Skipulagsnefnd um öryggis- og varnarmál
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegi forseti. Þann 31. jan. sl. var rædd hér í Sþ. fsp. sem ég bar fram við hæstv. utanrrh. um svonefnda skipulagsnefnd um öryggis - og varnarmál og var hún í nokkrum liðum. Í svari sínu sagði hæstv. utanrrh. m.a. orðrétt:
    ,,Þessi nefnd var skipuð að frumkvæði hæstv. dómsmrh. Óla Þ. Guðbjartssonar eins og vikið var að í svari mínu, þ.e. hún er skipuð í kjölfar þess að dómsmrh. ritar bréf þann 6. sept. sl. og fer fram á það þannig að það fer ekkert á milli mála.``
    Þetta segir hæstv. utanrrh. og vísar frá sér að hafa haft frumkvæði að skipun þessarar nefndar. Af þessu tilefni hef ég borið fram fsp. á þskj. 580 til hæstv. dómsmrh. um skipulagsnefnd um öryggis - og varnarmál svohljóðandi:
 ,,1. Hvaða ástæður lágu til þess að dómsmrn. hafði með bréfi til utanrrn. 6. sept. 1990 frumkvæði að því að óska eftir að sett yrði á fót svonefnd ,,skipulagsnefnd um öryggis - og varnarmál`` með aðild bandaríska herliðsins á Keflavíkurflugvelli (sbr. svar utanrrh. í Sþ. 31. jan. 1991)?
    2. Hvert á að mati dómsmrh. að vera verkefni þessarar nefndar?
    3. Telur dómsmrh. eðlilegt að tengja starfsemi erlends herliðs við störf íslenskra stofnana, eins og stefnt virðist að með starfi þessarar nefndar?``
    Virðulegur forseti. Þegar mál þessi voru rædd vegna fyrirspurnar til hæstv. utanrrh., þá vék hæstv. utanrrh. sér undan að svara því hvort og hvaða fulltrúar hefðu verið skipaðir í þessa nefnd frá bandaríska herliðinu. Kannski getur hæstv. dómsmrh. leyst einnig úr því og greint okkur frá því hvaða fulltrúar hins erlenda herliðs eiga sæti í þessari nefnd með fulltrúum innlendra stofnana og ráðuneyta.