Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. 6. þm. Norðurl. e., hv. 4. þm. Vesturl. og hv. 1. og 2. þm. Vestf. beina til mín fsp. á þskj. 378 um neitun á að fram fari opinber rannsókn á brottrekstri ríkisstarfsmanns.
    Í fyrsta lagi er spurt: ,,Hvað veldur að opinber starfsmaður, sem vikið hefur verið úr starfi eftir rúmlega aldarfjórðungsstörf, fær mál sitt ekki rannsakað að hætti opinberra mála í samræmi við ákvæði III. kafla laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þegar hann óskar eftir því?``
    Í III. kafla laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er á tveimur stöðum vikið að opinberri rannsókn vegna brottvikningar starfsmanns. Annars vegar eru í 8. gr. laganna ákvæði um rannsókn þegar starfsmanni er veitt lausn um stundarsakir fyrir meintar misfellur í starfi. Skal þá mál starfsmanns rannsakað af kunnáttumönnum eða fyrir dómi að hætti opinberra mála ef ástæða þykir til svo að upplýst verði hvort rétt er að veita honum lausn að fullu eða láta hann aftur taka við starfi sínu. Hér er um það að ræða að stjórnvald á val á því hvernig það stendur að rannsókn máls þegar starfsmanni hefur verið veitt lausn um stundarsakir.
    Hins vegar er í 11. gr. laganna ákvæði um rannsókn þegar starfsmanni hefur verið vikið úr stöðu. Þá brottvikningu getur starfsmaðurinn borið undir dómstóla, sbr. 2. mgr., en þar segir: ,,Rétt er þeim, er vikið er úr stöðu, að bera málið undir úrlausn dómstóla, enda fari rannsókn slíks máls að hætti opinberra mála. Stefna skal fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs.``
    Samkvæmt þessu er starfsmanni tryggt að mál sem hann höfðar gegn fjmrh. vegna brottvikningar verði rannsakað að hætti opinberra mála. Málið er rekið sem einkamál en rannsókn þess fer hins vegar fram með afbrigðilegum hætti, þ.e. að hætti opinberra mála. Er þannig ekki þörf atbeina stjórnvalda til að sérstök opinber rannsókn fari fram af því tilefni heldur fer rannsókn sjálfs dómsmálsins fram með þeim hætti.
    Fyrirspurn þessi er fram komin vegna máls tiltekins starfsmanns er vikið var úr starfi hjá Ríkisendurskoðun. Rannsókn á grundvelli 8. gr. starfsmannalaga kom ekki til álita þar sem ekki var um lausn um stundarsakir að ræða. Það liggur hins vegar fyrir að vegna brottvikningarinnar hefur starfsmaðurinn höfðað einkamál gegn Ríkisendurskoðun og fjmrh. fyrir bæjarþingi Reykjavíkur. Rannsókn þess máls á skv. 11. gr. starfsmannalaga að fara fram að hætti opinberra mála. Samkvæmt þeim upplýsingum sem dómsmrn. hefur aflað um gang þessa máls hefur stefnandi málsins ekki borið sig eftir slíkri rannsókn fyrir dóminum.
    Í öðru lagi er spurt: ,,Getur hvarf opinbers skjals, sem gert var í fjmrn. 9. apríl 1984, um launahækkun Inga B. Ársælssonar, en efni þess var loks, eftir mikla eftirgangssemi, staðfest af fjmrn. með bréfi, dags. 11. okt. 1990, ekki verið sjálfstætt tilefni til opinberrar rannsóknar? Er ekki enn frekari ástæða til opinberrar rannsóknar þegar tilurð skjalsins hefur ítrekað verið

neitað af hálfu fjmrn. og Ríkisendurskoðunar fyrir bæjarþingi Reykjavíkur?``
    Þegar rætt er um opinbera rannsókn er venjulega átt við rannsókn í tilefni af meintri refsiverðri háttsemi. Það er almennt ekki hlutverk dómsmrn. eða dómsmrh. að kveða á um opinbera rannsókn eða meta tilefni hennar. Um slíkt fjalla lögregluyfirvöld og ríkissaksóknari lögum samkvæmt og án afskipta ráðuneytis. Ekki er kunnugt um að beiðni um opinbera rannsókn vegna meints hvarfs umrædds skjals hafi verið borin fram gagnvart þessum aðilum. Hins vegar er ljóst að framlagning umrædds skjals er atriði sem varðað getur einkamál það sem starfsmaðurinn hefur höfðað, einkamál þar sem rannsókn skal lögum samkvæmt fara fram að hætti opinberra mála. Ef nauðsyn ber til rannsóknar af þessu tilefni ákvarðar dómari þess máls hana en ekki stjórnvöld.
    Loks er í þriðja lagi spurt: ,,Er ákvörðun dóms - og kirkjumrn. frá 26. okt. 1990, um að neita Inga B. Ársælssyni að fram fari opinber rannsókn á máli hans, gild stjórnvaldsákvörðun samkvæmt íslenskum rétti þegar annar þeirra manna, sem undirrita bréf dóms - og kirkjumrn., er mjög tengdur málinu vegna fyrri starfa sinna?`` Hér ber þess fyrst að geta að því er ranglega haldið fram að dómsmrn. hafi neitað því að fram fari opinber rannsókn á máli. Í bréfi ráðuneytisins var skýrt tekið fram að það taldi að sá áskilnaður 11. gr. laganna frá 1954 um að rannsókn máls fari að hætti opinberra mála eigi við um meðferð máls fyrir þeim dómi sem það er rekið fyrir en þýði ekki að fara eigi fram sérstök lögreglurannsókn eða rannsókn fyrir sakadómi. Erindi lögmannsins um afskipti ráðuneytisins af því að opinber rannsókn fari fram var því hafnað af þeirri ástæðu einni. Bréf ráðuneytisins fjallaði að öðru leyti ekki um það hvort opinber rannsókn ætti að fara fram, enda málið í höndum dómstóla.
    Að því er varðar ráðuneytisbréfið skal tekið fram að það var undirbúið á hefðbundinn hátt og ritað í umboði ráðherra. Í þessu sambandi verður ekki talið að fyrri störf ráðuneytisstjórans í dóms - og kirkjumrn., sem undirritaði bréfið annar tveggja, hafi áhrif á efnislega afstöðu ráðuneytisins í málinu.