Atvinnumál á Suðurnesjum
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Þessi fsp. lýsir áhyggjum út af atvinnuástandi á Suðurnesjum, næstfjölmennasta kjördæmi landsins. Jafnframt lýsir fyrirspyrjandi yfir þeirri ósk sinni að sá dagur renni hið fyrsta upp að varnarliðið hverfi af landi brott með allt sitt hafurtask og þar með falli niður 1.825 störf íslenskra manna sem þar vinna. Jafnframt lýsir hv. fyrirspyrjandi því yfir að hún telji áform um byggingu álvers á Keilisnesi og þá atvinnusköpun sem því tengist, bæði á meðan á byggingartíma stendur og í starfrækslu, hið versta mál og leysi engan vanda. Þá er hv. fyrirspyrjandi búinn að lýsa því yfir að hún telji það raunhæfan kost núna á næstunni að skapa atvinnuleysi á Suðurnesjum fyrir á fjórða þúsund manna. Þetta er dálítið þversagnarkennt og er ástæða til að spyrja hv. fyrirspyrjanda: Hvaða hugmyndir hefur hv. fyrirspyrjandi og þingmaður Reyknesinga um atvinnumál á Suðurnesjum?
    Nú er ástæða til þess, vegna þess að fólk kann að hafa nokkrar áhyggjur af afkomu sinni og atvinnuöryggi, að lýsa því yfir hér úr þessum ræðustól, vegna þess að það er alið nokkuð á þeim áhyggjum, að menn þurfa ekki að hafa áhyggjur af því, sem vinna í þágu verktakastarfseminnar, Aðalverktaka og Keflavíkurverktaka og annarra, eða vinna í þágu varnarliðsins að þar komi til einhverra fyrirvaralausra uppsagna. Það er upplýst og staðfest að það verður ekki og kemur ekki til uppsagna eða niðurfellingar starfa út þetta fjárhagsár. Og í annan stað. Það gerist ekki, hvað svo sem gerist í alþjóðamálum, að varnarliðið hverfi af landi brott fyrirvaralaust.
    Meginatriðið í svari við spurningu hv. fyrirspyrjanda er að sjálfsögðu það að ef og þegar til þess kemur, þá er verið eftir 15 ára hlé að gera ráðstafanir til þess að byggja álver á Suðurnesjum, nýta aðra meginorkulind okkar og skapa störf þannig að Suðurnesjamenn geti verið öruggir um það, ef þetta gerist á sama tíma, að þeir sitji ekki uppi atvinnulausir þúsundum saman.