Tilhögun þingstarfa
Miðvikudaginn 06. mars 1991


     Forseti (Árni Gunnarsson) :
    Vegna þessara orða hv. 1. þm. Reykv. vill forseti taka fram að hann hlustar ekki á hótanir hæstvirtra ráðherra enda hafa þær ekki verið bornar fram.
    Í öðru lagi getur forseti upplýst hv. þm. um það að nú er mikill fjöldi stjfrv. á hraðferð í gegnum þingið, enda ætlunin að ljúka þingi í næstu viku. Hæstv. ráðherrar leggja að vísu mikla áherslu á hver í sínu lagi að þeirra mál fái skjótan og góðan framgang, en því miður er tíminn afskaplega naumt skammtaður sem á að fara til þess að afgreiða þau mál sem nú eru á óskalistum hæstv. ráðherra. Og það er alveg ljóst, a.m.k. í huga þess forseta sem hér situr, að ekki nema brot af þeim málum mun komast áfram miðað við það að þingið fari heim í lok næstu viku.
    Það mál sem var til umræðu á kvöldfundi í gærkvöldi er þingmannafrv. og lýtur því þeim lögmálum sem þingmannafrv. gera. Hins vegar hefur forseti reynt eftir mætti að taka þingmannafrv. hér til umræðu til jafns nokkuð við þau stjfrv. sem hér eru á dagskrá. ( Gripið fram í: Er það ekki bara loðnufrumvarpið?) Það getur forseti upplýst um loðnufrv. ef hv. þingdeildarmenn gera athugasemdir við að það skuli vera á dagskrá, þá er það borið fram að vísu, rétt er, af einum hv. þm. sem jafnframt er ráðherra. Engu að síður standa á bak við það frv. þrír ríkisstjórnarflokkar og sá fjórði hefur látið það óátalið að frv. yrði lagt fram.