Frsm. 1. minni hl. allshn. (Danfríður Skarphéðinsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég ætlaði aðeins að leiðrétta þá leiðréttingu sem gerð var við mál mitt hér áðan af hv. frsm. meiri hl. allshn. Það var þannig að við fengum ýmsa gesti á fundi allshn. þegar við fjölluðum um þetta mál, þar á meðal flugmenn Landhelgisgæslunnar. Þeir töluðu um stóra þyrlu með afísingarbúnaði sem ákjósanlegasta kostinn. Skömmu síðar kom til okkar forstjóri Landhelgisgæslunnar og ég innti hann sérstaklega eftir því, vegna þess að ég hjó eftir því að hann talaði um þyrlu af sömu gerð og þá sem Landhelgisgæslan á núna, hvort það væri samstaða um það í Landhelgisgæslunni að það væri þessi tegund af þyrlu sem verið væri að tala um. Hann staðfesti að svo væri og benti jafnframt á að þessi gerð af þyrlum væri nú með öflugri vél en sú sem er í notkun hjá Landhelgisgæslunni.
    Ég ætla mér hins vegar ekki að fara út í tæknilegar umræður um þyrluna og mér finnst málið ekki snúast um það hvort flugbjörgunarsveitir, hjálparsveitir og Slysavarnafélag eru með í þessu happdrætti. Í mínum huga er spurningin sú hvort við ættum að treysta á happdrætti sem er algerlega óskilgreind stærð til þess að fjármagna kaup á björgunarþyrlu. Ég nefndi ýmsar aðrar leiðir áðan og það kom fram í máli 2. minni hl., hv. 6. þm. Reykn., að fulltrúi Sjálfstfl. í Nd. hefur þegar gert ráðstafanir til þess að flytja brtt. um lánsfjárheimild til kaupa á björgunarþyrlu. Miðað við það sem ég hef sagt hér í dag er auðvitað ljóst að kvennalistakonur styðja þá tillögu. Ég vil ítreka það að málið snýst um það að fjármagn til þessa á að taka úr sameiginlegum sjóðum okkar allra.