Ferðaþjónusta
Miðvikudaginn 06. mars 1991


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Herra forseti. Ég mun ekki lengja þessa umræðu mikið, tala hér mikið skemur en í eina og hálfa klukkustund. Ég vil eingöngu færa hv. samgn. Nd. þakkir fyrir hennar störf og þá samstöðu sem tókst í nefndinni um afgreiðslu þessa mikilvæga máls. Ég er sannfærður um að það er jafnan svo að það er best ef slík samstaða tekst. Ekki á það síst við þegar verið er að setja leikreglur um málefni heillar atvinnugreinar eins og hér á við sem væntanlega, og vonandi, kemur til með að standa um eitthvert árabil og verða vinnugrundvöllur þessarar atvinnugreinar fyrir alla þá sem í henni starfa og án tillits til pólitískra skoðana og sú löggjöf sem þeir sem málefnum greinarinnar stýra af hálfu stjórnvalda vinna út frá, einnig án tillits til þess hverjir ráða húsum í samgrn., Ferðamálaráði eða annars staðar á næstu árum. Þess vegna er það svo, og þarf ekki flókna röksemdafærslu til þess að skýra, að það er mjög ánægjulegt þegar víðtæk samstaða tekst um afgreiðslu af þessu tagi þegar heildarlöggjöf fyrir eina mikilvæga atvinnugrein er til skoðunar. Auðvitað er það jafnan svo að um ýmis útfærsluatriði má ræða og deila og það er fullkomlega eðlilegt að menn hafi skipst á skoðunum eins og hér hefur gerst í meðferð málsins um einstök atriði, hvort eitthvað megi betur fara. Og þó svo að ég sé sannfærður um að hér er verið að skila góðu verki og vandaðri vinnu, þá er ég auðvitað jafnviss um það að hér er ekki verið að byggja neitt þúsund ára hús fyrir ferðaþjónustu á Íslandi. Auðvitað hljóta málefni hennar, löggjöf og starfsskilyrði að verða áfram til skoðunar og eitt af viðfangsefnum Alþingis á komandi árum.
    En ég þakka þeim sem hér hafa lagt hönd á plóginn, bæði ferðamálanefnd samgrn. enn og aftur og hv. samgn. Nd. fyrir hennar störf.