Frsm. meiri hl. allshn. (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 805 og brtt. á þskj. 806 um frv. til laga um sjóðshappdrætti til stuðnings flugbjörgunarmálum og skák. Kemur þetta frv. frá meiri hl. allshn. Nefndin klofnaði í afstöðu sinni til málsins og er skilað tveimur minnihlutaálitum, annars vegar frá 1. minni hl., hv. þm. Danfríði Skarphéðinsdóttur, og síðan frá 2. minni hl., hv. þm. Sjálfstfl. Salome Þorkelsdóttur og Eyjólfi Konráði Jónssyni. En eins og ég sagði áðan mæli ég fyrir nál. meiri hl. en þeir sem mynda þennan meiri hl. eru Guðmundur Ágústsson, Jóhann Einvarðsson, Skúli Alexandersson og Valgerður Sverrisdóttir og leggja þau jafnframt fram brtt. við frv. eins og það kom upphaflega fram.
    Það er kannski rétt að rekja þetta mál aðeins og hvernig hin þinglega meðferð þess hefur verið nú þegar fyrir liggja bæði nál. og brtt. Rétt fyrir jól lagði hæstv. dómsmrh. fram frv. til laga um sjóðshappdrætti til stuðnings flugbjörgunarmálum og skák þar sem mælt var fyrir um að sett yrði á stofn happdrætti, svokallað sjóðshappdrætti, og skyldu 60% ágóða af því happdrætti renna til kaupa á björgunarþyrlu, 20% til styrktar flugbjörgunarmálum og 20% til styrktar skákíþróttinni.
    Fljótlega eftir að málið var kynnt á Alþingi upphófst nokkur deila þar sem aðrar björgunarsveitir töldu að þarna væri verið að fara á bak við þær, sérstaklega með því að taka eina björgunarsveit út úr en skilja aðrar eftir. Þar var einkum um að ræða hjálparsveitir skáta og Slysavarnafélag Íslands. Þegar Alþingi kom saman eftir jólaleyfi lagði dómsmrh. fram brtt. við frv. þess efnis að þessir tveir aðilar, þ.e. hjálparsveitir skáta ásamt Slysavarnafélaginu og raunar Rauða krossi Íslands, fengju ágóða af happdrættinu. Þá má segja að niðurstaðan hafi verið sú að 50% áttu að renna í sjóð til kaupa á björgunarþyrlu, 37,5% til björgunarsveita og 12,5% til Skáksambands Íslands.
    Þegar málið var tekið fyrir í hv. allshn. kom fljótlega í ljós að samstaða mundi ekki nást um frv. og eftir því sem fleiri komu fyrir nefndina varð ljósara að ekki mundi nást samstaða. Á tímabili má segja að málið hafi verið komið í blindgötu og nokkuð ljóst að ef ekki yrði veruleg breyting á frv. mundi það daga uppi. Þá kom bréf frá Slysavarnafélaginu þess efnis að þeir lögðu það til að ágóði af happdrættinu skyldi einungis vera björgunarþyrlumálum til góða eða sem sagt, ágóðinn mundi allur renna til kaupa á nýrri björgunarþyrlu. Má segja að þetta hafi leitt til þess að málið hafi tekið aðra stefnu í nefndinni.
    Það má einnig benda á það að þeir aðilar sem sjá um happdrætti í dag, einkum Happdrætti Háskólans og Happdrætti DAS, og komu fyrir nefndina, mæltu gegn því að þetta frv. yrði samþykkt þar sem happdrættismarkaðurinn væri orðinn nokkuð mettaður og nýtt happdrætti mundi leiða til þess að það drægi úr sölu hjá öðrum. Engu að síður ákvað ég sem formaður

nefndarinnar að reyna að finna einhverjar leiðir til þess að komast út úr þessu. Í fjárlögum fyrir árið 1991 er kveðið á um það að björgunarþyrla verði ekki keypt nema til komi fjármögnun á móti og raunar vitnað til þess að þar þurfi að koma til happdrætti af einhverju tagi. Ég ásamt meiri hl. leit þannig á að ef staðfesta ætti kaup á björgunarþyrlu þyrfti að leggja fram frv. þar sem fjármögnun yrði að einhverju leyti tryggð.
    Í því frv. sem hér hefur verið lagt fram, og kemur fram að vísu í formi brtt. við frv. sem dómsmrh. lagði fram, er gert ráð fyrir heimild til handa dómsmrh. til þess að setja á stofn sjóðshappdrætti. Einnig er tilskilið í frv. að hann skipi þriggja manna framkvæmdanefnd þar sem hann tilnefndir tvo og Landhelgisgæslan einn mann í þá nefnd. Síðan er kveðið á um það í brtt. að dómsmrh. eða framkvæmdanefndinni sé heimilt að semja við aðra aðila um nánari framkvæmd á málinu og til að koma happdrættinu á fót. Það er með réttu stuðst við það sem fram kemur í frv. dómsmrh. hvernig þetta sjóðshappdrætti gengur fyrir sig. Í 6. gr. er hins vegar tekið fram að öllum ágóða happdrættisins eigi að verja til kaupa á björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna. Einnig er í 7. gr. mælt fyrir um það að Ríkisendurskoðun hafi eftirlit með fjármálum happdrættisins. Og að lokum er mælst til þess að nafni frv. verði breytt í þá veru að það verði frv. til laga um sjóðshappdrætti til stuðnings kaupum á björgunarþyrlu í stað frv. til laga um sjóðshappdrætti til stuðnings flugbjörgunarmálum og skák.
    Ég þykist hafa gert svona í stórum dráttum grein fyrir störfum nefndarinnar og hvernig málið þróaðist í meðförum hennar og eftir hvaða leiðarljósi við störfuðum. Við sem störfuðum í nefndinni vorum að verulegu leyti bundnir ákvæðum fjárlaga um það að ef kaupa eigi þyrlu skuli komið á fót einhvers konar happdrætti eða fjármögnun. Við teljum að sú leið sem hér er valin ætti að tryggja að þyrla verði pöntuð á þessu ári.
    En ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri en vil lesa hér upp nál. meiri hl. Þar segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. Á fund hennar komu Sigurður Jónsson, aðstoðarmaður dómsmrh., Sigurður Steinar Ketilsson skipherra, Páll Halldórsson yfirflugstjóri, Örlygur Hálfdánarson, forseti Slysavarnafélags Íslands, Einar S. Einarsson, Jón Rögnvaldsson og Árni Emilsson frá Skáksambandi Íslands, Guðmundur Hallvarðsson, Þórhallur Hálfdánarson og Sigurður Ágúst Sigurðsson frá Happdrætti DAS, Gunnar Bragason, formaður Landssambands flugbjörgunarsveita, Arnfinnur Jónsson, varaformaður Landssambands hjálparsveita skáta, Jón Thors og Ólafur W. Stefánsson, skrifstofustjórar í dómsmrn., Gunnar Bergsteinsson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, Ragnar Ingimarsson, Arnljótur Björnsson og Sigmundur Guðbjarnason háskólarektor frá Happdrætti Háskóla Íslands. Flestir fyrrgreindra manna sendu umsagnir eða lögðu fram gögn á fundi með nefndinni, en

auk þess sendi Farmanna- og fiskimannasamband Íslands umsögn.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að veruleg breyting verði gerð á frv. Í stað þess að fjölmargir aðilar standi að happdrættinu er lagt til að sjóðshappdrættið verði undir þriggja manna stjórn sem dómsmrh. skipar og að allur hagnaður sem verður af happdrættinu renni óskiptur til kaupa á björgunarþyrlu. Stjórn happdrættisins getur falið öðrum aðila að annast framkvæmd happdrættisins en samningur skal staðfestur af dómsmrh. Lagt er til að heimild til reksturs happdrættisins gildi einungis í fimm ár. Ríkisendurskoðun mun hafa eftirlit með fjárreiðum happdrættisins. Þá er lagt til að heiti frv. verði breytt.
    Í lið 5.40 í 6. gr. fjárlaga yfirstandandi árs er að finna heimild til handa fjmrh. að ganga til samninga um kaup á björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæslu Íslands og taka til þess nauðsynleg lán að því tilskildu að önnur fjármögnun komi til, m.a. af happdrættisfé. Meiri hl. nefndarinnar telur því samþykkt þessa frv. vera forsendu fyrir því að þessi heimild fjárlaga verði nýtt og að lántökuheimild verði veitt í lánsfjárlögum. Leggur meiri hl. nefndarinnar til að frv. verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.``
    Undir þetta nefndarálit skrifa þeir aðilar sem ég minntist á áðan.
    Það skal sérstaklega tekið fram að áður en brtt., sem hér er mælt fyrir, var lögð fram hafði ég sem formaður allshn. samband við þá aðila sem detta út eins og frv. lítur út núna, þ.e. Flugbjörgunarsveitina, Skáksambandið og Hjálparsveit skáta, og gerði viðkomandi aðilum grein fyrir því hvernig þetta kæmi til með að líta út. Þeir sýndu þessu máli mikinn skilning og ég gat ekki skilið þá öðruvísi en þannig að þar sem aðrar leiðir væru útilokaðar mundu þeir ekki leggja stein í götu þessa máls.