Frsm. meiri hl. allshn. (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef nú hlýtt á rök 1. og 2. minni hl. við brtt. við frv. eins og þær liggja fyrir núna og langar að koma að nokkrum athugasemdum. Í fyrsta lagi sagði hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir að þyrla af þessu tagi mundi kosta 500 millj. Það var upplýst í nefndinni að þyrla af þeirri gerð sem Landhelgisgæslan á nú kostar 500 millj. en þyrla af þeirri gerð sem hugsanlega verður keypt, stærri þyrla sem er búin afísingarbúnaði, kostar einhvers staðar á bilinu 800 -- 1000 millj. þannig að þarna er um verulegar fjárhæðir að ræða.
    Ég vil ekki taka undir þau rök að það eigi að taka af því fé sem hæstv. fjmrh. hefur verið að gaspra um núna að undanförnu. Það eru hans hugmyndir um atvinnuuppbyggingu vegna þess að álver kom ekki en þær hugmyndir eru loftbólur í mínum huga og ég tel að þarna sé ekki um að ræða þá leið sem ætti að fara, að taka af þeim peningum sem í raun eru ekki til.
    Til þess að standa undir kaupum á þyrlu af þessu tagi eru þrjár leiðir. Það er að setja á nýja skatta, það er að skera niður eitthvað af ríkisútgjöldum og það er hægt að fjármagna með þessum hætti eins og hér er lagt til, með happdrætti. Það er líka hægt að fresta vandamálinu til komandi kynslóðar með því að setja heimildarákvæði inn í lánsfjárlög. Og þarna er ekki um það að ræða, ég geri nú ekki ráð fyrir því, enda kom það fram í máli þeirra sem töluðu hér á undan, frsm. bæði 1. og 2. minni hl., að það sé ekki deilt um nauðsyn björgunarþyrlu sem slíkrar, heldur er deilt um það hvernig eigi að standa að fjármögnun á slíkri þyrlu. Ég heyrði það á fulltrúum Sjálfstfl. sem skipuðu 2. minni hl. að þeir mundu leggja fram brtt. við lánsfjárlög, en ég tel að það sé ekki nóg þar sem það er bundið í fjárlögum að það þurfi að koma fjármögnun og ég vil ekki líta þá þannig á að þótt komi inn heimild í lánsfjárlög, að það sé fjármagn af því tagi sem fjárlögin kveða á um, enda segir í þessari grein, 6. gr. fjárlaga: ,,að því tilskildu að til komi fjármögnun, m.a. með happdrætti.``
    Það var komið inn á þá aðila sem detta út úr frv., björgunarsveitirnar og Skáksamband Íslands. Ég get tekið undir það sem hv. þm. Salome Þorkelsdóttir sagði að þeir eru ósáttir og ég lái þeim það ekki. En eins og ég sagði áðan í framsögu fannst mér rétt áður en ég lagði fram þessa brtt. að ræða við þá og skýra hver niðurstaðan væri. Hins vegar vil ég benda þeim sem vilja taka upp hanskann fyrir hjálparsveitirnar á það að ég gat ekki fundið þann skilning í nefndinni hjá þingmönnum Sjálfstfl. og Kvennalista að þeir vildu taka þá inn í. Þess vegna var þessi tillaga sett fram um að allur ágóði mundi renna til Landhelgisgæslunnar úr því að það náðist ekki samkomulag um frv. eins og það lá fyrir.
    Það er líka annað atriði sem ég vildi impra hér á og það er af hverju þessi leið var farin. Það kom í ljós þegar við fjölluðum um málið í nefndinni að þeir aðilar sem áttu að njóta góðs af happdrættinu voru

ekkert sammála um það. Slysavarnafélag Íslands sendi nefndinni bréf þess efnis að það teldi rétt að verja ágóða af þessu happdrætti til Landhelgisgæslunnar þannig að það var hvortki einhugur í nefndinni um að þessir aðilar, björgunarsveitirnar og Skáksambandið, fengju hluta af ágóðanum né milli aðilanna sjálfra sem áttu að njóta ágóðans.
    Það má kannski minnast á það í þessu sambandi þegar við erum að ræða um björgunarsveitirnir, að það var upplýst í nefndinni af fulltrúum dómsmrn. að þessir aðilar sem þarna er um að ræða, Hjálparsveit skáta, Slysavarnafélagið, Flugbjörgunarsveitin og Rauði krossinn, hefðu nýgert með sér samning um ágóðaskiptingu af svokölluðum spilakössum, en talið er að ágóði af þeim sé
í kringum 300 -- 400 millj. Það má því segja að dómsmrn. hafi fullnægt, alla vega að einhverju leyti, þörfum þessara aðila fyrir rekstrarfé. Ég er ekki með þessu að segja að mér finnist björgunarsveitirnar hafa of mikið fé á milli handanna heldur er í mínum huga aðalatriðið að við reynum að finna lausn á þessu vandamáli sem við öll erum sammála um. Það er björgunarþyrlan sem mikil nauðsyn er á að við Íslendingar fáum því það ástand sem nú er er ófært. Mér finnst og hef það á tilfinningunni að ef þetta frv. verður fellt og fær ekki afgreiðslu á þessu þingi, þá verði ekki staðfest pöntun á björgunarþyrlu á þessu ári. Það mundi mér þykja mjög miður og hefði að sjálfsögðu kosið að við gætum orðið sammála um það í nefndinni og hér á Alþingi að koma þessu happdrætti á svo að Landhelgisgæslan og Íslendingar allir, ekki bara sjómenn heldur allir Íslendingar, geti haft afnot af þyrlu af þessu tagi.