Fangelsi og fangavist
Miðvikudaginn 06. mars 1991


     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég skrifa undir nál., eins og fram hefur komið, með fyrirvara ásamt hv. 3. þm. Reykv. Eyjólfi Konráð Jónssyni. Ástæðan er sú sama og kom fram í máli hv. 6. þm. Vesturl., þ.e. vegna þess að ekki náðist samstaða í nefndinni um að gera þær breytingar á frv. sem við vildum ná fram og teljum vera nauðsynlegar og eðlilegar en það eru breytingar sem stuðla að því að tryggja að Fangelsismálastofnun sé með í ráðum. Eins og hér hefur komið fram er það Fangelsismálastofnun sem hefur yfirumsjón með daglegum rekstri fangelsanna. Brtt. svipaðs efnis voru fluttar í hv. Nd. af hv. þm. Ólafi G. Einarssyni, Kristínu Einarsdóttur og Friðjóni Þórðarsyni en náðu ekki fram að ganga. Engu að síður viljum við ásamt hv. 6. þm. Vesturl. láta á það reyna hvort hægt er að ná þessari breytingu fram hér í deildinni því ég tel að hún sé mjög þýðingarmikil. Ástæðan fyrir því að þessi brtt. kemur seint fram er fyrst og fremst sú að það er mikil fljótaskrift á störfum nefnda þessa dagana eins og við þekkjum allir hv. þm. Ég hafði reiknað með því að tekin yrði til umræðu málamiðlunartillaga eða hugmynd að brtt. frá forstöðumanni Fangelsismálastofnunarinnar. Hún kom ekki fram í nefndinni og þess vegna höfum við tekið það ráð að flytja hana og munum gera það við 3. umr. Þetta vildi ég láta koma fram strax við 2. umr., hæstv. forseti, að við þrjú sem skrifum undir nál. með fyrirvara munum flytja þessa brtt. við 3. umr.