Frsm. 2. minni hl. allshn. (Salome Þorkelsdóttir) :
    Hæstv. forseti. Það er kannski ekki ástæða til að fara að lengja þessar umræður mikið úr þessu en ég get samt ekki staðist það að benda hv. 5. þm. Reykv. á að nákvæmlega það sem hann sagði hér í sinni síðustu ræðu staðfestir að það eina rétta sem gera ætti er það sem við erum að leggja til, að þessi heimild verði veitt í lánsfjárlögum. Hitt er bara húmbúkk.
    Ég ætla að ljúka orðum mínum með því að minna á það, af því að hann kom aðeins inn á þessa aðila, þessi frjálsu félagasamtök sem voru að leita eftir þessum möguleika og leituðu til hæstv. dómsmrh. um að mega setja á stofn sjóðshappdrættið sem var upphafið að þessu öllu saman. Þessir aðilar eru settir út í kuldann með þessu frv. sem meiri hl. nefndarinnar flytur. Nú hafa þessir aðilar ekki möguleika á að fá sitt frv. tekið upp aftur eða leita leiða til þess að koma á þessari fjáröflun sem þessi frjálsu félagasamtök, þ.e. Skáksambandið og björgunarsamtökin, sem þau trúa á þó að ég sé ein af þeim sem dreg í efa að slíkt happdrætti mundi afla þeim mikilla tekna. En það er allt önnur saga sem hægt er að ræða síðar og á öðrum vettvangi.
    En ég vil aðeins benda hv. 5. þm. Reykv. á að þetta er líka það sem gerist með frv., að þessir aðilar sitja eftir með sárt ennið úti í kuldanum og fá ekki möguleika til sinnar fjáröflunar sem þeir trúðu á með því frv. sem þeir höfðu frumkvæði um að hæstv. dómsmrh. flutti.