Mannanöfn
Miðvikudaginn 06. mars 1991


     Geir H. Haarde :
    Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til annars en að reyna að greiða fyrir því að þetta frv. verði samþykkt hér á Alþingi. Hins vegar liggur það fyrir að við þetta mál komu fram ýmsar athugasemdir við 1. umr. og það er ekki að sjá að hv. menntmn. hafi gefið sér tíma til þess að velta þeim fyrir sér nema að því er varðar athugasemdir dómsmrn., sem ég vék hér að við 1. umr., og fagna ég því að sjálfsögðu að það hefur verið tekið tillit til ýmissa ábendinga sem þaðan komu. Það kemur hins vegar ekki skýrt fram, hvorki í nál. menntmn. né í brtt. nefndarinnar og ekki kom það heldur fram í framsögu frsm., hvort dagsektir þær sem ráð er fyrir gert, og urðu hér nokkurt umræðuefni við 1. umr., hvort þessar dagsektir séu sú fjárhæð sem nefnd er í brtt. að hámarki eða á dag.
Kannski getur hv. frsm. greint frá því hér úr sæti sínu þannig að það komi skýrt inn í þingtíðindin. ( RA: Dagsektir eru ævinlega miðaðar við dag.) Eru þetta 1000 kr. á dag? ( RA: Já.) Það er nefnilega það. Það er sem sagt gert ráð fyrir því að leggja hér á 1000 kr. sekt pr. dag þannig að hinn sektartrúaði menntmrh. sem lagði fram þetta frv. hlýtur að vera hæstánægður með það. Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki áttað mig á því að það væri um svo háar fjárhæðir að tefla hér. Mánaðar töf getur kostað viðkomandi 30 þús. kr. Ég mun áskilja mér rétt til þess að huga betur að því máli við 3. umr.
    En þetta er eina atriðið í þessum athugasemdum dómsmrn. sem ég tel ástæðu til að nefna nú. Ég er sammála þeim breytingum sem hv. nefnd hefur gert, enda eru þær tillögur unnar í góðu samstarfi við dómsmrn. og í samræmi við það sem við hv. 17. þm. Reykv., Sólveig Pétursdóttir, létum fram koma hér við 1. umr. Hins vegar hefur nefndin eins og ég sagði ekki hirt um að fjalla um önnur álitamál, ekki að því er séð verður. Og enn þá hefur ekki fengist svar við þeirri spurningu sem ég varpaði hér fram við 1. umr. Hvernig stendur á því að ekki má skíra barn fleiri en tveimur nöfnum? Er einhver tæknileg ástæða fyrir því að því er varðar til að mynda Þjóðskrá? Við þekkjum eflaust öll dæmi um einstaklinga sem heita þremur nöfnum og mér finnst óframbærilegt að koma ekki með skýringar á því af hverju það á að vera bannað áfram. Það er reyndar bannað samkvæmt lögunum frá 1925 en allir vita að þau lög hafa verið þverbrotin í þessu efni sem öðrum. Ég fæ reyndar ekki séð að það geti verið nein tæknileg ástæða fyrir því að banna mönnum að heita þremur nöfnum. Menn geta heitið þremur mjög stuttum nöfnum sem taka minna pláss en tvö nöfn.
    Af þessari ástæðu hef ég leyft mér að flytja brtt. á þskj. 801 við 1. gr. frv. um að það megi skíra börn þremur nöfnum. Brtt. er þannig: ,,Hverju barni skal gefa eiginnafn eða nöfn, þó ekki fleiri en þrjú.`` Ég tel rétt að Alþingi kveði upp úr um þetta a.m.k. þangað til einhver haldbær skýring er á þessu fengin. Það er ekki hægt að halda því fram að það sé óíslenskt að skíra börn þremur nöfnum vegna þess að það hefur

tíðkast hérlendis áratugum saman ef ekki öldum saman, þó svo það sé ekki algengt.
    Ég hef leyft mér að gera hér á þskj. 801 aðra brtt. við 2. gr. frv. þar sem kveðið er á um að það megi ekki skíra barn svokölluðu millinafni eins og gert var ráð fyrir í frv. um mannanöfn sem lagt var fram 1971. Við þekkjum ýmis slík nöfn sem menn bera hér á Íslandi, t.d. millinafnið Berg, millinafnið Ben, millinafnið Áss o.s.frv., sem ekki er hægt að nota ein og sér sem eiginnöfn. Það er ekki óalgengt að systkini séu skírð þessu sama millinafni. Einhvers staðar í plöggum þessa máls kemur fram að þetta sé óíslenskt og það sé einhver ættarnafnalykt af þessu. Ég spyr: Hvað með það? Mér finnst ástæðulaust að banna fólki að skíra börn sín slíkum millinöfnum ef það svo kýs, ef það telur það smekklegt eða hefur aðrar haldbærar ástæður fyrir því að eigin dómi. Þó er rétt að taka fram að eigin - og millinöfn skuli ekki vera fleiri en þrjú samtals.
    Ég hef lagt hér fram fleiri brtt. 3. brtt. á þskj. 801 er bein afleiðing hinnar fyrstu að því er varðar þrjú nöfn, en 4. brtt. gerir ráð fyrir því að niður falli sú setning í frv. að óheimilt sé að taka upp ný ættarnöfn hér á landi. Það er ekki vegna þess að ég sé sérstakur talsmaður þess að ættarnöfnum fjölgi, þó að við frsm. heitum báðir ættarnöfnum. Það er ekki málið heldur hitt að það kunna að koma upp aðstæður, til að mynda þar sem eiginmaður er erlendur og heitir erlendu eftirnafni sem e.t.v. er ekki auðvelt að bera fram á íslensku, en fjölskylda hans að öðru leyti íslensk. Þá kann vel að vera að við einhverjar aðstæður teldi þetta fólk sér henta að taka upp nýtt ættarnafn, hugsanlega eitthvað sem mætti líkja við hið erlenda nafn mannsins. Mér finnst alveg óþarfi að banna það fyrir fram ef slíkt tilvik kæmi upp. Ég segi ekki að þetta sé stórmál en ég held að það ætti að banna sem minnst í þessum efnum.
    5. brtt. mín er í tveimur liðum. Hún er við 10. gr. frv. og er um það að í stað þess að þar sem stendur ,,Erlend kona sem giftist Íslendingi`` komi: Erlendur ríkisborgari. Brtt. skýrir sig sjálf og er á þá leið að erlendur ríkisborgari megi taka upp kenninafn íslensks maka síns og halda því áfram eftir að hann eða hún öðlast íslenskt ríkisfang. Hér er ekki líklegt að gera ráð fyrir því að erlendur maður vilji taka upp kenninafn þar sem eiginkona hans kennir sig við föður eða móður sína. Ég býst ekki við að margir útlendingar mundu vilja kalla sig Jónsdóttir eða því um líkt en það kann hins vegar að vera praktískt ef um er að ræða íslenskt eftirnafn að viðkomandi útlendingur geti tekið upp ættarnafn konu sinnar og fjölskylda hans að öðru leyti.
    Síðan er gert ráð fyrir því í b - lið, virðulegi forseti, að niður falli 2. mgr. 10. gr. sem gerir íslenskum konum, sem búið hafa erlendis með mönnum sínum, það að skyldu að fella niður föðurnafn hans sem kenninafn ef þær hafa borið það í útlöndum og flytja heim til landsins. Frv. gerir ráð fyrir því að hafi íslensk kona gift Íslendingi verið búsett erlendis og tekið upp föðurnafn hans sem kenninafn, eins og er algengt, þá

sé viðkomandi konu gert að skyldu við flutning til Íslands á nýjan leik að fella það niður og taka upp sitt fyrra kenninafn. Eflaust yrði þetta það algenga og venjulega í þessum efnum, og er það algenga. En mér finnst ástæðulaust að banna konu sem e.t.v. hefur búið árum eða áratugum saman í útlöndum og tekið upp kenninafn manns síns, að halda því þegar hún kemur til landsins aftur. Ég tel að það sé fullkomlega ástæðulaust ef konu, sem tekið hefur upp nafnið Jónsson í útlöndum og haldið því jafnvel áratugum saman, sé allt í einu gert að skyldu að kenna sig við föður sinn við flutning til landsins. Ég er ekki fjarri því, eins og ýjað er að í greinargerð með þessu frv., að kvaðir sem þessar nuddist nokkuð óþyrmilega utan í Mannréttindasáttmála Evrópu því nafn manns er að sjálfsögðu veigamikill partur af hans persónuleika og það er ástæðulaust að gera fólki að skipta um nafn oftar en nauðsynlegt er. Þess vegna hef ég lagt til að þessi málsgrein falli brott þó hún sé að sjálfsögðu ekki þungamiðja frv.
    Ég vil að öðru leyti, virðulegi forseti, endurtaka það sem ég sagði hér við upphaf ræðu minnar. Ég tel æskilegt að þetta frv. nái fram að ganga af mörgum ástæðum og mun ekki setja mig upp á móti því, hvað sem líður þeim brtt. sem ég hef hér flutt. Það er auðvitað orðið löngu brýnt að um þessi mál gildi alvörulög og ég tel að í aðalatriðum hafi vel tekist til við samningu þessa frv. En á því eru hins vegar að mínum dómi smávægilegir gallar eins og þeir sem ég hef verið hér að nefna og gert brtt. um.