Atvinnumál á Suðurnesjum
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Mér finnst þessi fsp. eðlileg en ég held að það hljóti að vera eðlilegt að spurt sé í því sambandi: Hvað hafa íslenskir ráðherrar gert til þess að tryggja að fraktflug um Keflavíkurflugvöll geti verið með eðlilegum hætti? Hvað hafa þeir gert? Þar liggja möguleikarnir að auknum umsvifum í atvinnulífi Suðurnesja umfram flest annað. Hins vegar mun það eiga sér stað þar eins og víða að það er atvinnuleysi þó ekki takist að fá fólk til fiskvinnslu. Ég hygg að hv. 4. þm. Reykn. sé það ljóst að sú þróun hefur verið víða á Íslandi að Íslendingar gefa sig ekki í fiskvinnslu en skrá sig heldur atvinnulausa.