Frsm. meiri hl. allshn. (Guðmundur Ágústsson) :
    Herra forseti. Það er bara örstutt athugasemd, ég er víst búinn að tala hérna tvisvar. En það er rétt að það komi fram, ef það skyldi fara eitthvað á milli mála, að það sem er verið að gera núna er að setja þetta happdrætti á fót og staðfesta það og panta þyrluna en það er ekki komið að fjármögnun hennar strax. Í samningum af þessu tagi er það yfirleitt innan við 10% sem greitt er í upphafi við staðfestingu, en það er ekki fyrr en við afhendingu vélarinnar, sem er eftir tvö ár, sem kemur að því að lánsfjárheimildar er þörf. Eins og fram kom í nefndinni var afgreiðslutími 18 -- 24 mánuðir og talið er að núna sé afgreiðslutími allt að 30 mánuðir eða lengri út af Persaflóastríðinu. Að fjármögnuninni sem slíkri er ekki komið og ekki nauðsynlegt að koma því ákvæði inn í lánsfjárlög að svo komnu. En ef á að kaupa notaða þyrlu, ef hugmyndin er sú að kaupa notaða þyrlu, þá væri mjög áríðandi að setja heimild í lánsfjárlög.
    Þetta vildi ég að kæmi hér fram svo að menn sæju hvað þarna væri á ferðinni. Það er ekki verið að kaupa þyrluna á þessu ári heldur er verið að gera pöntun til þeirra aðila sem smíða þessa þyrlu, en það er ekki von á því að hún komi hingað til lands fyrr en eftir 2 -- 3 ár.