Atvinnumál á Suðurnesjum
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Mér var ekki ljóst að röðin væri komin að mér. Það voru svo margir búnir að biðja um orðið. Ég ætla að drepa á nokkur þau mál sem hafa komið fram á þessum fundi sem er að taka á sig mynd framboðsfundar en það var ekki ætlunin.
    Ég vil í fyrsta lagi geta þess að mér finnst það áhyggjuefni ef ekki er búist við samdrætti á Keflavíkurflugvelli á næstu árum. Þeir sem tala hér um þversagnir tala fyrir sjálfa sig, ekki fyrir mig. Mér þykir nefnilega að herinn og tilvist hans á Suðurnesjum hafi verið lamandi hönd á atvinnulífi og atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum og ég óttast það að álverið muni verða önnur eins lamandi hönd sem stendur öllum öðrum hugmyndum fyrir þrifum. Ég vil vekja athygli á að atvinnuleysi kvenna á Suðurnesjum er yfir 6% á meðan karlarnir eru í allt of miklu atvinnuleysi með 1 -- 2% að jafnaði. ( Gripið fram í: Þetta er rangt.) Þetta eru tölur sem eru hér fyrir febrúar í þessu plaggi og þú getur skoðað það á eftir sjálfur.
    Í öðru lagi var hér beint til mín fyrirspurn. Því miður hef ég ekki sama tíma til að svara og þeir sem svara fyrirspurnum, en hér hefur þegar komið fram að það er og ætti að vera að gerast ýmislegt í atvinnumálum á Suðurnesjum annað en það að líta á álver sem einhverja allsherjarlausn því það er hún ekki og það endurtek ég. Þá vil ég nefna, auk þess sem hér hefur verið nefnt í sambandi við Bláa lónið og flugskýlið, ylrækt, ég vil nefna ferðaþjónustu, sem á mikla framtíð fyrir sér þarna, og aðra nýtingu orkunnar heldur en til álvers.
    Í þriðja lagi er óhjákvæmilegt annað en að nefna það, sem hv. 4. þm. Reykn. kom inn á, hversu mjög kvóti hefur farið af svæðinu. Þetta tel ég að sé í beinum og óbeinum tengslum við tilvist flugvallarsvæðisins á Reykjanesi og síðan þess að nú hafa allir mænt á álver sem einhverja allsherjarlausn. Ég er nefnilega hrædd um að Suðurnesingar sitji ekki við sama borð og aðrir einmitt vegna þessarar staðreyndar sem ég hef hér rakið.
    Ég vildi mjög gjarnan hafa hér lengra mál en býst ekki við að ég megi það. Ég vil ítreka það að lokum að ábyrgð ríkisstjórnar er mikil vegna þess að það er af hennar völdum að atvinnulíf á Suðurnesjum er með þeim hætti sem það er í kringum herinn og Keflavíkurflugvöll. Því er ekki hægt að segja, eins og hæstv. forsrh. sagði hér, að þetta sé ekki mál ríkisstjórnarinnar.