Byggðastofnun
Miðvikudaginn 06. mars 1991


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Herra forseti. Aðeins örstutt. Ég þakka hv. þm. fyrir að lesa upp úr því viðtali sem Morgunblaðið átti við mig m.a. um sjávarútvegsmál. Hann hefur gert það æðioft hér á fundum og megi hann gera það sem oftast. Ég á afar erfitt með að skilja það sem ég segi um sjávarútvegsmál á þann veg sem hann lýsti hér fyrr í ræðu sinni: að ég ,,fullyrti að sjútvrh. hafi látið undir höfuð leggjast að hugsa um byggðina í landinu``. Ég vek athygli á því að það var hæstv. sjútvrh. sem beitti sér fyrir því að setja inn ákvæði um Hagræðingarsjóð, sem ég nefndi nú víst Úreldingarsjóð, enda hét hann það áður, og sömuleiðis setti sjútvrh. hæstv. inn ákvæði um forkaupsrétt byggðanna á kvóta sem væri verið að selja á brott. Hvort tveggja er að sjálfsögðu viðleitni til að sporna við þeirri byggðarröskun sem ég sagðist hafa áhyggjur af. Ég get fullvissað hv. þm. um það að hæstv. sjútvrh. er mér sammála í því að stöðugt þarf að leita nýrra leiða til að úr þessu megi bæta.
    Ég er afar undrandi að heyra svona rökstuðning og láir mér nokkur, herra forseti, þó að mér hafi dottið í hug þegar ég hlustaði á þetta, ef hv. þm. vill hlusta:
        Enginn hygg ég undrist hér
        að undir Halldórs ræðum
        grið ég bið að gefi mér
        guð úr efstu hæðum.