Frsm. 2. minni hl. allshn. (Salome Þorkelsdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. 2. minni hl. allshn., okkar hv. 3. þm. Reykv. Eyjólfs Konráðs Jónssonar og mín. Í nál. kemur fram að nefndin hefur fjallað um þetta frv. en varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. 2. minni hl. nefndarinnar telur það vera skyldu stjórnvalda að sjá Landhelgisgæslu Íslands fyrir nauðsynlegum tækjum til björgunarstarfa. Þörfin fyrir kaup á öflugri björgunarþyrlu er mjög brýn og þolir enga bið.
    Öll meðferð málsins hefur verið með eindæmum í meðförum þingsins. Upphaflega frv. er ekki lengur til þegar málið er afgreitt úr nefndinni þar sem frjáls félagasamtök, sem höfðu frumkvæði að því að fá leyfi til reksturs sjóðshappdrættis, þ.e. Flugbjörgunarsveitin og Skáksamband Íslands, eða önnur þau slysavarna- og björgunarsamtök sem komin voru inn í frv. í drögum að breytingum á því sem ráðherra sendi nefndinni til umfjöllunar, eru þar ekki lengur samkvæmt þeim brtt. sem meiri hl. nefndarinnar leggur fram. Nú eru brtt. í þá veru að hér er í raun um nýtt frv. um ríkisrekið happdrætti að ræða, til kaupa á þyrlu. Engan veginn er hægt að gera sér grein fyrir hvaða tekjur slíkt happdrætti mun gefa af sér. Íslendingar eru að vísu happdrættisglöð þjóð, en ég held að flestir séu sammála um að sá markaður sé að verða mettaður og afar erfitt að treysta á happdrættin þegar afla þarf tekna til einhverra stórframkvæmda eða hluta sem kosta mikið fé eins og hér er reyndar um að ræða. Um þetta fengum við upplýsingar í nefndinni. Á fund nefndarinnar komu forsvarsmenn happdrættanna eins og Happdrættis Háskólans og fleiri aðila og við fengum einnig umsagnir eða athugasemdir frá Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna svo að dæmi séu tekin. Þar eru gerðar athugasemdir við að það eigi að fara að efna til sjóðshappdrættis, m.a. vegna þess að t.d. Happdrætti Háskólans telur sig hafa einkaleyfi á slíkum happdrættum.
    Það er einnig mjög athugavert að aðilar hinna frjálsu félagasamtaka sem áttu frumkvæðið um að koma þessu sjóðshappdrætti á eru ekki lengur inni í dæminu og þarf engan að furða þótt þessir aðilar séu ekki sáttir við framkvæmd málsins. Það er ekki rétt að þeir séu sáttir við það. Þeir eru það alls ekki og þykir mér engin undur að svo sé þegar litið er á þeirra hagsmuni og hvers vegna þeir voru að leita eftir því að fá að reka slíkt sjóðshappdrætti.
    Kaup á einni björgunarþyrlu nú er aðeins eitt skref til að tryggja það að Landhelgisgæslan verði í stakk búin til að sinna sínu mikilvæga hlutverki við björgunarstörf, bæði á sjó og landi. Eins og nú háttar er ástandið þannig að þyrlan sem Landhelgisgæslan hefur til þessara starfa er allt of lítil og alls ekki nægjanlega vel útbúin. Þetta kemur fram í ársskýrslu þyrlusveitar lækna sem við höfum fengið í hendur og er mjög fróðleg að skoða í sambandi við þetta mál. Þar kemur m.a. fram hvernig útköll skiptast á milli þess að vera útköll á sjó eða landi. Útköll á landi eru 56%

en útköll á sjó eru 44%. En það sem kemur oft í veg fyrir að þessir aðilar geti sinnt sínu hlutverki er m.a. fjarlægðir, þyrlan getur ekki farið hvert sem er og hún er ekki búin afísingarútbúnaði sem hefur að sjálfsögðu mikið að segja.
    Það hefur einnig komið fram, sem er náttúrlega alvarlegasta málið, að þessi þyrla er allt of lítil. Hún tekur svo takmarkaðan fjölda. Hún getur ekki borið nema takmarkaðan þunga og þegar um er að ræða t.d. björgun skipshafna af sjó, þó það séu kannski ekki nema 8 -- 10 menn, þá verður vélin að fara margar ferðir og fara til baka, kannski eftir að hún er komin yfir skip sem er í sjávarháska, þá verður hún að snúa til lands til þess að losa sig við bæði útbúnað og einhvern hluta af áhöfninni til þess að geta flutt hluta af þeim sem í sjávarháska eru og sinnt þannig björgunarstarfinu. Og menn þurfa að taka ákvörðun um það hverjir eiga að fara fyrstir og hverjir eiga að vera síðastir og jafnvel komast aldrei til lands eða verði ekki bjargað. Það er hörmulegt að hugsa til þess að aðstaðan skuli vera með slíkum hætti og að þeir starfsmenn sem sinna þessum málum, bæði flugbjörgunarmenn, læknar og annað hjúkrunarfólk, skuli búa við þær aðstæður sem raun ber vitni.
    Eins og ég sagði áðan er það að kaupa eina þyrlu og það strax aðeins fyrsta skrefið. Við verðum að horfast í augu við það að Íslendingar þurfa að eiga fleiri en eina slíka björgunarþyrlu því að ef þyrla bilar, þá verður að sjálfsögðu að vera önnur til staðar á meðan verið er að gera við.
    Ég held, virðulegi forseti, að ég þurfi ekki að hafa mörg orð um þýðingu þessa máls. 2. minni hl. er á móti því að Alþingi sé að skjóta sér á bak við happdrætti til að leysa þetta brýna nauðsynjamál en vill leggja sitt af mörkum til þess að hægt verði að ganga strax til samninga um kaup á stórri björgunarþyrlu með því að veita heimild í lánsfjárlögum til lántöku í því skyni. 2. minni hl. hefur nú þegar tryggt það að slík tillaga verði flutt við frv. til lánsfjárlaga sem nú er til meðferðar í Nd. og á eftir að koma til Ed. Þess vegna höfum við gert þær ráðstafanir að slík brtt. við lánsfjárlagafrv. verður flutt í Nd. til þess að flýta málinu. Við treystum því að samstaða geti orðið um þá lausn á þessu brýna máli. En það má benda á þegar slíkt lán er tekið greiðist það á mörgum árum, a.m.k. 15 árum, þannig að það er ekki stærri baggi fyrir þjóðarbúið vegna svo mikilvægs máls eins og þetta er heldur en ýmislegt annað sem verið er að taka lán fyrir.
    Við viljum að sjálfsögðu greiða fyrir því að frv. gangi til 3. umr. en munum hins vegar sitja hjá við afgreiðslu á brtt. nefndarinnar.