Tilhögun þingstarfa
Miðvikudaginn 06. mars 1991


     Ásgeir Hannes Eiríksson :
    Virðulegi forseti. Það kom mér óneitanlega nokkuð á óvart að heyra forseta segja hér í málstofu Alþingis að þau mál sem væntanlega verði rædd verði ekki tekin á dagskrá. Má í framhaldi af því spyrja: Til hvers er þessi málstofa? Þetta kom tvisvar fyrir í gær, bæði varðandi það mál sem hér hefur verið um rætt og eins 11. mál á dagskrá í dag, það var ekki tekið á dagskrá af því að fólk bjó sig undir að ræða það mál.
    Dagskráin er orðin það flókin núna, það er búið að taka mál það ört inn og út af dagskránni, að það er aðeins til ein regla til þess að kippa þessu í liðinn og það er sú regla sem best hefur gefist í þeim þjóðfélögum sem vilja ná árangri, að taka mál eftir þeirri röð sem þau berast, ekki hvort ríkisstjórnin flytur þau eða einhverjir einstakir þingmenn, að allir hér í þinginu séu jafnir og mál þeirra verði afgreidd í röðinni sem þau berast. Annars hljótum við einstakir þingmenn sem styðjum ríkisstjórnina að fara að athuga okkar gang hvort við séum alltaf reiðubúnir til þess að rétta upp höndina þegar ríkisstjórnin kallar, ef okkar mál fá þessa meðferð og sömuleiðis mál stjórnarandstöðuþingmanna. Þetta er jú einu sinni málstofa og hér skulum við ræða um hlutina.