Greiðslur úr ríkissjóði
Miðvikudaginn 06. mars 1991


     Pálmi Jónsson :
    Herra forseti. Hv. 1. þm. Vesturl. hefur nú lokið við að mæla fyrir þessu máli og skýrt aðdraganda þess og þær breytingar sem orðið hafa á frv. frá síðasta Alþingi. Frv. er flutt sem samkomulagsmál allra nefndarmanna í fjvn. Og þó ekki væri nema fyrir það eitt er það merkileg nýlunda að nefndarmenn í þeirri miklu starfsnefnd Alþingis skuli sameiginlega komast að niðurstöðu um að það sé nauðsyn að koma við breyttum starfsreglum að því er varðar meðferð ríkisfjármála og um greiðslur úr ríkissjóði til þess að tryggja að þar sé farið að í samræmi við vilja Alþingis. Samkomulag í fjvn. um þetta mál hefur verið gott. Það er svo gott að þrátt fyrir það að 1. flm., formaður fjvn., sé ekki á þingi um sinn, þá er það 3. flm. sem mælir fyrir frv. enda þótt ég sé 2. flm. Þetta sýnir með öðru að við leggjum áherslu á gott samstarf um þetta mál í fjvn. og væntum þess að það megi takast að ljúka afgreiðslu þessa máls á þessu þingi.
    Það var farið yfir það af hv. 1. þm. Vesturl. hversu vandlega þetta mál hefur verið undirbúið. Ég skal ekki endurtaka það í mörgum orðum. Ég vek aðeins á því athygli að fyrstu skrefin í þessari frumvarpsgerð voru þau að gerð var athugun á meðferð þessara mála á hinum Norðurlöndunum, hvernig þeirri skipan væri háttað hjá frændþjóðum okkar. Og á þeim grunni og á grunni íslensku stjórnarskrárinnar var byggt við samningu þessa frv. Sjálfsagt er að taka það fram að áður höfðu menn komið auga á nauðsyn breytinga hér á hinu háa Alþingi því að áður en þetta frv. kom fram hafði hv. þm. Geir H. Haarde ásamt mér flutt frv. um þetta efni hér í þinginu.
    Á síðasta þingi fór það svo að frv. náði eigi afgreiðslu og hæstv. forsrh. óskaði eftir því í þinglok að fá tækifæri til þess að taka málið sérstaklega til athugunar og gera á því lögfræðilega athugun. Út af fyrir sig var ekki óeðlilegt að við slíku væri orðið, en slík lögfræðileg athugun hæstv. forsrh. og hans manna í forsrn. hefur enn ekki farið fram. Þess má geta að á vegum fjvn. hafði farið fram lögfræðileg athugun á frv. eins og það var lagt fram á síðasta Alþingi af prófessorum við Lagastofnun Háskóla Íslands þannig að þá þegar hafði farið fram býsna mikil og sérfræðileg lögfræðileg athugun á þessu máli.
    Ég vil taka það fram að sú athugun sem fram fór á vegum starfshóps sem starfaði á vegum ríkisreikningsnefndar og hæstv. fjmrh. var á marga lund eðlileg. Nefndin hefur átt ágætt samstarf við fulltrúa þess starfshóps um þær breytingar sem gerðar hafa verið á frv. í meðförum málsins nú áður en það er lagt fram í þeirri gerð sem hér liggur fyrir. Ég vil gjarnan þakka það samstarf sem við áttum við fulltrúa úr ríkisreikningsnefnd og úr fjmrn. Það varð til þess að skýra þetta mál, eyða tortryggni á milli framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins um þessa lagasmíð, ýmsar ábendingar komu fram sem við nánari athugun voru til bóta og þær breytingar sem gerðar hafa verið á frv. og hv. 1. þm. Vesturl. lýsti hér eru flestar eða yfirleitt því marki brenndar að skýra málið betur í texta og í sumum tilvikum að gera lagasmíðina liprari þannig að ekki séu eins miklar líkur á því að snurður hlaupi á framkvæmdina. Þetta er gert án þess að raska heildarmarkmiðum frv. sem, eins og lýst hefur verið, eru þau að tryggja betri skipan á meðferð ríkisfjármála í framkvæmdinni og að treysta það að farið sé að í samræmi við vilja Alþingis.
    Ég held að það sé engin spurning um það, og við höfum lýst þeim viðhorfum okkar sem erum flm. þessa frv., að þó svo --- sem ég tel að ekki sé í neinum atriðum sem máli skipta --- en þó svo að rekist hefðu á í einhverjum atriðum sjónarmið flm. annars vegar og fulltrúa framkvæmdarvaldsins, t.d. fulltrúa ríkisreikningsnefndar eða fulltrúa fjmrn. hins vegar, þá er það auðvitað hlutverk löggjafarvaldsins að setja framkvæmdarvaldinu þær reglur sem framkvæmdarvaldinu ber að starfa eftir. En það kom ekki til slíkra árekstra í samstarfi flm. frv. annars vegar og fulltrúa fjmrn. og ríkisreikningsnefndar hins vegar þannig að um þetta mál tel ég að nú sé komið á svo gott samstarf að það eigi að vera einboðið að það megi takast að ná afgreiðslu þó að stutt sé eftir af þessu þingi.
    Ég skal ekki fara mörgum fleiri orðum um þýðingu þessa máls, en þær starfsreglur sem framkvæmdarvaldið hefur tamið sér á undanförnum árum hafa að ýmsu leyti átt óskýran grunn, þær hafa ekki verið mjög markvissar í öllum greinum og það er mikil nauðsyn að setja þær í fastari ramma og það í samræmi við þau grundvallaratriði sem ég minntist á í upphafi, þ.e. íslensku stjórnarskrána, og þær starfsvenjur sem gilda í meðferð mála hjá öðrum þjóðum. Þessar starfsreglur hafa sem sé verið óskýrar og þær hafa verið notaðar misjafnlega þrátt fyrir að ákvæði stjórnarskrárinnar séu skýr. Ég held að það sé afar mikilvægt að lagaákvæði um þessar starfsreglur séu skýr þannig að ekki þurfi að koma til deilna um framkvæmd þessara mála, um meðferð einstakra greiðslna af hálfu t.d. hæstv. fjmrh. hverju sinni eða þær skuldbindingar sem hæstv. fjmrh. eða ríkisstjórn ákveður án þess að hafa haft til þess fullar heimildir Alþingis.
    Það er e.t.v. skemmst að minnast þeirra deilna sem urðu hér á yfirstandandi þingi um ákvarðanir hæstv. fjmrh. um sölu á meiri hluta af hlutabréfum Þormóðs ramma, en þar er eitt dæmið um það að ekki hefur verið stuðst við skýrar heimildir laga um það hvernig á málum skuli haldið.
    Miðað við þetta frv. liggja þessi mál alveg skýrt fyrir. Þar er það alveg ótvírætt að óheimilt er, nema samkvæmt heimild í almennum lögum eða fjárlögum hverju sinni, að afhenda eða selja eða kaupa fasteignir, eignarhluti í félögum, skipum og flugvélum, listaverkum, listmunum, söfnum o.s.frv., sem hafa að geyma menningarverðmæti, og öðrum þeim eignum sem verulegt verðgildi hafa. Um þetta eru mótuð alveg skýr lagaákvæði í þessu frv. og það er öllum til góðs að þau lagaákvæði séu þannig að menn velkist ekki í vafa um hvernig á skuli halda og tryggi það að farið sé að hverju sinni í samræmi við vilja Alþingis. Hitt leiðir til ófarnaðar, deilna og úlfúðar sem hægt er að komast hjá með því að lagaákvæði séu skýr.
    Ég ætla ekki að þreyta umræðu um þetta mál. Ég tel meiru varða að það komist áfram og skal því ekki lengja þessa ræðu mína nema um örfá orð. Ég tel að þetta sé með merkari frv. sem fram hafa verið lögð hér á hinu háa Alþingi nú um skeið og það sé búið að vinna þetta verk, þetta frv. svo vel og ná um það svo víðtæku samkomulagi að nú ætti ekki að standa fyrir að það fáist afgreitt og taka þá til þess tíma og við flm. munum eftir því sem ég best veit spara það að eyða um of tíma Alþingis í umræður. Við teljum að málið liggi fullljóst fyrir.