Ábyrgðadeild fiskeldislána
Þriðjudaginn 05. mars 1991


     Flm. (Matthías Bjarnason) :
    Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér frv. til laga um breyting á lögum um ábyrgðadeild fiskeldislána, nr. 17 3. apríl 1990, ásamt átta öðrum þingmönnum í hv. þingdeild. Eins og fram kemur í greinargerð fyrir þessu frv. er það flutt til þess að vekja athygli á og bæta úr þeim gífurlegu vandamálum sem fiskeldisfyrirtæki í landinu eiga við að stríða. Stjórnvöld hafa ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart fiskeldisfyrirtækjum og flm. frv. sjá enga aðra leið en að flytja þetta frv. til þess að knýja á um að þau standi við gefin fyrirheit.
    Á fundi ríkisstjórnarinnar 9. júní 1989 var samþykkt að láta fara fram þegar í stað athugun á því að veita öllum starfandi fiskeldisstöðvum bústofnskaupalán. Ekkert hefur enn gerst í þessu máli og nú er atvinnugreinin þegar komin í þrot. Mikilvægt er að einhver fiskeldisfyrirtæki lifi af þessa erfiðu tíma til þess að halda verkkunnáttu við fiskeldi í landinu þó að ljóst sé að ekki er rekstrargrundvöllur undir öllum fyrirtækjunum.
    Snemma á liðnum vetri eða fyrir áramót var mælt hér fyrir skýrslu forsh. um Byggðastofnun. Ég tók þátt í þeirri umræðu og kom inn á fiskeldismálin með nokkrum orðum. Ég minntist á það að fyrir nokkrum árum sáu menn mikla framtíð í fiskeldi og farið var af stað af miklum stórhug. E.t.v. má segja að kappið hafi að sumu leyti verið meiri en forsjáin og nú eru stjórnmálamenn og lánastofnanir gagnrýnd fyrir að hafa farið of geyst og þá ekki síst af þeim sem kröfðust þess að farið yrði í fiskeldi. Á það er bent að eftirspurn eftir fiski eigi enn eftir að aukast en hefðbundnar veiðar muni ekki skila meiri afla á land. Þess vegna verður að auka fiskeldi til að mæta vaxandi eftirspurn eftir fiskafla til þess að fæða mannkynið.
    Samkvæmt upplýsingum sem Fiskifélag Íslands hefur veitt hefur heimsaflinn undanfarin ár verið rúmlega 90 millj. tonna að meðtöldum afla úr fiskeldi sem er 10 -- 12 millj. tonna. Árin 1978 -- 1987 óx heimsaflinn úr 70 millj. tonna í 93 millj. tonna eða um 23 millj. tonna. Á þessu tímabili stóðu veiðar í Atlantshafi í stað. Þær voru um 25 millj. tonna en afli í Kyrrahafi óx úr 33 millj. í tæplega 50 millj. tonna eða um 17 millj. tonna. Í innhöfum og vötnum óx afli úr 7 millj. í 12 millj. eða um 5 millj. tonna. Þannig má segja að nær öll aukningin á umræddu tímabili hafi orðið í Kyrrahafi og í fiskeldi. Það er ekki fyrirsjáanlegt að öllu meiri afli náist úr Kyrrahafi nema þá um ofveiði verði að ræða og það þekkjum við mjög vel.
    Þriðja aflahæsta fiskveiðiþjóð heimsins, Kínverjar, hefur lagt stund á fiskeldi í mörg þúsund ár og þeir ætla enn að auka fiskeldi sitt. Heildarafli þeirra 1987 var um 9 millj. tonna og þar af um 4 millj. frá fiskeldi. Stefna stjórnvalda í því landi er að heildaraflinn verði um aldamótin 18 millj. tonna, þar af um 70% úr fiskeldi eða um 13 millj. tonna. Þetta getur kennt okkur það að fiskeldi er ekki talið heyra sögunni til annars staðar í veröldinni þó að móti hafi blásið hér um hríð í okkar landi.

    Um síðustu áramót voru á skrá hjá Veiðimálastofnun um það bil 105 fiskeldis - og hafbeitarstöðvar, þar af 65 með einhverja starfsemi. Allmörg fyrirtæki í fiskeldi hafa orðið gjaldþrota á síðustu mánuðum. Stofnlán fiskeldisfyrirtækja námu um síðustu áramót rétt á fimmta milljarð, þar af um 1900 millj. hjá Framkvæmdasjóði, 950 millj. hjá Byggðastofnun og 750 millj. hjá Fiskveiðasjóði, 160 millj. hjá Iðnþróunarsjóði og erlendar lánastofnanir eru ekki með minni upphæð en 340 millj. á sama tíma. Ljóst er því að lánastofnanir hafa lagt talsvert af mörkum til að koma greininni af stað, en rekstrarfjárlán hefur skort. Vissulega var farið af stað með mikilli bjartsýni. Þekking á laxastofninum og fiskeldi var lítil og markaðssetning hefur verið ærið óviss. En þó að svo sé, þá er ekki rétt að leggja árar í bát. Mikið hefur áunnist og mikil reynsla hefur skapast og þekking þó að hún hafi verið keypt nokkuð dýru verði. Ég benti áðan á þriðju stærstu þjóð fiskiræktar og fiskveiða. Hún er ört vaxandi fiskveiðiþjóð og beinir athygli sinni í auknum mæli að eldi sjávarfiska. Það er mín skoðun og okkar flm. að við Íslendingar megum ekki dragast aftur úr í þeirri þróun.
    Mörg vandamál hafa komið upp í rekstrarfjáröflun fiskeldisfyrirtækja. Þrátt fyrir það að miklar vonir voru bundnar við það þegar ábyrgðadeild fiskeldislána lokst komst á laggirnar 1. júlí sl. og menn töldu að þá mundu mörg þessara vandamála leysast, þá hefur raunin orðið önnur. Starfsemi ábyrgðadeildarinnar er ekkert nema vonbrigði, aðeins vonbrigði. Starfsemi deildarinnar er ekkert nema viðbótarfjármagnskostnaður því að ábyrgðargjaldið er um 7% og nægir eitt sér til að sliga fyrirtækin endanlega. Fiskeldisfyrirtæki búa við svo dýrt afurðalánakerfi að útilokað er að reka fyrirtækin, jafnvel þó að rekstur þeirra gengi áfallalaust. Fyrirtækin greiða afurðalánavexti sem eru breytilegir eftir því í hvaða mynt lánin eru tekin. SDR-afurðalánin bera 10,5% vexti, lán í íslenskum krónum 12,25%, í dollurum 9,5% og í sterlingspundum 15,25% vexti. Til að komast í afurðalán þurfa fyrirtækin að tryggja fiskinn og er iðgjaldið 5 -- 7% á ári. Iðgjald er reiknað af meðalverðmæti fisks á árinu samkvæmt eldisáætlun. Almenna reglan er sú að sjálfsáhætta er 25%. Þannig fá fyrirtækin ekkert greitt ef einstakt tjón er undir 25% af heildarverðmætum í viðkomandi fiskeldisstöð. Ef mörg smátjón verða fæst ekkert greitt nema samanlögð upphæð tjóna nemi hærri upphæð en 50% af áætluðu hæsta verðmæti fisks í stöðinni. Auk framangreindra afarkosta eru ýmis ákvæði í tryggingaskilmálum sem gera tryggingafélögunum mögulegt að neita greiðslu bóta eins og þegar liggur fyrir í veigamiklum atriðum.
    Bankar hafa til skamms tíma veitt lán til fiskeldisfyrirtækja sem geta numið 30 -- 37,5% af verðmæti fisksins samkvæmt verðmætaskrá tryggingafélaganna. Lán bankanna eru tryggð með 1. veðrétti í fiskinum. Hins vegar neita bankarnir sumum fiskeldisfyrirtækjum alfarið um rekstrarlán. Ábyrgðasjóður fiskeldislána veitir ríkisábyrgð á lán til fiskeldis. Ríkisábyrgðin getur numið allt að 37,5% af verðmæti fisksins samkvæmt verðmætaskrá samsteypu íslensku fiskeldistrygginganna. Ábyrgðasjóðurinn tekur ábyrgðargjald sem er breytilegt frá 6 -- 7,3%. Ábyrgðargjaldið reiknast af lánsupphæðinni eins og hún er hæst í hverjum mánuði. Ríkisábyrgðin er tryggð með 2. veðrétti í fiskinum. Mjög erfitt er að fá afgreiðslu í ábyrgðasjóði fiskeldisins og eru dæmi um að lítil fiskeldisfyrirtæki hafi þurft að greiða allt að 1 millj. kr. í skýrslugerðir til sérfræðinga til að vera tekin gild hjá ábyrgðasjóðnum. Eðlilegra væri að starfsmenn ábyrgðasjóðsins ynnu þessa skýrslu sjálfir þar sem lítið er um verkefni hjá sjóðnum og aðeins örfá fyrirtæki hafa verið afgreidd hingað til.
    Ég hef lýst þessum afarkostum í sambandi við fiskeldislán. Þrátt fyrir að þessir kostir hafi ekki verið glæsilegri en þetta þá gerðist það 25. jan. sl. að sú bankastofnun sem langmest hefur lánað til fiskeldis sendi frá sér bréf til fiskeldisfyrirtækja. Það bréf ætla ég að lesa, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir:
    ,,Ágæti framkvæmdastjóri. Að gefnu tilefni hefur bankastjórn Landsbanka Íslands ákveðið eftirfarandi breytingar á útlánareglum til fyrirtækja sem stunda fiskeldi:
    1. Hætt verður að lána út á hrogn og fisk sem er undir 1 kg pr. stykki.
    2. Viðmiðunarverð við afgreiðslu afurðalána verða framvegis endurskoðuð mánaðarlega. Fiskeldisfyrirtæki gefi bankanum upp þyngd og magn þeirra afurða sem afurðalánafyrirgreiðsla óskast vegna og bankinn mun síðan ákveða verðmæti að fengnum upplýsingum frá söluaðila. Ljóst er að viðmiðunarverð mun lækka frá gildandi verðskrá.
    Þetta bréf er sent öllum fiskeldisfyrirtækjum í afurðalánaviðskiptum við Landsbankann.
    Virðingarfyllst, Landsbanki Íslands, bankastjórn,`` og undirskriftir tveggja virðulegra ágætra bankastjóra.
    Þetta bréf segir ekki að það eigi að halda áfram afurðalánaviðskiptum. Ef grannt er skoðað segir þetta bréf það að Landsbanki Íslands, stærsti viðskiptabanki þjóðarinnar, er hættur að lána út á afurðir fiskeldisfyrirtækja. Þegar hætt er að lána út á hrogn eða fisk sem er undir einu kílói stykkið, þá þýðir það að allar seiðastöðvar eru útilokaðar. Það þýðir að ekki verður lánað út á fisk sem hefur ekki náð 1000 g þyngd. Það þýðir með öðrum orðum að það verður engin fiskeldisstöð sem getur haft seiðarannsóknir og seiðaframleiðslu eða alið fiskinn upp í eitt kíló. Það þýðir það að bankinn þarf ekki að lána neitt. Fiskeldið verður hætt áður. ( Viðskrh.: Sverrir lánar ekki út á skítseiði.) Það þarf nú að taka svolítið í hann, finnst ekki viðskrh. það? ( Gripið fram í: Bankamálaráðherrann hlýtur að gera það.) Það er hlutverk bankamálaráðherra og ég hefði verið mjög ánægður ef hann hefði verið búinn að taka myndarlega til hendi og tala við þá þessa.
    Ég hef aðeins skýrt frá Kínverjum, sem eru merk þjóð, hvað þeir eru að gera í fiskeldismálum. Norðmenn eru miklir framleiðendur í fiskeldi og í norska tímaritinu Norsk Fiskeoppdrett í ágúst sl. birtist grein eftir forsætisráðherra þeirra sem þá var, Jan P. Syse,

þar sem hann lýsir bjartsýni sinni með framtíð norsks fiskeldis. Hann segir m.a.:
    ,,Á þeim 20 árum sem liðin eru frá því að fyrir alvöru var hafist handa um fiskirækt í Noregi hefur greinin þróast með þeim hætti að æskilegt væri að fleiri færu að fordæmi í atvinnulífinu. Þótt atvinnugreinin glími nú við ýmsan vanda er hún enn einn af fáum vaxtarbroddum í landinu. Fiskeldið er dæmigerð byggðargrein og skiptir því miklu fyrir þær byggðir þar sem erfitt hefur reynst að koma fótum undir atvinnurekstur sem á sér heilbrigðar framtíðarforsendur. Ég er sannfærður um að þeir sem að fiskeldi starfa geta greitt úr núverandi vanda með sömu þrautseigju og hugkvæmni og hefur einkennt störf þeirra allt frá fyrstu tíð. Til þessa hafa þeir lagt höfuðáherslu á laxarækt. Ég held að innan skamms muni fleiri tegundir standa undir rekstrinum, svo sem lúða, þorskur, humar og rækja. Allt bendir til þess að hafbeit verði æ mikilvægari þegar fram líða stundir.
    Þegar að því kemur höfum við sannarlega tekið til við að nýta auðlindir hafsins með sama hætti og þegar landbúnaður tók stakkaskiptum fyrir þúsundum ára, þegar kvikfjárrækt leysti veiðimennsku af hólmi. Á næstu árum verða afskipti stjórnvalda einkum í því fólgin að skapa greininni hæfileg starfsskilyrði. Í fyrsta lagi þarf að huga að umhverfisvernd og deila út athafnasvæðum á þann hátt að ekki verði árekstrar á milli fiskeldis og annarrar starfsemi er tengist sjónum, svo sem siglinga og hefðbundinna fiskveiða.
    Stjórnvöld og greinin sjálf verða að standa sameiginlega að rannsóknum sem eru nauðsynlegar til að stuðla að þróun í fiskeldinu. Stjórnvöld verða auk þess ávallt að halda uppi heilbrigðiseftirliti, gæðaeftirliti og sjá til þess að markaðsaðstæður séu sem bestar. Samningarnir um aðlögun EFTA og EB eru ákaflega mikilvægir í þessu sambandi. Tollar og aðrar viðskiptahindranir mega ekki koma í veg fyrir að fiskeldi þróist með eðlilegum hætti. Verði þróunin með sama hætti og hingað til verður fiskeldið sífellt mikilvægara fyrir fjölmörg byggðarlög við ströndina og þar með þjóðina alla. Í samstarfi við greinina eiga stjórnvöld að tryggja framgang fiskeldis án þess að það verði þó háð ríkisstyrk.``
    Í þessu sama hefti af Norsk fiskeoppdrett er leitað álits ýmissa manna á stöðu og framtíð fiskeldis þar í landi. Snorre Tilset, rannsóknarstjóri við Senter for hagbruk við norsku hafrannsóknastofnunina, minnir á þá staðreynd að þegar hafi verið gefin út 500 leyfi fyrir þorskeldi í Noregi, 700 leyfi hafi verið gefin fyrir laxeldi og þar sé unnt að framleiða 200 þús. tonn. Hann segir að hefjist framleiðsla á þorski í 700 stöðvum á 10 -- 15 árum þá verði hún alls 170 þús. tonn eða álíka mikil og norski þorskveiðikvótinn var á sl. ári.
    Hann segir enn fremur að norskir fjölmiðlar hafi beint allt of mikilli athygli að vandræðunum við fiskeldi. Með því hafi þeir dregið upp ranga mynd af stöðu atvinnugreinarinnar. Miklu skiptir fyrir fiskræktendur að tapa ekki bjartsýninni.
    Þá er einnig rætt við Eyvind Bolle, sem var sjávarútvegsráðherra í Noregi og sat í því embætti frá árinu 1973 til 1981 en er nú hættur afskiptum af stjórnmálum. Hann er eindreginn talsmaður fiskeldis og lítur á það sem mikilvægan þátt í skynsamlegri byggðastefnu. En Eyvind Bolle er búsettur í Morsum í Lofoten.
    Arne Jensen prófessor við líftæknistofnun norska tækniskólans telur að um aldamótin verði framleiðsla Norðmanna á eldisfiski um 250 þús. tonn og 40 þús. manns hafi atvinnu af henni. Hann segir að þá nemi framleiðsla á öðrum tegundum um 50 þús. tonnum. Hann telur að fyrir utan lúðu og þorsk megi einnig rækta rauðsprettu og steinbít. Slíkt eldi verði fyrst áhugavert eftir 15 -- 20 ár.
    Hvað er svo að gerast hér í okkar landi? Það er farið af stað með miklum hraða og þá þykir öllum mikilvægt að gera allt fyrir fiskeldið því það sé framtíðaratvinnugrein. Síðan þegar það er búið að sýna sig í nokkur ár, verður fyrir vissum skakkaföllum, það er ekki farið af stað, eins og ég sagði í upphafi máls míns, af nógu mikilli fyrirhyggju. Það vantar að vita ýmislegt í sambandi við það sem verið er að vinna að.
    Nú er meiri hluti fiskeldisfyrirtækja í landinu farinn lóðbeint á hausinn. Þá á ég við umfang stöðvanna. Og þá bregður svo við að framtíðaratvinnugreinin, sem þessi þjóð batt svo miklar vonir við að innlendar lánastofnanir og það meira að segja sjálfur Landsbankinn, bankinn sem maður hefur alltaf litið til af mikilli bjartsýni að kunni að taka á hlutum með þeim hætti að hann stuðli að nýjum atvinnugreinum og hann treysti grundvöll fyrir nýjum atvinnugreinum, hann bregst. Af hverju bregst hann? Hann bregst vegna þess að ríkisstjórnin hefur brugðist fyrst og fremst. Ég efast ekki um það að Landsbankinn hefði ekki brugðist í þessum efnum ef ríkisstjórnin hefði ekki brugðist. Hæstv. forsrh., sem því miður er ekki hér í kvöld, hefur sagt mér, ekki einu sinni heldur margoft í allan vetur að þessi mál væru til athugunar og fyrirgreiðslu hjá ríkisstjórninni. Hann hefur hvað eftir annað lýst því yfir við mig að hann hafi mikinn áhuga á því að sýna þessari atvinnugrein skilning og velvilja. Og ég efast ekkert um það að hann hafi meint það. En eitthvað hefur verið að á stjórnarheimilinu því að það hefur ekkert komið fram.
    Nú er sagt, og það er að koma að kosningum: Það er búið að skrúfa fyrir afurðalán til þessarar atvinnugreinar. Fiskeldissjóðurinn, sem við erum að flytja frv. til laga um breytingu á, hefur brugðist vegna þess að lögin hafa verið með þeim hætti að það hefur enginn haft ráð á því að nota hann. Hann hefur gert svo háar kröfur til þessarar ungu atvinnugreinar að lítil fyrirtæki hafa alls ekki staðist raunina. Á sama tíma er núna verið að lofa gulli og grænum skógum til þessara og hinna framkvæmda á meðan markvisst er stefnt að því að grafa þessa grein. Ég spyr: Ætla þeir, bæði þeir alþingismenn sem nú eru að hætta og eins hinir sem bjóða fram þjónustu sína fyrir þjóðina, virkilega að segja já og amen við því að þegar búið er að fara í fjárfestingar upp á um 9 milljarða á undanförnum árum, þá eigi að leggja árar í bát á sama tíma og fjölmargar aðrar þjóðir eru að byggja framtíðina á fiskeldi? Eigum við ekki að læra af mistökum sem hafa átt sér stað? Eigum við að hætta þegar búið er að eyða öllum þessum fjármunum sem ég hef hér rakið?
    Ég get vel verið opinn fyrir ýmsum breytingum á þessu frv. sem við flytjum hér. En þær breytingar geta ekki orðið á annan veg en þann að við eigum að standa að því í fyrsta lagi að veita afurðalán en ekki loka okkur inni eins og gamlir dragbítar gerðu fyrir 100 árum eða meira. Á sama tíma og verið er að lofa gulli og grænum skógum í framkvæmdum sem eiga að koma í staðinn fyrir það að framkvæmdin við álver bíði. Ég fæ ekki skilið þetta. Það getur vel verið að það séu einhverjir menn hér inni sem skilja þetta, en ég skil það ekki. Þeir verða þá að eyða æði löngum tíma ef þeir eiga að sannfæra mig í þessum efnum. Ég sé ekkert athugavert við það að þjóðin byggi upp þessa atvinnugrein, þetta er framtíðin. Vilja hv. þm. þessarar deildar líta á það að við höfum sótt jafnvel meira í greipar Ægis en talið er að fiskstofnar þoli. Eigum við þá að leggja árar í bát og hætta við fiskeldi og segja: Við höfum tapað á fiskeldi, svo hafa farið margir á hausinn að við eigum að hætta fiskeldi? Eigum við bara að lifa á því að selja hver öðrum og ekkert að framleiða? Á það að vera framtíð þessarar þjóðar?
    Ég treysti í allan vetur þeim orðum sem hæstv. forsrh. sagði við mig, að þessi mál væru til velviljaðrar athugunar hjá ríkisstjórninni og það væri von á aðgerðum. Ástæðan fyrir því að þetta frv. er ekki komið fram fyrr er sú að ég ætlaðist til þess, og ég hygg að ég megi segja það fyrir hönd annarra flm. þessa frv., að aðgerðirnar kæmu frá ríkisstjórninni sjálfri. Ég hefði svo sannarlega stutt ríkisstjórnina í aðgerðum sem þessum. Ég veit að það koma vafalaust fram úrtölumenn sem segja að þetta frv. geti kostað ríkissjóð peninga. Það er alveg rétt. Það kostar ríkissjóð töluverða peninga. Hvað fær ríkissjóður aftur í staðinn þegar við erum komnir yfir þá erfiðleika sem þessi atvinnugrein á í? Af hverju hætta ekki allar aðrar þjóðir í heiminum við fiskeldi fyrst þetta er algerlega vonlaust? Ætlum við, sem höfum gnægð af heitu vatni, að verða fyrstir til að hætta? Ætlum við að leggja árar í bát? Af hverju vorum við að fara af stað? Það er er líka spurning. Af hverju sögðu menn ekki, þessir gáfuðu menn allir, að það væri alveg tilgangslaust að fara af stað með fiskeldi? Við ættum bara að þurrausa fiskimiðin og taka svo upp nýjar lífsvenjur með því að selja hver öðrum bæði þarfar og óþarfar vörur. Það yrði framtíð þessarar þjóðar.
    Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri eða lengri. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. landbn. þó að ég telji að sumu leyti eðlilegra að þetta færi fyrir sjútvn. En ég er alveg tilbúinn að endurskoða þá tillögu mína ef mönnum sýnist það.