Ferðaþjónusta
Miðvikudaginn 06. mars 1991


     Forseti (Árni Gunnarsson) :
    Hv. 1. þm. Norðurl. v. og formaður þingflokks Framsfl. hefur óskað eftir því að hlé verði gert á þessum fundi og verður forseti við þeirri beiðni. --- [Fundarhlé.]
     Áður en gengið verður til atkvæðagreiðslu vill forseti láta þess getið vegna þess uppnáms sem hefur orðið í deildinni að honum er mikill vandi á höndum. Þegar þannig stendur á að hæstv. ríkisstjórn vill ná fram miklum fjölda stjfrv. telur forseti það meginskyldu ríkisstjórnarinnar að ganga svo frá málum og binda hnúta sína þannig að það sé alveg ljóst hvaða mál eigi að fá framgang þegar svo skammt lifir af þinghaldinu. Þess vegna óskaði forseti eftir því við hæstv. forsrh. í dag að eigi síðar en á föstudag lægi fyrir forgangslisti um það hvaða stjfrv. ættu að ná fram að ganga. Þetta er skilyrði þess að fundahöld og þinghald geti verið með skikkanlegum hætti. Að öðrum kosti er verið að efna til óþarfra átaka í þingdeildinni á milli hv. þingdeildarmanna og þeirra sem hafa áhuga á því að koma málum sínum fram.
    Vegna ummæla hv. 2. þm. Vestf., þá sagði forseti áðan að því fyrr sem þessari atkvæðagreiðslu yrði lokið því fyrr yrði hægt að taka önnur mál á dagskrá. Forseti mun greiða fyrir því að það mál sem hv. þm. hefur áhuga á að nái hér fram verði tekið til umræðu ef tími leyfir. Meira getur forseti ekki sagt um að mál.