar þær athugasemdir sem hér hafa komið fram eru að mínu mati fullkomlega réttmætar og umhugsunarverðar. Ég held þó að í frv. reyni menn að þræða nokkuð einstigið til þess að frv. geti verið sæmilegur samnefnari fyrir --- mér liggur við að segja þjóðina því að skólamálalög þurfa að vera góður samnefnari. Skólamálalög mega ekki vera á ýtrustu köntum, hvorki á því sviði sem við höfum aðallega rætt hér og snertir sveitarfélögin né á öðrum sviðum. Grunnskólalög eru náttúrlega fyrst og fremst lög til að tryggja lágmarksrétt barnanna i landinu. Í öðru lagi eru þau um það hvernig ríkið á að uppfylla þetta fyrir sitt leyti. Í þriðja lagi eru þau um það hvernig sveitarfélögin koma að þessu, en við getum í raun og veru ekki lagt neinar kvaðir á sveitarfélögin af því að um þau efni gildir sérstakur samningur milli ríkisins og sveitarfélaganna. En í fjórða lagi eru grunnskólalög náttúrlega líka lög um fólkið sem vinnur í grunnskólunum og starfsskilyrði þess, þ.e. kennaranna, og inni í grunnskólalögunum eru fjölmörg ákvæði sem í raun og veru taka mið af þeim kjörum eða þeim aðstæðum sem kennarar hafa samið um. Í því sambandi vil ég t.d. nefna ákvæðið um jóla - og páskaleyfi sem hv. þm. Geir Haarde nefndi hér áðan. Þetta er ákvæði sem kennarasamtökin hafa lagt mjög mikla áherslu á að haldi sér, þetta er ekki nýtt, að haldi sér frá því sem verið hefur.
    Þá kem ég að öðru. Um leið og við sýnum auðvitað sveitarfélögunum ýtrustu tillitssemi, þá hljótum við líka að sýna kennurunum tillitssemi og kjarasamningum þeirra og lögvörðum réttindum þeirra. Það hljótum við að gera og það hlýtur að vera vinnuregla þeirra sem vilja ná einhverju fram að þeir átti sig á því hvaða aðilar það eru sem helst þurfa um málin að véla og í þessu tilviki eru það kennararnir.
    Eitt atriði t.d. hefur verið nefnt hér sem ég tel hins vegar að eigi ekkert heima í lögum heldur frekar í anda laga og það er ákvæði eða hugmyndir um það hvernig eigi að koma til móts við duglega nemendur. Ég tel að þetta sé dæmigert atriði fyrir skólann að fást við, skólann sem slíkan, fræðsluumdæmin sem slík og það eigi ekki að vera lagaefni. Það sama er t.d. að segja um það hvort eigi að taka það fram í lögum um grunnskóla að hve miklu leyti skal kenna Íslandssögu og að hve miklu leyti íþróttir og að hve miklu leyti heimilisfræði. Það gera lög að sjálfsögðu. Hins vegar byggjum við á lögunum aðalnámsskrá grunnskóla og á aðalnámsskrá grunnskóla byggjum við síðan viðmiðunarstundaskrá og þar verðum við að reyna að þræða bil beggja þar sem er annars vegar réttur barnanna til heiðarlegrar og vandaðrar þjónustu og hins vegar sjálfstæði skólanna. Og það getur verið býsna flókið að þræða þetta bil.
    Á fundi menntamálaráðherra OECD - ríkjanna sem var haldinn í París sl. haust, þar sem voru menntamálaráðherrar frá öllum OECD - ríkjunum, var mjög fróðlegt að heyra þá umræðu sem þar fór fram, þar sem allir viðurkenna að það beri að stuðla að sem mestu sjálfstæði skólanna. En menn segja um leið: Það verður jafnframt að tryggja jafnrétti og rétt barnanna til náms.
    Þetta er sérstaklega snúið t.d. hér á landi þar sem byggðarlögin eru misjöfn. Og hvað eru margir grunnskólar á Íslandi? Þeir eru 214. Það eru 214 grunnskólar á Íslandi. Í 75 skólanna eru nemendur færri en 50. Í 35 skólum eru nemendur 51 -- 100. Í 70 skólum eru nemendur frá 100 -- 400. Í 30 skólum eru nemendur 400 -- 650. Í átta skólum eru þeir 650 -- 1000 og í tveimur grunnskólum eru talsvert yfir 1000 nemendur. Fyrir utan það hvað skólarnir eru mismunandi að fjölda til, þá eru þeir mismunandi af öðrum ástæðum líka, sumir í þéttbýli og aðrir í dreifbýli. Það eru 28 heimavistarskólar í landinu þannig að það er auðvitað algjörlega útilokað að búa til eitthvað sem heitir reglustika fyrir alla skólana í landinu og það viljum við ekki gera. Þess vegna losum við um þessa hluti verulega frá því sem var. Hins vegar er það ljóst að ýmsir þeir aðilar sem við þurfum að fjalla um þessi

mál við vilja gjarnan hafa þá bundna og ég held að það sé óskynsamlegt að vaða fram úr þeim aðilum, hvort sem það eru sveitarfélögin eða kennarasamtökin, sem þarna þurfa um að véla. Við þurfum að reyna að finna góðan samnefnara og ég tel að eftir atvikum sé það þokkalegt í þessu frv.
    Mjög margt af því sem hér hefur verið gagnrýnt, bæði af hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur og fleirum, er í gildandi lögum. Það má auðvitað segja að það hefði verið rétt að fella það út. En t.d. ákvæðin um einkaskóla, sem hv. þm. Geir Haarde nefndi og ég hygg bæði hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir og hv. þm. Sólveig Pétursdóttir, þau ákvæði eru algjörlega óbreytt frá gildandi lögum. Þau eru upp úr skólakostnaðarlögunum. Það er ekki nóg fyrir menn að lesa grunnskólalögin heldur þurfa menn að lesa skólakostnaðarlögin til að átta sig á því að ákvæðin í þeim efnum eru algjörlega óbreytt, algerlega óbreytt einkaskólaákvæðin frá skólakostnaðarlögunum.
    Auðvitað má segja að sumt af þessu sé þannig að því hefði mátt breyta og eitt af því t.d. sem ég hef velt talsvert mikið fyrir mér eru einkaskólar. Eigum við að banna einkaskóla eða eigum við alltaf að leyfa einkaskóla þegar sótt er um þá? Ég tel að hvort tveggja sjónarmiðið sé jafnvitlaust, bæði það að segja: Einkaskólar eru alltaf bannaðir hvað sem tautar og raular og líka hitt sjónarmiðið: Einkaskólar eru alltaf leyfðir hvað sem tautar og raular. Vandinn við umræður um einkaskólana hefur hins vegar verið sá að menn hafa ekki náð sér niður á einhverja hófstillta samstöðu um það hvernig á að taka á þessum málum, m.a. hvernig á að taka á því hvaða kröfur á að gera í þessum efnum o.s.frv. Því miður hefur umræðan um þessi mál oft og tíðum verið býsna öfgafull að mínu mati og ég treysti mér ekki til þess þegar við vorum að vinna þetta grunnskólafrv. að fara inn í þá umræðu með nægilega myndugum hætti því að ég óttaðist hreint út sagt að hvað svo sem við legðum til, sem kannski viki örlítið frá því sem hefur verið í gildandi lögum, mundi þegar vekja upp þannig umræðu að það yrði málinu í heild ekki til framdráttar.
    Ég þykist, virðulegi forseti, hafa svarað hér ýmsum af þeim spurningum sem komið hafa fram. Ég þakka fyrir umræðurnar, þær hafa verið gagnlegar, bæði fyrir mig og ég vona að það eigi einnig við um aðra þingmenn sem hér hafa verið. Ég tel mig hafa svarað því mjög rækilega og nákvæmlega sem um er að ræða að því er varðar kostnaðaraukann en ég ætla að endurtaka það samt einu sinni enn til þess að þar fari ekkert á milli mála að samkvæmt mati Fjárlaga - og hagsýslustofnunar virðist ljóst, orðrétt, að ,,sveitarfélögin þurfa ekki að veita meira fjármagni til byggingar grunnskóla en ráðgert hafði verið samkvæmt áætlunum um kostnaðarskiptingu vegna breytinga á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.``
    Svo mörg voru þau orð og með þeim læt ég máli mínu lokið að sinni.