Atvinnumál á Suðurnesjum
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki endurtaka þær tölur sem hv. fyrirspyrjandi fór með um þann fjölda sem starfar hjá varnarliðinu eða í tengslum við það. Þær voru allar réttar.
    Ég skil að áhyggjur hv. fyrirspyrjanda stafa m.a. af því að nú horfir friðvænlegar milli austurs og vesturs og ég geri ráð fyrir að það dragi úr umsvifum varnarliðsins og vil ég taka undir, sem ég veit að hún hlýtur að vera mér sammála, vonir um að svo reynist.
    Þær upplýsingar sem ég hef nýjastar um vinnu á vegum varnarliðsins og eru til viðbótar við það sem hv. fyrirspyrjandi nefndi, að Aðalverktakar muni ráðgera að ráða 70 manns til starfa nú á háannatímanum og er þá í raun það starfslið sem er tengt varnarliðinu mjög svipað því sem verið hefur. Ekki hafa fengist upplýsingar um ráðgerða fækkun hjá varnarliðinu á fjárhagstímabili þess fram til 1995 umfram það sem þegar er orðið með þeirri frystingu á nýráðningu sem ákveðin var í janúar sl. Út af fyrir sig held ég að ekki sé um að ræða umtalsverða fækkun í störfum hjá varnarliðinu nú á næstunni. Það er vissulega áhyggjuefni á þessu svæði að mjög erfitt hefur reynst að fá fólk til fiskvinnu. Það virðist meiri áhugi fyrir því að sækja vinnu á vegum varnarliðsins. Atvinnuástand á þessu svæði hefur því út af fyrir sig ekkert verið lakara nú heldur en víða annars staðar um landið.
    Engu að síður tek ég undir það með hv. fyrirspyrjanda að sannarlega þarf að efla ýmsa aðra atvinnu á svæðinu. Ég er hins vegar ekki þeirrar skoðunar að ríkisstjórn fyrir sitt leyti eigi að gera áætlun um hvað skuli byggjast upp á svæðinu. Ríkisstjórn og stofnanir hennar eiga að skapa grundvöll fyrir dugmikla heimamenn til að ráðast í ýmiss konar framkvæmdir á svæðinu og að því hefur verið unnið. Þegar í upphafi þessa áratugar fékk Framkvæmdastofnun ríkisins, sem þá hét svo og Byggðastofnun var þáttur í, það verkefni að skapa samráð og grundvöll á Suðurnesjum til þess að vinna þar að annarri atvinnuuppbyggingu. Leiddi það til þess að Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja var sett á fót. Það hefur síðan starfað í ýmsu formi og starfar nú að ég tel í góðu samstarfi við öll sveitarfélögin á Suðurnesjum og vinnur einmitt það verkefni sem hv. fyrirspyrjandi spurði um.
    Hins vegar hafa stjórnvöld m.a. rætt um atvinnuástand á Suðurnesjum í tengslum við byggingu álbræðslu, sem ég er ekki sammála hv. fyrirspyrjanda að leysi engin vandamál. Við álbræðslu þá sem fyrirhuguð er munu starfa um 600 manns og þá eru ekki talin þau fjölmörgu verkefni sem tengd eru álbræðslu. M.a. var Byggðastofnun fengin til að skoða hvaða áhrif það mundi hafa á atvinnuþróun á Suðurnesjum. Byggðastofnun telur að stór hluti af því starfsliði kæmi frá Suðurnesjum og mundi fara jafnt og þétt vaxandi, ekki síst þegar dregur úr starfsemi á vegum varnarliðsins.
    Stjórnvöld hafa einnig rætt um ýmsar leiðir til að auka atvinnu á Suðurnesjum, eins og hefur verið rætt hér utan dagskrár. Ég ætla nú ekki að fara að rekja

þær hugmyndir hér en sumar þær hugmyndir a.m.k. eru mjög raunhæfar. Það er einlæg von mín að úr flýtingu byggingar fjölbrautaskóla verði, sem þingmenn þessa kjördæmis þekkja mjög vel og nýtur stuðnings menntmrn. Einnig er í athugun hvort ekki megi stuðla að því að Flugleiðir flýti byggingu flugskýlis. Það er mjög stórt mál fyrir Suðurnesin því það mun skapa aðstöðu til að taka viðhald flugvéla Flugleiða hingað til landsins og ekki aðeins það heldur reyndar viðhald erlendra flugfélaga. Þetta er hið athyglisverðasta mál.
    Þá vil ég geta þess að ég skipaði á sl. vori nefnd til að athuga hvort ekki væri tímabært að koma upp fríverslunarsvæði á Suðurnesjum, sem í tengslum við flugvöllinn gæti orðið mjög mikið atvinnuspursmál og skapað fjölmarga möguleika til atvinnuaukningar á Suðurnesjum. Af hálfu stjórnvalda hafa því verið lögð drög að mikilli atvinnuuppbyggingu á þessu svæði. En ég endurtek að heimamenn sjálfir verða fyrst og fremst að velja það úr sem þeir telja að henti þar best og til þess treysti ég þeim mjög vel.