Byggðastofnun
Miðvikudaginn 06. mars 1991


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Formaður allshn. hefur ekki sýnt fararsnið á sér upp í ræðustólinn. Honum ber þó lagaleg skylda til þess að afla upplýsinga um það, ef ekki fylgir stjfrv., hvaða kostnað stjfrv. hefur í för með sér. Nú hefur hæstv. forsrh. lofast til þess að slíkar upplýsingar liggi fyrir við 3. umr. og er ég þakklátur honum fyrir það.
    Það er auðvitað erfitt að meta þau almennu orð sem felast í lagafrv. nema gera sér grein fyrir hverju eigi að kosta til og hvað sé á bak við þetta lagafrv. Samþykkt þess eins og út af fyrir sig skiptir engu máli, breytir engu í dæminu. Sjálfur hef ég vissar efasemdir um sum efnistriði lagafrv. en þar sem málefni Byggðastofnunar, fjárhagslegur grundvöllur hennar og framtíðarskipan er til athugunar í fjh. - og viðskn. deildarinnar, þá mun ég gera þau mál frekar að umræðuefni ef og þegar það frv. sem ég hef hér vikið að verður til umræðu í deildinni.
    Hinn 19. ágúst 1990 átti Morgunblaðið viðtal við hæstv. forsrh. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hann`` nefnilega forsrh. ,,segist vera bjartsýnn á framtíðina ef okkur takist að halda verðbólgunni innan við 10%. Hins vegar séu blikur á lofti. Það sé afar mikilvægt að auka fjölbreytnina í atvinnumálum, bæði með stóriðju og ekki síður með því að þróa ýmiss konar hátækniiðnað. Það sé ekki síst þess vegna sem mikilvægt sé að ná góðum samningum við Evrópubandalagið. Hins vegar sé ástæða til að óttast þróunina í sjávarútvegi. Ef svo haldi fram sem horfi með útflutning á óunnum fiski geti orðið lítið um fiskvinnslu hér á landi eftir nokkur ár. Við búum að þessu leyti við mjög slæmar aðstæður gagnvart EB. Innflutningur á óunnum fiski sé tollfrjáls og sumt af honum sé unnið í verksmiðjum sem njóti allt að 50% fjárfestingarstyrkja frá EB. Flök séu seld frá þessum verksmiðjum í samkeppni við flök unnin á Íslandi sem beri 19% toll. Samkeppnin sé mjög ójöfn og í raun og veru ættum við að biðja um toll á ferska fiskinn fengist ekki jöfnun fram með öðrum hætti.
    Hann segist aðhyllast að sérhverju skipi verði úthlutað útflutningskvóta sem geti gengið kaupum og sölum en landssamtök útgerðarmanna hafi tekið mjög illa í það. Með því ætti að vera hægt að hafa stjórn á þróun þessara mála.
    Steingrímur segir að kvótakerfið valdi sér áhyggjum og þeir möguleikar þess að eign á kvóta skipti um hendur og hinir ríku verði ríkari. Í síðustu lögum hafi verið reynt að sporna gegn þessu með því að veita sveitarfélögunum forkaupsrétt en þau mörg hver ráði ekki við það verð sem sé á kvótanum. Hættan við hagræðingu sé sú að heilir landshlutar sitji eftir með sárt ennið, eins og t.d. Suðurnesin sem hafi tapað 24 þús. tonna kvóta á 4 -- 5 árum. Hann sé ekki talsmaður ríkisafskipta en svo geti farið að þau reynist nauðsynleg ef t.d. svo færi að það verði eingöngu Norðlendingar sem fiski við Suðurnes. Í sjávarútvegsráðherratíð sinni hafi hann látið vinna tillögur sem bundu kvótann við ákveðna landshluta en þessu hafi verið

hafnað og seinna samþykktur kvóti bundinn við skip. Og hvort sem kvótinn sé bundinn við skip eða menn, þá fylgi sú stóra hætta að fáir geti eignast þann gífurlega auð sem sé sameign þjóðarinnar. Á þessu vandamáli hafi enn þá ekki fundist lausn og það sé brýnt að takast á við það. Hann tekur undir að fiskiskipaflotinn sé allt of stór og hann þurfi að minnka. Í þeim efnum bindi hann vonir við Úreldingarsjóð sem eigi eftir að verða öflugur. Hann telji að við verðum að fara svipaðar leiðir og Norðmenn sem hafi keypt upp verulegan hluta af sínum flota.``
    Svo mörg eru þau orð. Eins og fram kemur í þessum tilvitnuðu orðum tekur hæstv. forsrh. á sig sérstakan krók til þess að minna á það að í sinni sjávarútvegsráðherratíð hafi hann látið vinna tillögur sem bundu aflakvótann við ákveðna landshluta, en þeim tillögum hafi verið hafnað. Ég get ekki komist hjá því að líta svo á að með þessu hafi hæstv. forsrh. viljað vekja athygli á því að hann sé ósammála þeirri tilhögun á stjórn fiskveiða sem hæstv. sjútvrh. hefur beitt sér fyrir og skýringar á ummælum forsrh. koma fram í þeim ummælum hans að Suðurnes hafi tapað 24 þús. tonna kvóta á 4 -- 5 árum, sem mér skilst að hafi safnast fyrir á Norðurlandi eftir orðum hæstv. sjútvrh. að dæma.
    Nú liggur það fyrir að undir forustu hæstv. forsrh. hefur verið mynduð sérstök ráðherranefnd til þess að finna leiðir til þess að draga úr útflutningi á ferskum fiski. Ég hefði kannski búist við því að hæstv. forsrh. mundi að fyrra bragði víkja að þessu máli vegna ummæla minna hér áðan og vegna þess að ég vék að þeim ummælum sem hann hafði haft um stefnu hæstv. sjútvrh. í málefnum sjávarplássanna og vil af þessu tilefni spyrja hæstv. forsrh. hvort ráðherrar hafi hist til þess að ræða það hvernig megi sporna við útflutningi á ferskum fiski. Ég skal ekki fullyrða hvort ráðherrar séu þar að velta fyrir sér einu sjávarplássi eða hvort þeir séu að leita að almennri leið til þess. En greinilegt er að verkstjóri ríkisstjórnarinnar telur að þessi mál séu ekki í því formi að hann treysti sér til að láta þau afskiptalaus.
    Ég veit ekki hvort þau tilvitnuðu orð sem ég hef hér farið með eru nægileg skýring á ummælum mínum í minni fyrri ræðu um gagnrýni hæstv. forsrh. á stefnu sjútvrh. En það verður þá svo að vera.
    Ég vil taka það alveg skýrt fram að ég hef frá öndverðu verið mikill andstæðingur Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina. Ég greiddi atkvæði gegn stofnun þess sjóðs í þessari deild á sínum tíma. Ég taldi þá og tel enn að það hefði verið skynsamlegra að búa sjávarútveginum viðunandi rekstrarskilyrði, ég vil segja strax haustið 1987. Ég vil segja að framsóknarmenn og alþýðuflokksmenn hefðu átt að hafa skilning á því í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar að sjávarútvegurinn stóð höllum fæti, sem þeir ekki höfðu. Má kannski segja að skýringin á því hversu illa tókst að halda á þeim málum hafi m.a. verið fólgin í því að sjútvrh., sem þá var, Halldór Ásgrímsson, beitti sér ekki. Hins vegar hefur formaður Framsfl. upplýst að hann hafi á þeim tíma verið í fílabeinsturni og hann

réð ferðinni. Síðan leið haustið 1988 og allt árið 1989. Síðan hefur hagur sjávarútvegsins
farið batnandi og má segja að skárra væri það þegar verð á íslenskum fiski á erlendum mörkuðum hækkar um 30% milli ára þó það skili sér í bættri afkomu í sjávarútveginum í heild og skal ég svo ekki hafa fleiri orð um það.
    Á hinn bóginn vitum við að sjávarútvegsfyrirtæki víðs vegar um land standa mjög höllum fæti. Þó svo ríkisstjórnin hafi brugðist við á einstaka stað, og geri það enn þann dag í dag, greiði fyrir því að fyrirtæki geti haldið áfram rekstri á stöku stað með styrkjum úr ríkissjóði, þá er því ekki til að dreifa að þar sé um mótaða almenna stefnu að ræða. Vitaskuld liggur það ljóst fyrir, eins og skuldsetning margra fyrirtækja í sjávarútvegi er, að þau geta ekki staðist þá samkeppni sem þessi fyrirtæki eiga í vændum erlendis frá nema með eftirgjöf skulda og með almennum aðgerðum sem sú ríkisstjórn sem nú situr hefur ekki í hyggju að gera.
    Eftir á að hyggja, herra forseti, þá væri kannski fróðlegt ef ég mætti beina því til formanns allshn., ef hann má heyra mál mitt, hvort hann hafi kannski ekki heyrt fyrirspurn mína fyrr í dag. Ég spurðist fyrir um það hvaða upplýsingar hagsýslan hefði gefið um þann kostnað sem fylgir því frv. sem hér er til umræðu. Þessi skylda er lögð á hendur þingnefndum með lögum frá Alþingi. Ég var á sínum tíma andvígur því að leggja slíkar kvaðir á þingnefndir en lenti í minni hluta. Ég hygg að það sé skylda forseta deildarinnar og einstakra nefndarformanna að sjá til þess að Alþingi haldi þau lög sem það hefur sjálft sett og óska þess að 3. umr. sé frestað þangað til þessar upplýsingar liggja fyrir.